20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

22. mál, verkamannabústaðir

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það, sem hér er gert að umræðuefni í framkomu sósíalista, er ekki neitt nýtt fyrirbrigði. Þeir eru vanir að vilja sýna sinn lit, og þetta er svo annarsstaðar líka. En þar kallast þessir menn kommúnistar. Sósíalistar erlendis eru víðast hvar vaxnir upp úr þeirri heimsku, ofsa og áleitni, sem alþýðuforingjarnir hér beita. Hér eru þeir börn í lögum í þessu efni, eins og oft hefir gefizt tækifæri til að sýna. Það er ekkert undarlegt, þó að þeir vilji ráða yfir verkamannabústöðunum hér, því að það er algengt í prédikunum þeirra, að þeir telji sig eiga Rvík, eða a. m. k. ætli sér að eignast hana. Það er eðlilegt, að hv. 2. þm. Reykv., sem ætlar sér að verða 1. þm. þeirra, vilji flýta sér að kúga alla undir sinn rauða fána, undir sitt einræðisvald. En það er ekki eðlilegt, að Alþingi, sem er að meiri hl. skipað allt öðrum mönnum en ofbeldisdýrkendum sósíalista, gangi hér í lið með þessum hv. þm. til að fremja þá athöfn, sem hann er hér að ýta á eftir. Það hefir verið tekið fram hér áður í sambandi við önnur mál, að það gegnir hinn mestu furðu, að menn ofan úr sveitum, sem hafa boðið sig fram sem fulltrúar frjálsra manna, skuli fást til að leggjast í ánauð hjá þeim sósíalistum þessa bæjar, sem nú vaða uppi. Við höfum haldið, að töluverður hluti af þm. Framsfl. mundi ekki vilja beygja sig undir þetta ok, ef hann er sjálfráður og vill fara að óskum kjósenda sinna. En þessir menn virðast nú ofurseldir sósíalistum, og það mun koma á daginn síðar, að þeir sjá, að þeir hafa farið of langt og verða því annaðhvort að stiga sporið til fulls eða hörfa til baka. Það er kunnugt, að út um allt land er unnið ósleitilega að því að kúga allt sjálfstæði úr verkamönnum og gera þá að sósíalistum. Hér er rauðum örfafána veifað yfir húsþökum byggingarfélagsins, og svo er sagt, að allir geti haft þar sínar skoðanir, fengið inngöngu í félagið og fullt jafnrétti. En það verður annað upp á teningnum þegar í félögin er komið. Ekki er fundur svo auglýstur í verkalýðsfélagi, að ekki sé örvamerkíð á fundarboðinu. Og það er ekki merki verkamannanna, heldur sósíalista. Blóðfáninn er ekki fáni verkamanna, heldur kommúnista. Ég veit, að hv. 2. þm. Reykv. telur rétt að kúga alla verkamenn undir hið sósíalistíska ok. Þetta er að vísu ekki nýtt, og það er meira að segja orðið úrelt annarsstaðar, eins og ég drap á. En það er nýtt hér á Alþingi. Hv. þm. V.-Ísf. linnir ekki látum að verja sósíalismann eftir þeim skilningi, sem hann hefir á honum. Hann linnir ekki látum að prédika það, sem hv. 2. þm. Reykv. þykist vaxinn upp úr að prédika, og hann læzt ekki sjá hnefaréttarstefnu hv. 2. þm. Reykv. Hann talar eins og saklaust barn, sem ekki er farið að hafa nein kynni af lífinu. Hann segist hafa kynnt sér aðferðir sósíalista úti í heimi. Sá lærdómur hans hefir þá verkað eins og vatni væri stökkt á gæs, því að hann er jafnmikið barn eftir sem áður, þar sem hann heldur því fram, að verkalýðsfélögin séu ópólitísk. Verð ég að segja, að mér þykir þetta undarlegt um svo greindan mann. Hann talaði um, að ef félögin yrðu tvö, þá væri hætta á, að póltík kæmi með í spilið. En honum er vel kunnugt, að þeir, sem stofnuðu síðara félagið, vildu ekki ganga undir pólitískt ok hv. 2. þm. Reykv. og verða því útilokaðir frá þeim hlunnindum, sem hér er um að ræða, ef Alþingi vill einskorða þennan félagsskap við vald þessa sama þm. Tal hans um kaupfélögin í þessu sambandi var alveg út í hött. Hann tók til dæmis, að aðeins eitt kaupfélag væri í Stokkhólmi. Ég skal ekki þræta um það, þó að mér þyki það ótrúlegt. En vitanlega er þar ótölulegur grúi annara verzlana, og ef kaupfélag er þar aðeins eitt, gefur það bendingu um, að það hafi fengið mjög fljótt á sig ákveðinn pólitískan lit. Það hefir sýnt sig, að verkamenn hafa ekki séð sér fært að vera í samvinnufélagsskap með öðrum mönnum. Kaupfélögin voru stofnuð áður en samtök verkamanna hófust, en verkamenn hafa ekki viljað vera í þeim, heldur stofnað félög út af fyrir sig, af því að félög þeirra eru vísvitandi pólitísk. Forkólfar sósíalista geta ekki hugsað til að vera í kaupfélögum nema því sé yfirlýst, að þau fylgi stefnu sósíalista í pólitík. Allt sannar það, að sósíalistar reka engan félagsskap nema á pólitískum grundvelli. Hv. þm. sagði, að rauði fáninn væri ekki sérmerki byggingarfélagsins, og hann vildi bera í bætifláka fyrir notkun hans með því, að meiri hl. þeirra verkamanna, sem byggðu, hafi viljað þetta. Þetta er mjög einkennileg skýring. Meiri hl. vill þetta, og þá er sjálfsagt, að hann fái að sýna blæ sinna skoðana. Í slíkum tilfellum má ekkert frelsi komast að. Ef meiri hl. vill veifa rauða fánanum, þá verða hinir að beygja sig undir þann vilja. Hnefinn á að ráða fyrst og fremst. Það er augljóst mál, að hér er um að ræða pólitískt félag, sem sósíalistar vilja láta kúga aðra undir, og Alþingi verður sennilega við þeirri ósk. Hér hefir verið gerð tilraun til að bjarga nokkrum mönnum undan hnefa sósíalismans, svo að þeir mættu vera frjálsir enn um stund. Nú skera atkv. úr. En það mun þykja minnisverður atburður og verða í frásögur fært, ef Framsókn þegar á þessu þingi stígur til fulls það spor, að kasta sér algerlega í faðm sósíalista.