20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

22. mál, verkamannabústaðir

Emil Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal vera fáorður. Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að framlag ríkis og bæja til byggingarsjóðs verkamanna gengi ekki til vaxtagreiðslu, heldur aðallega til útlána, og vitnaði þar til hv. 2. þm. Reykv. Það er nú ekki nema hálfsögð sagan hvað þetta snertir, þó greiðslur félagsmanna séu jafnháar vöxtunum, sem byggingarsjóður þarf að greiða sínum lánardrottnum. Hann þarf líka að borga afborganir af lánunum, sem nema venjulega 2-3%, ef lánin eru tekin til 25-30 ára. Byggingarsjóður þarf þannig að greiða til sinna lánardrottna 2-3% meira heldur en hann fær frá félagsmönnum. Þetta er að vísu að nokkru leyti lán frá sjóðsins hendi, en það er samt sem áður greiðsla, sem hann verður að inna af hendi, og sem hann verður að vera fær um að inna af hendi. Lánsupphæðin, sem sjóðurinn getur velt, takmarkast því fyrstu árin af því fé, sem ríki og bæjarsjóðir leggja fram. Nú er búið að byggja rúmlega 100 íbúðir, sem kosta 10-11 þús. kr. hver, eða samtals rúmlega eina millj. kr. Setjum svo, að félag sjálfstæðra verkamanna vildi nú byggja yfir alla sína meðlimi, sem eru taldir 350, þá yrðu ekki möguleikar til frekari starfsemi á næstu árum.

Út í ræðu hv. 3. þm. Reykv. skal ég ekki fara.

Mér virtist hann furðu laginn að verja það, sem hann tók sér fyrir hendur að halda fram, enda finnst mér af minni stuttu reynslu hér í d., að honum takast álíka vel að verja réttan málstað og rangan.

Hann vildi halda fram, að það væri meiri þörf á að takmarka fjölda byggingarsamvinnufélaganna heldur en byggingarfélaga verkamanna. En ég hefi nú fært rök fyrir því, að það eru takmörk fyrir því, hvað mikið byggingarsjóður verkamanna getur látið út, en hitt er ekki á sama hátt takmarkað, hvað miklu fé byggingarsamvinnufélögin geta varið til sinnar starfsemi, og þess vegna er þörf á að halda starfsemi byggingarfélaga verkamanna á þrengra sviði, heldur en starfsemi byggingarsamvinnufélaganna.