20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

22. mál, verkamannabústaðir

Thor Thors:

Ég skal ekki fara út í almennar deilur um málið. Það hefir verið rætt svo mikið við fyrri umr., að ég hygg, að öllum hv. þdm. megi vera það ljóst, hvað það er, sem verið er að fara fram á, að verkamenn úr öllum pólitískum félögum skuli vera jafnréttháir til þess að notfæra sér þau hlunnindi, sem löggjafinn hefir boðið fram með þessum l. Ég er ekki svo kunnugur störfum félagsskapar þess, sem hv. 2. þm. Reykv. er form. fyrir, að ég geti tilfært ákveðin dæmi um það, að félagsskapurinn sé rekinn flokkspólitískt, en ég hygg, að það muni fæstum blandast hugur um það, að þar sem jafnákveðinn stjórnmálamaður og hv. 2. þm. Reykv. hefir forustuna, þar muni félagsskapurinn vera rekinn með pólitísku sniði. Og ég get ekki séð neitt greinilegra tákn þess, að verið sé að gera þetta að flokksfyrirtæki Alþfl. en það, sem ég vék að í fyrri ræðu minni, og sem Alþýðublaðið hefir lýst þ. 11. nóv. síðastl. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta: „Í gær voru hin nýju hús „Byggingarfélags verkamanna“ við Hringbraut, Hofsvalla- og Ásvallagötu komin undir þök. Af því tilefni voru fánar dregnir að stöngum á öllum húsunum, voru það rauðir fánar með þremur örvum, fánar Alþýðuflokksins“. - Það virðist nú nokkuð greinilegt, að hér er um flokkstimpil að ræða, þar sem einkenni Alþfl. eru sett yfir þessar byggingar, sem reistar hafa verið, og það ekki fyrir fé Alþfl., heldur almannafé. En þessir sjóðir eiga sína tilveru því að þakka, að ríkissjóður leggur árlega svo og svo mikið fé fram til þessara framkvæmda og bæjarsjóðir annað eins, og ríkisábyrgð er látin útvega lán til þeirra.

Mér þætti ánægjulegt að heyra, hvað hv. þm. V.-Ísf. álítur um þetta, því að hann hélt því fram hér við fyrri umr. málsins, að þessi félagsskapur væri ópólitískur. Nú hefir hann séð, hvernig forráðamenn þessa félagsskapar líta á þetta, og mér þætti talsverðu gegna að heyra hans álit á þessu, að fengnum þeim upplýsingum, sem hér hafa komið fram um það, sem gerzt hefir í þessu máli, síðan það síðast var rætt í þessari hv. d.

Að endingu vil ég svo segja það, að ef Alþ. ætlar sér að beita valdi sínu svona einhliða, þá fer það að verða vafasamt í hugum margra manna, hvort hér sitji ekki eingöngu flokksþing, en ekki Alþ. Íslendinga.