20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

22. mál, verkamannabústaðir

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Það væri í raun og veru eðlilegt, að ég kveddi mér hljóðs, þar sem þetta mál snertir svo mjög það kjördæmi, sem ég er umboðsmaður fyrir. En það standa nú svo sakir, að málið má telja útkljáð, og hefir því ekki aðra þýðingu að tala í þessu máli en að láta skoðun sína í ljós. Maður veit, að þegar um er að ræða að veita einhverju máli andstöðu hér, þá kemur til sögunnar annað félag í þessari hv. deild; það er handjárnafélag sósíalista, sem ekki leyfir mönnum að róta sér. Mér þykir undarlegt, að sumir hv. þm. Framsóknar utan af landsbyggðinni skuli hlaupa til handa og fóta og banna Rvíkingum að hafa tvö byggingarfélög. En það verður skiljanlegt, þegar athugað er, að hér er félag handjárnamannanna, sem þrælfjötrar menn, svo að þeir mega ekki spyrja samvizku sína ráða um hlutina. Mér kom til hugar þegar hv. þm. V.-Ísf. var að tala um mjólkurbúin, að það er ekki ólíkt því og þegar menn, sem settu í kvíar, seldu á leigu búpening sinn, eða þá á annan hátt tóku búpening til nytjunar. Var þá sú skipan á höfð, að búpen. var tekinn loðinn og lemdur í fardögum og skilað að hausti ásamt 7 mörkum smjörs og einhverju af skyri. Ég veit ekki, hverju skilað verður af smjöri eða skyri eftir þennan hv. þm., en hitt veit ég, að eftir munu liggja kvíaspörð nokkur, honum til lítils sóma.

Ég get tekið undir með hv. þm. Vestm., að þegar maður sér, að einhverju máli eru ráðin úrslit fyrirfram, leiðist mér þegar menn eru með yfirdrepsskap og eru sífellt að tala um, að þeir ætli engan að kúga, standa með silkiandlit og berja sér á brjóst. Það er undarlegt skapferli, að geta talað af þvílíkri hræsni. Það er öllum vitanlegt, að með þessu er blátt áfram verið að banna að lána öðrum félögum til bygginga en félögum sósíalista. Það þýðir ekki að ætla sér að blekkja með því, eins og hv. 9. landsk., að það sé verkamönnum að kenna, að rauði fáinn blakti yfir verkamanna bústöðunum. Þeim þykir ekki vænna um rauða fánann en aðra fána; það eru bara nokkrir menn í gapastokknum hjá foringjunum, af því hann minnir á blóð og hryðjuverk. Ég er alveg viss um, að flestir verkamenn virða íslenzka fánann meira; það er aðeins viss hópur manna, sem gengst fyrir landráðastefnu í landinu, er rægir og lítilsvirðir íslenzka fánann, tákn þjóðarinnar, en það eru ekki verkamennirnir, heldur þeir menn, er traðka rétti þeirra og láta ekki verkamennina sjálfráða, hvar þeir búa eða hvar þeir vinna. Allt þeirra tal um réttlæti er skinhelgi og hræsni. Hér er um að ræða, hvort Alþ. slær því föstu, að fjárveitingar ríkisins til bygginga renni í sjóði jafnaðarmanna eða ekki.

En afleiðingin af þessari framkomu þeirra verður sú, að þegar þeir missa völdin næst, þá verða þeir beittir sömu tökum. Þeir verða að skilja það að þegar þeir beita sér fyrir því, að engir skuli fá lán aðrir en þeir, þá viðurkenna þeir, að sama gildir þegar aðrir taka við.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín fleiri, en aðeins endurtaka það og undirstrika, áður en máli þessu er ráðið til lykta á Alþingi, að þetta leiðir til ills eins, ekki aðeins fyrir þá, sem nú eru bornir atkv., heldur líka fyrir þá, sem sósíalistar þykjast berjast fyrir, verkamennina, því þeir mega búast við, að „eins og þú mælir öðrum mun þér og mælt verða“.