20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

22. mál, verkamannabústaðir

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ef frv. er borið saman við gömul lög, komast menn að raun um, að eina raunverulega breyt. er sú, að í þessum lögum er ekki heimilað að veita nema einu félagi þau hlunnindi til fjár úr þeim sjóði, sem fyrir hendi er á þeim stað, sem um er að ræða, samkv. þessu nýja frv.

Mér er það nokkurt undrunarefni, að sósíalistar skildu þetta ekki, sérstaklega hv. 2. þm. Reykv., sem hv. þm. V.-Ísf. hrósar fyrir mikinn áhuga í þessu máli. Hvers vegna hefir þessi hv. þm. og flokksbræður hans ekki séð aðra nauðsyn á þessu en að takmarka það við eitt félag? Þeir segja ef til vill, að ekki sé þörf á fleiri félögum. Það er rangt. Það má gera ráð fyrir, að upp kunni að rísa fleiri félög. Það hafa undanfarið a. m. k. 2 kaupstaðir haft 2 félög hvor. Þess vegna er það fullkomlega ljóst, að eini tilgangurinn með flutningi þessa frv. er að koma í veg fyrir, að Byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna hér í Rvík geti starfað. Ég hefi tekið eftir því, að þessu er ekki lengur mótmælt.

Þeir, sem þekkja starfsemi hv. 2. þm. Reykv., þurfa ekki að gera tilraun til þess að telja neinum trú um, að hans stjórn á þessu félagi, frekar en öðrum, sé ópólitísk. Það er öllum lýðum ljóst, að hv. 2. þm. Reykv. beitir sinni aðstöðu sem form. fyrir þessu fyrirtæki pólitískt. Hann gerir það því fremur, sem hann hefir yfir meiru fé að ráða. Það eru veittar 120 þús. kr. á ári til verkamannabústaðanna.

Í þessu sambandi vil ég minnast á það, að það er slæm röksemdafærsla hjá þeim hv. þm., sem telja, að þetta fé sé ekki meira en handa einu félagi. T. d. í Hafnarfirði eru veittar 12000 kr. árlega til verkamannabústaða, en undir þessa heimild falla 2 félög, og annað þeirra er þegar tekið til starfa. Fyrst eitt fél. getur starfað í Hafnarf. með 12000 kr. styrk, þá ættu 2 að geta starfað í Rvík með 120 þús. kr. styrk.

Þessi rök hv. þm. V.-Ísf. eru einskis virði og borin fram einungis sem afsökun fyrir það atkv., sem hann hefir gefið í þessu máli.

Svo er það alls ekki bæjarstj. í Rvík, sem úthlutar þessu fé, og ekki heldur ríkisstj., heldur er það sérstök sjóðstjórn. Það má gera ráð fyrir því, að ef viðkomandi sjóðstjórn álítur ekki praktískt að veita nema einu félagi lán, þá muni hún ekki gera það, enda þótt 2 félög séu starfandi. Heimild í lögum til þess að 2 félög geti notið þessara hlunninda veitir félögum út af fyrir sig ekki meiri rétt en þann, sem er innan við takmörk þess praktíska, og það praktíska finnur stjórn sjóðsins út á hverjum tíma og veitir aðeins öðru félaginu lán, ef hún álítur, að hún tapi á því að veita 2 lán. Heimildin út af fyrir sig skapar félögunum ekki þann rétt, að þau eigi undir öllum kringumstæðum kröfu á að fá fé. Þetta eitt út af fyrir sig sýnir það, að þeir, sem að þessu frv. standa, eru bara að lögbinda það, að aðeins eitt félag njóti þessara hlunninda, því ef heimildin væri fyrir tvö félög, þá gæti hver sjóðstjórn ekki annað en veitt báðum fél. nokkurt fé. Það hlýtur að stafa af ókunnugleika hv. þm. V.-Ísf. til þessa frv., ef hann heldur því fram, að milli bæjarstjórna og ríkisstj. verði einhver togstreita um, hverjum lána skuli þetta fé. Því hvaða vald hafa bæjar- og sveitastj. til þessa? Sjóðstj. ein ákveður þetta. Það getur aðeins verið togstreita innan sjóðstj. sjálfrar um þetta atriði. Ég get ekki séð, hvernig slíkur ágreiningur getur risið upp innan sjóðstj., ef hún er pólitískt einlit.

