20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

22. mál, verkamannabústaðir

Emil Jónsson:

Ég skal ekki fara langt út í þetta mál, því að mér finnst það færast út á allt önnur svið en æskilegt er, þar sem umr. snúast meira um handjárn og ýmislegt þessháttar heldur en málið sjálft. Hv. andstæðingar þessa frv. beina máli sínu að mestu leyti til hv. þm. V.-Ísf., ýmist í klökkum tón, þar sem hann er næstum því beðinn hjálpar, og hinsvegar næstum því í ásakandi tón, þar sem honum eru bornar á brýn ýmiskonar vammir og skammir. En það, sem kom mér til þess að standa upp, var það, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði og hv. 3. þm. Reykv. endurtók eftir honum, að hér væri jafnt á komið með byggingarsamvinnufélaginu og byggingarfélagi verkamanna. Hv. 5. þm. Reykv. bar fram þá áskorun, að mismuninum á þessum tveimur hliðstæðu fyrirtækjum væri lýst þannig, að honum gæti skilizt, hver hann er. Það, sem fyrir mér vakti, var að reyna að sanna þessum hv. þm., að þarna er um virkilegan mun að ræða, sem máli skiptir. Með verkamannabústaðalögunum eru veitt tvennskonar fríðindi þeim, sem í félögum eru. Sameiginlegt fyrir byggingarfélög verkamanna og samvinnufélögin er það, að þeim er veitt ríkisábyrgð, í öðru tilfellinu sem nemur 80% af þeim lánum, sem félagið tekur, en í hinu tilfellinu 85%. Hitt er aðalatriðið, sem hv. 5. þm. Reykv. minntist á, að lögin um verkamannabústaði leggja byggingarsjóðnum þá skyldu á herðar að lána úr sjóðnum á ákveðinn hátt, þannig að vextir og afborganir af lánunum nemi 5% í 42 ár. Þetta er sú kvöð, sem hlýtur að takmarka fjárframlög byggingarsjóðanna í þessu skyni. En engin slík kvöð hvílir á starfsemi byggingarsamvinnufélaganna.

Það má reikna það út stærðfræðilega, hvað mikla starfsemi byggingarsjóðirnir geta haft með höndum, miðað við þann rentumismun, sem þannig verður á fengnum lánum byggingarsjóðs og þeim lánum, sem veitt eru. Þetta er það stóra atriði, sem gerir mismuninn á milli byggingarfélaga samvinnumanna og byggingarfélaga verkamanna. Þetta takmarkar þá getu, sem byggingarsjóðirnir hafa til þess að láta byggja, en ríkisábyrgðinni fyrir samvinnufélögin er ekki sett nein slík takmörk. Það eru því líkur fyrir því, eins og hv. þm. V.-Ísf. benti á, að ef þessari starfsemi verður skipt í tvö eða fleiri félög, þá komi meira til greina pólitík við lánveitingar en ef aðeins væri eitt félag, þar sem einvörðungu er farið eftir því, hvenær viðkomandi maður eða menn hafa gengið í félagið. Það er ekki spurt um það, þar sem byggingarfélög verkamanna eru starfandi, hverrar pólitískrar skoðunar lánbeiðandi er, heldur aðeins hvenær hann hefir gengið í félagið. Þetta eru þau rök, sem vega svo mikið að mínu viti, að önnur þyrfti ekki. Þessi takmörkun á byggingarstarfseminni vegna hins óhagstæða mismunar á útláns- og innlánsvöxtum, leiðir það af sér, að ef ætti að skipta þessum styrk niður á milli fleiri félaga, þá yrðu byggingarnar dýrari. Hv. 3. þm. Reykv. sagði að vísu svo, að 7 sinnum 50 íbúðir gætu aldrei orðið hlutfallslega dýrari heldur en einu sinni 50 íbúðir. En byggingarsjóður hefir ekki ráð á að byggja sjö sinnum 50 íbúðir, svo það þýðir ekki að nefna þá tölu. Ef talað væri um að skipta þessum 50 íbúðum í tvisvar sinnum 25 íbúðir, þá kæmi til álita, hvort heppilegra væri að hafa tvisvar sinnum 25 íbúðir eða einu sinni 50 íbúðir.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þessar umr., en mér fannst ég ekki geta látið ómótmælt, að enginn munur væri á byggingarsamvinnufélögum og byggingarfélögum verkamanna.