20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

22. mál, verkamannabústaðir

Ásgeir Ásgeirsson [óyfirl.]:

Það hefir æðimargt verið sagt síðan ég talaði síðast, en ég sé ekki ástæðu til að svara því nema í einu lagi og með fáum orðum. Hv. þm. V.-Sk. sagði, að ég héldi því fram, að sósíalistar væru ópólitískir. Þetta mun hann hafa dregið út af því, að ég hefi haldið því fram, að byggingarfélag gæti verið ópólitískt, þó hv. 2. þm. Reykv. væri formaður þess. Nú er hv. þm. V.-Sk. þm. Sjálfstfl. og sýslumaður um leið. Vill hann þá fallast á að hann sé pólitískur sýslumaður? Það liggur beint fyrir, ef hann álítur, að hv. 2. þm. Reykv. vinni öll hlaupastörf pólitískt. Ég vil halda því fram, að hv. 2. þm. Reykv. geti unnið ópólitísk störf, og að það sé a. m. k. mögulegt fyrir hv. þm. V.-Sk. að vera ópólitískur sýslumaður.

Hv. sessunautur minn, þm. Vestm., sagði með miklum þjósti - sennilega ópólitískum - að ég drægi dár að mönnum, eða að því, að menn vildu bjarga sér, t. d. eignast hús. Þetta er mjög óréttmætt, en ég dreg dár að því, að þeir þurfi að vera í tveimur félögum, öðru til að byggja sambyggingar, en hinu sérbyggingar. Ég held, að þeir dragi dár í þessu máli, sem telja, að menn geti ekki átt samleið í því að leita eftir fjármagni, er þeir þurfa yfir að ráða til framkvæmda. Ég hygg, að það séu því aðrir hér í deildinni, sem dregið hafa frekar dár að verkamönnum og þeirra málum heldur en ég. Ég ætla ekki að rekja ræður hv. þm., heldur draga rökin saman í eitt. Ég verð að segja það, að ég sé ekki, að um neina kúgun sé að ræða, þó félagið sé aðeins eitt á hverjum stað, sem að þessum málum starfar. Það er öllum heimilt að ganga í það og öllum heimilt að byggja eftir eigin óskum. Menn mega skipta sér í deildir eftir þörfum og óskum.

Ég hefi átt tal um þetta við fleiri en Alþýðuflokksmenn. Ég átti tal við einn merkan sjálfstæðismann í þessari hv. d. um brtt. mínar, og það var hann, sem benti mér á það, að ná mætti sama tilgangi með því að skipta félaginu í deildir eins og að hafa þau fleiri. Þetta sagði hann ekki af því, að hann væri Alþfl.-maður, heldur af því, að við töluðum saman í bróðerni, en ekki hér í deildinni til að espa hvor annan, eða espa menn hvern á móti öðrum. Þó að hv. þm. V.-Húnv. þyki það undarlegt, þá mega menn hafa hvaða pólitíska skoðun sem vill í þessu félagi, og kjósa hvern, sem þeir vilja helzt, í stjórn, hvaða pólitíska skoðun sem þeir hafa. En mér virtist hann tala út frá því, að allir þyrftu að vera jafnaðarmenn til að geta gengið í félagið. (JónP: Nei, nei!) Mér virtist þetta, en ég vil benda á, að ekki ein einasta kæra eða ádeila hefir komið fram um hlutdrægni í þessu félagi. Þetta er nú fortíðin. Ekki er hún verri en svo; þetta er öll þvingunin. Ég vil nú spyrja, hvaða orð þessir hv. þm. ætla að brúka á þorranum, ef eitthvað kynni að harðna. Um fyrstu till. eru allir sammála, að það sé einn sjóður fyrir allt landið eða öll félögin. Er þetta þá ekki líka kúgun, að félögin skuli ekki vera frjáls að því að fara sínar eigin leiðir að leita láns? En þingheimur er allur sammála um að beita þessari kúgun og fela einni stjórn að útvega lánsféð. Ég fylgi þessu eins og aðrir, af því ég veit, að það er bezt. Hv. sessunautur minn til vinstri - þó þeir séu raunar báðir til hægri í vissum skilningi - tók dæmi af mjólkurbúunum hér fyrir austan fjall. Ég tel, að það hefði verið miklu heppilegra, að það hefði verið eitt bú, því um það verður ekki deilt, að það hefir valdið þeim miklum örðugleikum fyrir austan, að búin eru tvö. (HannJ: Hvernig er löggjöfin? Því er þetta ekki bætt?). Sú stjórn, sem þá sat að völdum, lánaði til tveggja búa, sem aldrei skyldi verið hafa og allir sjá nú, að var vitlaust. Og þegar kemur till. um, að mjólkurbúið verði aðeins eitt, þá mun ég fylgja því. En það er bara sá hængur á, að ef sameina á búin, þarf ríkið að borga töluvert fé fyrir sína milligöngu, af því að menn á þessu svæði höfðu frelsi til að stofna tvö félög, sem margir þeirra nú vildu kippa í lag, ef þeir ættu kost á því. Það er líka svo nú, að annað búið - Mjólkurbú Flóamanna - gæti unnið alla mjólkina án þess að bæta við starfskröftum.

Það er líka hægt að spara annað í þessu sambandi; þá þyrftu bílarnir ekki að aka langa leið framhjá öðru mjólkurbúinu til að komast að hinu, sem var reist aðeins fyrir einhvern klíkuskap. Það var því gott, að hv. þm. V.-Húnv. minntist á þetta dæmi, það sýnir glöggt, að ekki er allt komið undir frelsinu um atvinnu og verzlunarfélög.

Ég býst við, að við gætum allir verið sammála um - að undanteknum nokkrum þm. Reykv. -, að heppilegast væri að skipa þessum búum í eitt félag, og það verður samþ. líka með atkv. þessa hv. þm. Svona getum við fundið mörg dæmi. Hv. þm. var að bera þetta saman við togarafélag, þetta væri sama og að banna fleiri en einn félagi að kaupa og reka togara. En sá er munurinn, að þar er um framleiðslufélag að ræða. (HannJ: Er það ekki líka um mjólkurbúin?). Og þó að þeir ausi af sömu miðunum, geta þeir farið sína götu, t. d. um lánsmöguleika. Þetta er því ekki sambærilegt. Ég veit líka, að þegar þessi eldur er slokknaður - sem lifir meira á annari olíu en hægt er að pressa út úr þessu máli -, þá sýnir dómur sögunnar, að ég hefi á réttu að standa í þessu máli. Það hefir verið veifað hér framan í mig rauðu dulunni, en ég skal játa það, að hún hefir ekki sömu áhrif á mig og suma aðra.