20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

22. mál, verkamannabústaðir

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Mér þótti vænt um, að hv. sessunautur minn, hv. þm. Hafnf., stóð upp til þess að svara fyrirspurn minni, og skal ég játa, að það svar var svo sem efni stóðu til. En þó get ég ekki fellt mig við það svar nema að gefa á því skýringar, sem eins og sakir standa gera svar hans að engu.

Það er rétt, sem hv. þm. Hafnf. tók fram, að aðalmismunurinn á byggingarfélögum verkamanna og samvinnufélögum er sá, að með þessu framlagi úr ríkissjóði og bæjarsjóði eru takmarkaðir möguleikarnir fyrir því, hvað mikið er hægt að byggja samkv. lögunum um verkamannabústaði. En við nánari athugun kemur það í ljós, a. m. k. eins og nú standa sakir, að þó þessi munur sé teoretiskt, þá verður hann ekki í praksis.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að sjóðstjórninni hefði tekizt að fá lán með svo góðum kjörum, að ekkert af framlagi bæjar- og ríkissjóðs, sem nú er hér í Rvík 130 þús. kr. á ári, hefði gengið til þess að borga vaxtamismun á þeim lánum, sem sjóðurinn hefði tekið, og þeim, sem hann hefði veitt. - Sjóðurinn þarf ekki að verja neinu fé til greiðslu á vaxtamismun, sem þó er tilgangurinn með framlagi bæjar- og ríkissjóðs. Þetta framlag er hvað Rvík snertir hvorki meira né minna en 130 þús. kr. á ári.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði það í ræðu sinni við 1. umr. þessa máls, að þetta fé væri notað sem lánsfé nú, vegna þess að ekki þyrfti á því að halda til þess að borga vaxtamismun. Þetta þótti mér vænt um að heyra. En af þessu leiðir svo það, að svo lengi, sem þetta ástand helzt, er það takmarkalítið, sem hægt er að byggja. Það takmarkast eingöngu við það, hvað mikið má fá af lánsfé með ríkisábyrgð. Þessar 130 þús. kr. samsvara nálega 2% af 5 millj. kr. og 1% af 10 millj. kr. M. ö. o., ef ekki þarf að nota nema 1% til greiðslu á vaxtamismun um næstu 40 ár, má byggja vegna þess fjár, sem nú er lagt fram árlega, fyrir 5 millj., ef vaxtamismunurinn er 2%, en 10 millj., ef hann er 1%.

Ég ætlaði einmitt að benda á það aftur nú, að það kann að vera svo, að einhverjum hv. dm. sé ekki ljóst, að þau takmörk, sem þarna er um að ræða, séu eingöngu teoretisk. Menn munu halda, að hér sé um lítið fé að ræða, sem hægt er að verja til verkamannabústaðanna, en eftir því, sem upplýst er um hvað miklu er búið að verja til þeirra, þá má benda á, að það er ekki nema 1/10 hluti af því, sem hægt er að verja til þeirra, þó að þurfi að greiða 2% í vaxtamismun. Hér er því ekki um lítið né ómerkilegt mál að ræða fyrir Rvíkurbæ, og ef það er meining þessara hv. þm. að láta eitt félag verja þessum 5 til 10 millj. og banna að nokkurt annað félag fái féð, þá verð ég að segja, að það er hið mesta ofbeldi, sem hér á að beita.

Ég játa, að öðru máli gegndi, ef ekki væri um að ræða nema þessar 130 þús. kr. á ári, sem verja mætti til bygginga. Þegar málið lítur svona út, fær það allt annan blæ. En það getur ekki verið sú nauðsyn, sem rekur til þess að hafa byggingarfélagið eitt hér í Rvík, að svo lítið fé sé fyrir hendi, sem verja má til húsbygginga árlega, að ekki taki að skipta því á milli fleiri félaga en þessa eina félags, sem hefir nú komið upp 90 íbúðum. Samkv. þessum upplýsingum er það augljóst, að mjög miklu fé má verja samkv. þessum l. á næstu árum, þó ekki bætist við framlag bæjar- og ríkissjóðs. Þó veit ég, að hv. 2. þm. Reykv. hefir það í huga og hefir haft orð á því, að þetta framlag bæjar- og ríkissjóðs þurfi að hækka stórlega, ekki til þess að verja til útlána, því að það er ekki tilgangurinn, heldur til þess að borga vaxtamismuninn á lánum. Það er því meira en 5 til l0 millj. króna, sem verja má til bygginga, ef þetta framlag er hækkað ennþá. Ég verð því að segja, að þetta sé mikið ofbeldi, sem Rvíkingum er sýnt, ef þeim er ætlað að leggja fram 65 þús. kr. á ári til þessarar starfsemi, sem er einokuð og hefir á sér pólitískan blæ.

Eftir þeim tölum, sem ég hefi hér nefnt og ekki hefir verið hnekkt með rökum, sjá menn, að hér er ekki um smámuni að ræða. Ég fer hér eftir orðum hv. 2. þm. Reykv. og vona, að hv. þdm. muni, að hann hafði þau orð, að svo góð lánskjör hefði tekizt að fá, að ekki þyrfti að nota neitt af framlagi ríkis- og bæja til þess að greiða vaxtamismun.

Svo er eitt í þessu sambandi. Ef það er svo, að á þessu ári megi fá sérstaklega ódýr lán, þá finnst mér sjálfsagður hlutur að reyna að hagnýta það sem mest, taka lán meðan peningarnir eru ódýrir, svo lítinn eða engan vaxtamun þarf að greiða, en draga heldur úr byggingunum þegar vextirnir hækka. Hér er um framkvæmdir að ræða, sem greiðast eiga á 40 til 50 árum, og því er að öllu leyti praktiskast að hraða framkvæmdunum á þeim tímum, þegar ódýrt fé er hægt að fá.

Hitt atriðið, sem hv. sessunautur minn færði fram fyrir því, að ekki væri gott að hafa fleiri en eitt félag á sama stað, að við það yxi vandinn, sem hvíldi á sjóðstjórninni, þar sem hún yrði að ákveða, hvaða félög fengju fé í hvert skipti, og hætt væri við, að pólitísk sjónarmið kæmust þar að, tel ég alls ekki frambærilega ástæðu. Þó hér sé um að ræða, við skulum segja frá 2 og allt upp í 10 millj. kr., sem hægt er að verja til bygginga, þá megi ekki hagnýta það á þann hátt, sem við leggjum til, vegna þess að það valdi sjóðstjórninni örðugleikum, að það séu fleiri en eitt félag hér í Rvík! Það finnst mér ekki fullnægjandi ástæða fyrir því, að hv. d. fremji það brot, vil ég segja, gagnvart Rvíkingum, að fella þá brtt., sem hér liggur fyrir.