09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

26. mál, vinnumiðlun

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vænti þess, að ekki þurfi miklar deilur að verða um þetta mál. Ég viðurkenni, að það er rétt, að þetta frv., þótt að lögum yrði, eykur ekki á atvinnu í bæjum, en því er ætlað að vinna að því, að sú vinna, sem til er, hagnýtist betur.

Hv. þm. Vestm. taldi það galla, að atvmrh. væri heimilt að setja slíka skrifstofu á stofn, þó að viðkomandi bæjarfélag óskaði ekki eftir. Ég vil benda honum á, að það er eðlilegt, að stj. vilji líta eftir því, hvernig atvinnubótunum er hagað, þar sem t. d. nú er gert ráð fyrir 500 þús. kr. til atvinnubóta. Aðrir aðiljar, sem skipa á eftir þessum ákvæðum, eru fulltrúar verkamanna og atvinnurekenda, svo að hér virðist vera farin sú leið, sem líklegust er til, að allir verði ánægðir með, þar sem allir málspartar eiga að hafa hér hver sinn fulltrúa.