14.11.1933
Efri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (991)

12. mál, húsnæði fyrir fornmenja og málverkasafnið

Jón Þorláksson:

ég vil lýsa yfir stuðningi mínum við þessa till. ég álít, að það sé rétt að rannsaka, hvort tiltækilegt væri að koma fornmenjasafninu og listaverkasafni landsins fyrir á þennan hátt til bráðabirgða. Geri ég það með það fyrir augum, að ef þetta reyndist tiltækilegt, væri þó ekki undan vikizt, að landið sæi þessum söfnum fyrir framtíðarhúsnæði, svo fljótt sem þarfir leikhússins útheimta pláss til fyrirætlaðrar notkunar í sambandi við rekstur leikhússins. Vil ég bæta því við, að ég álit, að þetta ætti yfir höfuð ekki að dragast lengi enn, sérstaklega að því er þjóðmenjasafnið snertir, að því verði séð fyrir sæmilegu húsnæði til frambúðar.