23.10.1934
Neðri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

22. mál, verkamannabústaðir

Thor Thors:

Mér skildist á ræðu hv. þm. V.-Ísf., þegar síðast var rætt um þetta mál, að hann teldi mjög æskilegt, að það yrði tryggt, svo sem frekast væri unnt, að byggingastarfsemi þessi, sem hér er um að ræða, komist í gott horf. Ég hygg, að út frá þessari ósk hv. þm. sé langeðlilegast og tryggast að ákveða að hafa byggingarfélögin tvö, sem starfa í sama kaupstað með yfir 10 þús. íbúa. Þá hefir verið vikið að því, að komið gæti fram ágreiningur um það, í hvaða röð menn skyldu öðlast réttindi þessara l. Ef leyft yrði að hafa félögin tvö, er það eðlilegast, að einstakir meðlimir þeirra öðluðust réttindi l. eftir því, hvenær þeir gengju í félögin. En ef nú á að drepa annað félagið hér í Rvík og lögbinda það, að aðeins eitt félag skuli vera hér starfandi, þá hlýtur hv. þm. að vera ljóst, að hætta er á því, að þeir menn, sem héldu, að þeir væru að öðlast réttindi l. þegar þeir gengu í félagið, sem drepið yrði, félag sjálfstæðra verkamanna - og þeir höfðu fyllstu ástæðu til að halda það -, þeir mundu glata þeim réttindum, ef félagið yrði lagt niður, nema þeir mættu teljast félagar í þessu eina lögboðna félagi og öðlast öll félagsréttindi frá þeim tíma, er þeir gengu í hitt félagið í góðri trú á því, að þeir mættu halda þeim réttindum, sem það hafði fram að bjóða. Ef menn vilja halda sér við réttlætishlið þessa máls og ekki svipta menn þeim rétti, sem hv. Alþ. hefir boðið fram í þessu efni, þá er ekki nema ein leið til í þessu sambandi, nefnil. sú, að leyfa báðum byggingarfélögunum að starfa hér Rvík.