14.11.1934
Efri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

22. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) [óyfirl.]:

Ég skal, hvað mig snertir, reyna að verða við þeim tilmælum hæstv. forseta, að hafa ekki miklar málalengingar í frammi um þetta mál. Það vill líka svo vel til, að innan n. hefir enginn styrr orðið um málið. Þó að svo hafi verið áskilið, að hver nm. hefði óbundnar hendur með að bera fram brtt., þá hefir, eins og sjá má af því, sem fram er komið, orðið lítill ágreiningur. N. er í aðalatriðum samþ. frv. og gerir við það aðeins örlitla brtt. Skal ég ekki fara inn á málið sjálft, en víkja fáum orðum að þeim brtt., sem fyrir liggja.

Það er þá í fyrsta lagi brtt., sem við hv. 2. þm. S.-M. flytjum við 4. gr. frv., að 2. málsgr. falli niður. Við erum þeirrar skoðunar, að innan hvers bæjarfélags sé aðeins eitt byggingarfélag, með þeim ákvæðum, sem í frv. felst, að heimilað sé að hafa deildir innan þess félags, ef ágreiningur er milli félagsmanna, hvernig haga skuli byggingunum, og álítum við, að meiri starfsemi mundi leiða af því í heild, að hafa aðeins eitt byggingarfélag, og minni ágreiningur verða.

Þá vil ég víkja fáum orðum að brtt. á þskj. 430, frá hv. 2. þm. Rang. Hann hefir sýnt fullan skilning á þessu máli, sem sjá má af því, að þær brtt., sem hann flytur, eru tiltölulega meinlausar, og a. m. k. önnur þeirra til bóta. En ég vil þó segja það um a.-lið þessara brtt., þar sem hann leggur til að fella niður ákvæði úr fyrstu málsgr. 8. gr., sem þýðir það, að ekki sé heimilt fyrir byggingarsjóð að lána fé til bráðabirgða úr einni deild til annarar, að þetta ákvæði er hugsað þannig, að gera það ekki að gildandi reglu, heldur á þann veg, að ef svo ber til, að nauðsynlegt sé að afla skyndilega fjár, annaðhvort til að koma af stað byggingu eða halda áfram byggingu, þá megi veita slíkt bráðabirgðalán til þess að hefta ekki framkvæmdir. En þetta mundi aðeins verða í þeim tilfellum, að viðkomandi byggingarfélagi hefði brugðizt lán eða dráttur orðið á, að það væri útborgað. Ég tel miður fara, ef fyrir þetta er girt með öllu, því að oft getur komið fyrir, þó að full trygging sé fyrir láni, að það dragist úr hömlu, að það verði útborgað. Það er hugsað eingöngu undir svona kringumstæðum, að láta slík bráðabirgðalán af hendi. Ég legg því til, að till. verði ekki samþ., þó að hún sé í sjálfu sér meinlaus. - En b-liður till. tel ég að sé aðeins til þess að taka fyllra fram um eftirlit með starfsemi byggingarfélaganna, og er ég því samþ. honum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara frekar út í málið; það hefir verið deilt mikið um það í hv. Nd., en ég vænti, að þeirri deilu geti ekki haldið áfram hér, þar sem n. er í raun og veru nokkurnveginn sammála um, að málið eigi að ganga fram.