20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

22. mál, verkamannabústaðir

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Þau lög, sem hér er um að ræða, um verkamannabústaði, eru frá árinu 1931, og frá þeim tíma og til þessa dags hefir gilt sú heimild, að fleira en eitt félag í hverjum kaupstað geti notið þeirra fríðinda og forréttinda, sem l. gera ráð fyrir. Nú hefir það borið við, að ég held á yfirstandandi ári, að hér í Rvík hefir verið stofnað annað félag, sem ætlar sér að njóta þessara réttinda til jafns við það félag, sem fyrir er. Þegar þetta er gert, er ekkert ákvæði til í l., sem gefur það í skyn, að þetta félag, Byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna, sem hefir, að því er hefir verið upplýst, 350 félaga, geti ekki átt heimting á sömu réttindum og fríðindum og það félag, sem fyrir er, þó annað sé nú að koma á daginn. Ef litið væri nú á þetta fyrirbrigði eins og það ætti sér stað í skiptum manna á milli, ef einstakur maður eða stofnun gerðu þær ráðstafanir, er aðrir teldu sig trygga í skjóli þeirra að geta gert eitthvað ákveðið eða ráðizt í eitthvað, sem þeim væri leyfilegt, og hinn fyrrnefndi aðili kippti svo allt í einu að sér hendinni, þannig að undirbúningur og tilraunir hins yrði aðeins til ónýtis, þá mundi það vera kallað „narr“ í einkaviðskiptum, ef einstaklingur eða einkastofnun hagaði sér þannig. Nú hefir löggjafinn gefið fyrirheit með 1. frá 1931, en þegar vart verður við það, að þegnarnir ætla að notfæra sér þennan rétt, þessi fríðindi, sem löggjafinn hefir boðið fram, m. ö. o., þegar vart verður þess, að aðrir en forkólfar sósíalista ætla sér að verða aðnjótandi hlunnindanna, þá er allt í einu „kúvent“ undir forystu sömu jafnaðarmannanna, sem báru þetta mál fram og hingað til hafa setið einir að fríðindunum. Þeir hafa nú fengið Alþingi til þess að eyðileggja þennan grundvöll fyrir öðrum en sósíalistum. Ég veit ekki, hvaða nafn á að gefa því, þegar löggjafinn leyfir slíkan leik sem þennan, en eins og ég sagði, þá mundi það vera kallað „narr“, ef einstaklingur hefði átt í hlut.

Það hefir alls ekki bólað á því síðan 1931, er lögin voru sett, að slík höfuðnauðsyn væri á því að breyta þeim að því leyti, að aðeins eitt félag megi vera á hverjum stað, eins og hv. sósísalistar nú vilja halda fram að sé. Það er fyrst nú, að þetta verður svo augljóst, síðan það kom í ljós, að menn söfnuðust um annað félag hér í bænum og gerðu sig líklega til að nota þau fríðindi, sem l. veita.

Hv. þm. V.-Ísf. benti á, að í l. eins og þau væru væri gert ráð fyrir því, að til væri einn höfuðsjóður, sem lánaði til allra byggingarfélaga verkamanna víðsvegar á landinu, og taldi hann í sambandi við það, að við sjálfstæðismenn hefðum greitt atkv. með þeirri tilhögun, að með því hefðum við eiginlega lýst okkur samþ. því, að á hverjum stað væri eitt félag, því það væri í samræmi við það að hafa einn aðalsjóð. Ef við því hinsvegar teldum, að Byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna sætti rangri meðferð við afdrif málsins í hv. Ed. og eftir því sem lítur út fyrir að þau verði hér, þá væri hér um skoðun að ræða, sem ekki væri hliðstæð þeirri, sem aðeins vildi hafa einn sjóð. Það er svo langt frá því, að þetta séu nokkur rök, að í þeim felst ekki nokkur einasta réttlæting fyrir því að vilja svipta fleiri hundruð menn lagalegum rétti. Hér er því svo greinilega skotið framhjá marki, ég veit ekki, hvort hann hefir sett undir eða yfir, en þessa samlíkingu getur hann ekki staðið við. Þetta mál er fram borið hér á þessu þingi til þess að unnt verði að vega að Byggingarfélagi sjálfstæðra verkamanna. Þetta er svo augljóst af aðdraganda málsins og meðferð allri, að það er alveg bersýnilegt, að tilgangurinn er ekki annar. Málið er borið fram eingöngu sem pólitískt hlutdrægnismál. Og ég vil segja það, að þetta hlutdrægnismál er nógu slæmt út af fyrir sig, þegar því er beitt svo af meiri hl. þings og varið með ofstæki af þeim mönnum, sem hafa af því pólitískan hagnað, eða eru fastbundnir málum af öðrum ástæðum, þó ekki sé verið að reyna að gylla málið af þeim, sem ekki þurfa þess af framantöldum ástæðum. Það er alveg tilgangslaust fyrir hv. þm. V.-Ísf. að vera að reyna að gefa málinu annan svip, því allt sem fram kom bendir í sömu átt.

Hv. þm. taldi mig hafa talað í sinn garð af miklum þjósti. Það getur verið, að kennt hafi einhverrar gremju í ræðu minni áðan, en ef svo hefir verið, þá tel ég, að til þess hafi verið full ástæða. Ef hinsvegar hv. þm. V.-Ísf. telur, að ég þurfi sérstaklega að gefa skýringu á því, hvers vegna mér hafi sárnað við hann í sambandi við framkomu hans í þessu máli, þá get ég sagt honum það, að þegar til viðbótar við þann yfirgang og ósanngirni, sem þessir menn verða fyrir af hálfu sjálfra flutningsmanna málsins, sósíalistanna og þeirra, sem þeim eru háðir, kemur það, að maður fær að sjá þá menn ljá sig til fylgis við þetta mál, sem bæði hafa þekkingu og vitsmuni til þess að sjá, hvað rétt er og þjóna betri málstað, þá rennur mér í skap.