17.11.1933
Neðri deild: 12. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (992)

31. mál, virkjun Fljótár

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Hv. 2. þm. Skagf. taldi, að þetta mál væri ekki sérmál Siglufjarðar, og ég get verið því sammála að nokkru leyti. Það er rétt, að hér er um að ræða að virkja fallvatn, sem er í öðru héraði, en frv. ber það með sér og ætlast til, að þetta hérað, eða sá hreppur, sem fallvatnið er í, geti verið með í þessari framkvæmd og notið hennar og haft sitt gagn af því. Það er rétt, sem hv. 2. þm. Skagf. gat til, að frv. er aðallega samið af bæjarfógetanum á Siglufirði, og mér þótti rétt að láta frv. koma fyrir hv. d. í þeim búningi, sem Siglfirðingar sjálfir kjósa, að það sé í, en það er annað mál, eins og ég gat um í upphafi, að ég sem flm. mun vera fús til þess að ganga inn á þær breyt., sem mér finnst, að rök mæli með og sanngjarnar séu. Hv. 2. þm. Skagf. var að tala um, að í þessu frv. væri Holtshreppi aðeins veittur réttur til þess að fá að njóta þátttöku í þessu fyrirtæki. En út af því, sem hann talaði um það, vil ég benda á, að Siglufjarðarkaupstaður á þarna vatnsréttindi, og þau réttindi hefir hann eignazt á alveg löglegan og eðlilegan hatt. Það, sem hv. þm. tók fram, að hann skildi ekki upphaf 6. gr. frv., getur verið rétt, að orðalagið sé ekki sem heppilegast á greininni, en ég hygg þó, að það sé alveg ljóst, við hvað er átt, sem sé að Siglufjarðarkaupstaður megi ekki leggja neinar kvaðir á Holtshrepp vegna notkunar á rafmagni fram yfir 6% af því fé, sem Siglufjörður leggur sjálfur fram. M. ö. o. ef hreppsfélagið leggur fram tiltölulega af stofnkostnaðinum, sem svarar til rafmagnsnotkunar þess, þá getur Siglufjörður engar kvaðir lagt á það, en ef Siglufjarðarkaupstaður leggur fram allan stofnkostnað, þá sé það áskilið, að hann megi ekki leggja á Holtshrepp nema 6% af tiltölulegum stofnkostnaði, miðað við það rafmagn, sem Holtshreppur kann að fá, og virðast það vera ágæt kjör.

Það er svo bæði með 6. gr. og allt frv., að það stendur til bóta í n., og ég býst við, að ég og hv. 2. þm. Skagf. getum sætzt á að láta málið ganga til n. og ræða svo við hana um þær breyt., sem hentugt þætti að gera. Og tilgangur minn er vitanlega ekki sá, að stuðla að því að bera rétt Holtshrepps fyrir borð eða annara sem þar eiga hlut að máli, og hygg ég, að Siglufjarðarkaupstaður óski þess ekki heldur. Þar af leiðandi vona ég, að gott samkomulag geti orðið um þetta mál og að það geti orðið afgreitt af þessu þingi.