20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

22. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Héðinn Valdimarsson):

Það hefir verið deilt svo mjög um þessi atriði, að ég tel óþarft að fara að vekja deilur um þau að nýju. Í ræðu hv. þm. Snæf. kom ekki nema eitt nýtt atriði fram, og það var, að þegar risgjöld hinna nýju verkamannabústaða hafi verið haldinn, þá hafi rauður fáni verið dreginn þar við hún. Og þetta átti að sanna, að hér væri um einlitan pólitískan félagsskap að ræða. Ég skal geta þess, að stjórn þessa félagsskapar ákvað, hvaða fánar skyldu notaðir, og hún gerði það eftir ósk verkamannanna, sem unnu við byggingu verkamannabústaðanna, að draga fána Alþýðusambandsins við hún. Meiri hluti verkamannanna voru meðlimir félaga innan Alþýðusambandsins, og þeir óskuðu, að fáni þess yrði látinn blakta yfir hinum nýreistu verkamannabústöðum. Þessi ósk var mjög eðlileg, og sjálfsagt að verða við henni, og varð ég fyrir mitt leyti mjög ánægður yfir þessu. Annars finnst mér, að ef menn vilja sýna fram á, að þessi félagsskapur sé pólitískur og útiloki aðra en þá, sem tilheyri sérstökum pólitískum félagsskap, að þá ættu menn að koma með einhver dæmi, annaðhvort úr l. félagsins eða af fundum þess, eða þá framkvæmdum. En það er ekkert slíkt hægt að benda á, og það er líka eðlilegt, því að þetta er opinber félagsskapur, eins og hver annar samvinnufélagsskapur, og stefnir eingöngu að því að afla meðlimum sínum betra húsnæðis. Hinsvegar er það ekki nema eðlilegt, að mest beri á Alþýðuflokksmönnum innan hans og þeir séu þar fjölmennastir, þar sem Alþfl. hefir haft forgöngu allra þessara umbóta í húsnæðismálum alþýðunnar í bæjunum.

Ég mun svo ekki ræða frekar um brtt. þessara hv. þm. á þskj. 513, en ég vil leggja til, að þær verði felldar og frv. samþ. óbreytt eins og það kom frá Ed. Þar höfðu þessi ákvæði verið tekin út úr því, og auk þess gerðar 2 aðrar breyt., sem raska þó lítið samhengi frv. Önnur breyt. er um það, að eftirlitsmaður, sem hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélag skipar, skuli ekki aðeins hafa eftirlit með öllum fjárreiðum félagsins, heldur líka allri starfsemi þess. Þetta finnst mér eðlileg breyt. og ég hefi ekkert út á hana að setja. Enn hefir sú breyt. verið gerð á frv. í Ed., að undir engum kringumstæðum megi lána fé úr einni sjóðdeild í aðra. Mér fyrir mitt leyti þykir það verra, að þetta skuli ekki vera leyft í einstaka tilfellum, t. d. ef ætti að byggja á einhverjum stað, og loforð fyrir láni væri fengið, sem kæmi á ákveðnum tíma, og þá mætti, ef byrjað væri að byggja áður en lánið væri greitt, fá slíkt lán úr öðrum byggingarfélagssjóði á meðan. En mér finnst þetta samt ekki aðalatriði, og ég legg meira upp úr því, að samkomulag fáist um að samþ. frv. Ég legg þess vegna til, að engin breyt. verði gerð á frv. og það verði samþ. óbreytt, og er meiri hl. allshn. því samþykkur.