20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

22. mál, verkamannabústaðir

Thor Thors:

Ég býst við, að stjfl.mönnum þyki þessar umr. vera orðnar nokkuð langar. Ég verð nú samt að segja það, að mér finnst, að menn hljóti að nota sér þann rétt, sem þeir hafa sem þm., til þess að mótmæla slíku ofbeldi, sem farið er fram á með þessum lögum.

Það er eftirtektarvert, að það er hv. þm. V.-Ísf., sem kemur fram sem aðalmálsvari stjórnarliða við þessar umr. Mér dettur í hug í þessu sambandi samlíking, sem hv. 2. landsk. viðhafði nýlega hér á þingi um brúkunarhross ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. V.-Ísf. virðist vera orðinn brúkunarhross stj. hér í hv. deild.

Hv. 9. landsk., sem var eitthvað að tala um skott, dinglar sjálfur aftan í eins og skott, en það er lítið ljós í þeirri rófu.

Hv. þm. V.-Ísf. talaði um „sjálfstæðishús“ og leit um leið upp á pallana, til þess að vita, hvort einhver hefði ekki farið að hlæja að fyndninni. En enginn hló.

Hv. þm. veit það vel, að hér er deilt um það, hvort húsin eigi að vera sérstæð eða sambyggð. Byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna vill sérstæð hús. Hv. þm. ætti einnig að vita það, að víða erlendis eru heil verkamannahverfi byggð með eintómum glæsilegum sérstæðum smáhúsum. Hvers vegna geta menn ekki verið í einu byggingarfélagi, spyr hv. þm. Hvers vegna gengur hv. þm. f. d. ekki í adventistafélagsskap? Af þeirri einföldu ástæðu, að hann vill það ekki.

Hv. þm. sagði, að öllum væri heimilt að ganga í þennan félagsskap, eins og það væri sérstakt frjálsræði. Það er víst, að allir mega ganga í þetta félag, en það, sem að er fundið, er það, að þeir mega ekki ganga í annað félag. Það er öllum heimilt að ganga í Alþfl., en vissulega eru margir, sem fremur kjósa að starfa með öðrum stjórnmálaflokk.

Hv. þm. V.-Ísf. vildi telja það rétt í þessu máli, að það mætti skipta fél. í deildir. Hver deild hefði þá sínar byggingar eftir eigin ósk. Þetta er háð þeim takmörkunum í lögunum, að samþykktir hverrar deildar verður stjórn byggingarfélags að samþ. M. ö. o., stjórn fél. er í lófa lagið að hafa samþykktir deildanna að engu.

Annars þýðir ekki að ræða frekar um þetta mál. Það er öllum ljóst, hvert deiluefnið er. Hér er vissulega ekki um lýðræði að ræða. Hér er um glapræði að ræða. Hér er verið að drepa niður þennan félagsskap að ástæðulausu, til þess að koma honum undir kúgunarhæl sósíalista.