15.11.1933
Neðri deild: 10. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (940)

17. mál, framfærslulög

Jóhann Jósefsson:

Það er rétt hjá hv. flm., að tilhöguninni á framfærslumálum okkar er orðið harla ábótavant. Undanfarin ár hafa sveitirnar hrundið af sér framfærslubyrðunum með styttingu sveitfestistímans. En mál þetta er meira vandamál en svo, að það verði leyst með þessu frv., sem hér liggur fyrir. Vegna reynslu bæjanna í þessum efnum mun margur helzt hallast að því, að landið verði gert allt að einu framfærsluhéraði.

Með þessu frv. er opnuð leið enn betur en áður fyrir sveitirnar til þess að koma af sér óefnilegum mönnum á framfærslu í bæjunum. Það er hægt að benda á dæmi þess, að sveitirnar hafa styrkt þá menn, er líklegir voru til að verða þeim til byrði, til þess að komast að sjónum og verða sveitfastir þar. Þetta verður enn auðveldara en aður, ef frv. verður samþ. Ég býst við, að eina afleiðingin af samþykkt frv. yrði sú, að enn skýrar kæmi fram en áður nauðsyn þess að gera allt landið að einu framfærsluhéraði.

Mörg bæjarfélög eru nú að kikna undir framfærslubyrðunum. Kröfur á aðra hreppa eru til einskis nýtar nema til að skrifa um þær. Það hefir reynzt ómögulegt í fjölmörgum tilfellum að fá endurgreiddan sveitarstyrk frá sveitunum. Fátækraflutningar eiga sér ekki stað lengur, nema á pappírnum, og hverfa alveg af sjálfu sér, ef allt landið verður gert að einu framfærsluhéraði.