14.11.1934
Efri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

22. mál, verkamannabústaðir

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Að vísu ætlaði ég ekki að taka til máls um þetta mál við þessa umr. En af því að hv. frsm. gaf mér tilefni til að skjóta nokkrum orðum inn í hans ræðu, vil ég gera nokkra grein fyrir, hvað ég átti við með þeim orðum.

Ég er hv. frsm. sammála um, að slíkur félagsskapur sem þessi ætti að vera pólitískt litlaus, og það er rétt, að það er hreinasta fjarstæða, að verkamenn, sem studdir eru með l. um verkamannabústaði, þurfi að breyta um skoðun til þess að geta verið góðir og gildir meðlimir í byggingarfélagi verkamanna. En ég gat ekki stillt mig um, þegar hv. frsm. var að tala um þetta, að grípa fram í fyrir honum til að minna á þá ótrúlegu smekkleysu, sem viðhöfð var þegar verkamannabústaðaviðbótin var reist, að þá voru dregnir að húnum margir tugir fána, sem allir voru merki eins ákveðins pólitísks flokks. Þetta skapar grun um, að með þessu sé tilraun gerð til að hafa pólitísk áhrif á þá, sem þarna eiga að búa. Ef þetta átti ekki að skoðast sem pólitísk agitation, þá held ég, að ekki hefði verið hægt að fremja öllu meiri smekkleysu við þetta tækifæri, heldur en með þessu var gert, því að eins og allir vita er það síður, að þjóðfáni er dreginn á stöng, þegar hús eru reist. Og þess vegna minntist ég á þetta áðan, þegar hv. frsm. var að tala um það af miklum fjálgleik, að það væri víst ekki verið að reyna að hafa áhrif á pólitískar skoðanir félagsmanna, þeir mættu hafa hvaða pólitíska trú sem þeir vildu.

Hv. þm. sagðist ekki skilja í þessari hræðslu okkar sjálfstæðismanna við þetta frv. Við höfum ekki sagt annað um þetta en það, sem kunnugt er, að Alþfl. og Framsfl. draga pólitík inn í þetta mál og ætla að nota það sér til pólitísks framdráttar. Í sambandi við þetta mun það því hafa verið, að hv. frsm. komst að þeirri niðurstöðu, að sundrungarandinn mundi hverfa, ef félag væri aðeins eitt í hverjum kaupstað, og hefir hann sennilega átt við það, að allir mundu, sem í verkamannabústöðunum byggju, ganga í rauðu hjörðina, svo að þar mundi þá verða ein hjörð og einn hirðir og því engin sundrung þar framar til.

Það er auðvitað á allra vitorði, að þetta frv. er fyrst og fremst komið fram í því skyni að koma í veg fyrir og gera að engu þá stofnun nýs byggingarfélags, þar sem gæti verið önnur pólitísk skoðun mest ráðandi heldur en skoðanir sósíalista. Með þessu frv., eins og með frv. um vinnumiðlun, er stefnt að því að nota meirihlutavaldið á þingi til þess að vinna á móti meiri hl. bæjarstj. Rvíkur. Þetta er á allra vitorði, og þetta veit hv. frsm. líka, þó að hann þykist ekki hafa heyrt þess getið, að með frv. þessu eigi að koma vissu byggingarfélagi fyrir kattarnef.

Setjum svo, að nazistum yxi svo fiskur um hrygg hér, að þeir stofnuðu byggingarfélag, sem við sérstakt tækifæri drægi upp sinn hakakrossfána. Mundi þá ekki hv. frsm. sem jafnaðarmanni, ef hann hefði gengið í byggingarfélag þetta, finnast það óþægileg eða jafnvel særandi smekkleysa? Mundi honum ekki finnast það óviðeigandi, skoðað frá því sjónarmiði, að lögum samkv. eiga allir meðlimir byggingarfélaganna að vera jafnréttháir, án tillits til skoðana í pólitík.

Hv. frsm. var að hælast um yfir því, að við sjálfstæðismenn hefðum verið á móti því að samþ. lög um verkamannabústaði og að það væri því spaugilegt, að við fórum að byggja verkamannabústaði undir þessum l. En ég er alveg sömu skoðunar um þetta verkamannabústaðamál eins og ég hefi alltaf verið. En það er ágreiningur um það hér á þingi, hvort þessi l. hafi gert eins mikið gagn og búizt var við. Vegna þeirra hafa vitanlega verið reist hús. En vegna þeirra hefir hinsvegar einnig verið beðið svo eða svo lengi með að reisa hús, sem annars hefðu verið byggð fyrr, því að menn hafa verið að bíða eftir því að fá að njóta fríðinda þessara l., þessara fríðinda, sem svo mjög eru takmörkuð.