Þegar verið er að deila um það, hvort félag sé pólitískt eða ekki, þá skiptir það vitanlega mestu máli, hvort stj. félagsins er pólitísk eða ekki, og hvort hún beitir sínum pólitísku áhrifum á þá, sem eitthvað eiga undir þessa stj. að sækja. Allir vita að hv. 2. þm. Reykv. beitir pólitískri afstöðu sinni í öllum þeim málum, sem snerta hag verkamanna. Það, sem mestu máli skiptir í þessu tilfelli, er vitanlega það, að stj. verkamannabústaðanna starfar undir forustu þessa manns og er þess vegna pólitísk. Ef menn vilja ekki ofurselja sig þessu valdi, þá kjósa þeir frekar að vera í öðrum félagsskap, en það hafa menn gert með því að ganga í Byggingarfélag sjálfstæðra verkamann. Samkv. 69. gr. stjskr. hafa menn rétt til þess að stofna félög í sérstökum löglegum tilgangi, án þess að sækja um leyfi til þess. Hér er verið að reyna að banna með löggjöf, að Byggingarfél. sjálfst. verkamanna geti verið við lýði sem félag. Það er ekki hægt að banna það með lögum. En það er hægt að svipta það þeim möguleikum, sem það hefir til þess að njóta hlunninda laga um verkamannabústaði. 69. gr. stjskr. verndar þennan félagsskap, eins og önnur félög. En tilveruréttur þessa félags er raunverulega eyðilagður með þessum lögum. Þetta er því brot á anda stjskr., þótt orðalagið sé ekki beinlínis brotið.

Það er athyglisvert, að þessi lög gilda aftur fyrir sig. Ég veit ekki betur en að þeirri reglu hafi verið fylgt hingað til, að þau lög, sem frá hv. Alþ. hafa komið, hafi verið þannig sniðin, að þau hafa ekki tekið þann rétt af einstaklingum og félögum, sem þau höfðu áður öðlazt á löglegan hátt. En félag sjálfst. verkamanna er stofnað á fullkomlega löglegan hátt og hefir samkv. lögum, sem áður giltu um verkamannabústaði, kröfu til þess að njóta þeirra réttinda, sem lög um verkamannabústaði þá veittu. Með þessum lögum er þetta félag, sem stofnað var í trausti þess, að það fengi áfram að njóta réttinda þeirra, sem eldri lögin veita, svipt þessum réttindum.

Hvað sem handjárnapólitík stjórnarfl. liður, þá tel ég það mjög varhugavert, ef hv. Alþ. ætlar að taka upp þá reglu að semja lög, sem gilda þannig aftur fyrir sig og svipta bæði einstaklinga og fyrirtæki þeim réttindum, sem þau höfðu öðlazt, þegar félagið var stofnað.

Hv. þm. V.-Ísf. sagði, að verkamenn gætu verið í sama byggingarfélagi, án tillits til pólitískra skoðanna sinna. Út af fyrir sig er þetta alveg rétt. En menn vilja samt frekar starfa út af fyrir sig í sínum eigin félagsskap með sínar skoðanir. Það er heldur ekkert því til fyrirstöðu. Löggjöfin á ekki að gera ráðstafanir til þess að útiloka það. Hv. þm. V.-Ísf. á ekki að vera að hæðast að því, að menn kjósi að vera út af fyrir sig og byggja sín hús á sérstakan hátt og segja, að sumir byggi sjálfstæðishús, aðrir sósíalistahús og enn aðrir bændaflokkshús, o. s. frv. Ég veit ekki, hvort menn geta byggt utanflokkahús, en ef ekki, þá er ég hræddur um, að kjósendur hv. þm. verði húsviltir, eða yrðu að hírast sína nóttina hjá hverjum flokki. Þessi hv. þm. getur bent hv. Alþ. á það, að menn geti verið í sama félagsskap, þótt þeir hafi mismunandi pólitískar skoðanir, því að hann hefir sjálfur átt auðvelt með að takmarka sína pólitísku sannfæringu á ýmsum sviðum.