20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

22. mál, verkamannabústaðir

Sigurður Einarsson:

Hv. þm. V.-Ísf. tók að miklu leyti af mér ómakið, því í ræðu hans var margt það framtekið, er ég hefði óskað. - Hv. þm. V.-Sk. komst svo að orði, ef ég man það rétt, að ef brtt. á þskj. 313 yrði felld, þá væri verið, eins og hann sagði, - og ég læt mér vel sæma að taka upp hans orð, því hann er maður málsnjall - að bjarga skottinu af málinu. Það er grunur minn, að hv. þm. V.-Sk. hafi af sinni miklu framsýni séð, að Sjálfstfl. yrði eins og refurinn skottlausi í þessu máli. Ég held það sé alveg rétt. En það má bæta því við, að hvernig sem um þetta skott fer, þá er þessi flokkur þó líkur þessari mætu skepnu.

Hv. þm. V.-Húnv. fór nokkrum orðum um þetta margumtalaða frelsi. Þeir menn eru til, sem rjúka upp til handa og fóta og tala um, að verið sé að skerða frelsi þessa og hins, ef einhverju þjóðþrifafyrirtæki á að hrinda í framkvæmd. Þeim mönnum ferst eins og þeim, sem hrópa: „eldur! eldur!“ þar sem enginn eldur er. Frelsi er einskisvirði fyrir þá, sem ekki hafa aðstöðu til þess að njóta þess. Þetta veit fólkið líka. Sérhver verkamaður, sem getur eignazt bústað eftir þessum lögum, vill það heldur en gleðina yfir því frelsi að geta búið í „sjálfstæðu“ húsi. Ekki sízt, þegar hann má haga fyrirkomulagi byggingarinnar eins og honum sjálfum þóknast. Það hefir aðeins einn drengur fæðzt í bjálkakofa, sem hefir flutt í „hvíta“ húsið.

Ég sýndi fram á það í minni fyrri ræðu, hvernig byggingarmálum verkamanna ætti að vera háttað. Hver einasti maður getur gengið í félagið, getur kosið sér stjórn eða sett hana af sé hann óánægður með hana. Þetta „ófrelsi“ er eingöngu fólgið í því, að verkamenn verða að leita til lánsstofnunar.

Svo er það atriði, að eigi megi vera nema eitt félag á hverjum stað. Hv. þm. A.-Húnv. virtist hafa skilið þessi orð mín um frelsi betur heldur en „kollega“ hans í V.-Húnv. sýslu. Hann komst svo að orði, að með jafnglæsilegum kjörum væri verið að binda verkamenn undir yfirráð vissrar pólitískrar stefnu. Þetta er mesti misskilningur. Það ræður engin sérstök pólitísk stefna yfir þessum verkamannabústöðum. Mönnum er fullkomlega frjálst að skipa sína stjórn eftir vild, eins og ég er oft búinn að taka fram.

Það er óhætt að slá því föstu, að ekkert hefir komið fram í þessum umr., sem gerir það nauðsynlegt, að samþ.brtt. á þskj. 513. Það hefir ekkert nýtt komið fram í þessum umr. annað en það, sem hinn málsnjalli hv. þm. V.-Sk. sagði um þetta mál, að það þyrfti að bjarga skottinu. Ég skil þetta þannig, að Sjálfstfl. þurfi að ganga með ljós í rófunni í þessu máli. Þeir, sem greiða atkv. með till. á þskj. 513 af þessari röksemd, geta ekki séð Sjálfstfl. ganga svo afturstuttan í þessu máli, eins og hann hefir undanfarið unnið til. Hann hefir nagað aftan af sér í þessu máli, eins og refurinn skottlausi.

Hv. 6. þm. Reykv. vildi láta úrslit þessa máls velta á fánanum. Það hefði þótt saga til næsta bæjar, ef afstaða manna til þessa máls færi eftir því, hvort einhver tiltekin tegund fána blakti yfir höfðum þeirra eða ekki. Væri svo, þá væri þetta komið inn fyrir landamæri þess broslega.