10.10.1934
Neðri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

26. mál, vinnumiðlun

Stefán Jóh. Stefánsson:

Mótmæli hv. sjálfstæðismanna gegn þessu frv. virðast bera vott um það, að þeir hafi ekki kynnt sér efni frv. nægilega vel áður en þeir fóru að hamast gegn því. Þeir halda því t. d. fram, að með ákvæðum frv. eigi að knýja bæjarstjórnir til að setja upp stofnanir, sem þær óski ekki eftir. En í frv. er svo að orði komizt, að í hverjum kaupstað skuli stofnuð vinnumiðlunarskrifstofa, ef bæjarstjórn hlutaðeigandi kaupstaðar ákveður eða atvinnumálaráðherra mælir svo fyrir. Þetta er því lagt á vald bæjarstjórnanna sjálfra og atvmrh.

Þá hafa sjálfstæðisþingmenn Rvíkur hér í d. haldið því fram, að þetta frv. væri fram komið til að gera að engu ráðningarstofu Rvíkur. En það er ekki rétt, að íhaldsþingmenn Rvíkur séu einir til frásagna um afskipti bæjarstjórnarinnar hér í bænum af þessu máli og stofnun hinnar svokölluðu ráðningarskrifstofu Reykjavíkur. Og þar sem málaflutningur sjálfstæðismanna hér í þessari hv. d. er blandaður hinum ósmekklegustu brigzlum um bitlinga og skoðanakúgun, eins og kom fram í ræðu hv. 6. þm. Reykv., þá hefir skörin vissulega færzt upp í bekkinn, og fullkomin ástæða til að andmæla, jafnvel þó ekki merkari maður eigi í hlut en hv. 6. þm. Reykv.

Skal ég þá víkja að afskiptum bæjarstjórnar Rvíkur af þessum málefnum.

Fyrir nokkru var það ákveðið í bæjarstjórninni að stofna til ráðningarskrifstofu. Fulltrúar Alþýðuflokksins í bæjarstjórn höfðu alltaf verið því máli fylgjandi og jafnvel átt frumkvæði að því, þó þeir að sjálfsögðu gerðu þær kröfur, að verkalýðurinn í bænum hefði einhverja íhlutun um stjórn og starfrækslu slíkrar ráðningarstofu. Og þegar rætt var um þetta efni í bæjarstjórn Rvíkur, fóru fulltrúar Alþýðuflokksins því fram á það, að þeir, sem ættu ekki hvað minnst, undir því, hvernig stjórn og rekstri skrifstofunnar yrði hagað, sem sé verkamennirnir í bænum, fengju um hendur fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna nokkurn íhlutunarrétt um stjórn og tilhögun skrifstofunnar. Meiri hl. bæjarstjórnar felldi framkomna till. Alþýðuflokksfulltrúanna, en samþykkti að stofna skrifstofu til að sjá um vinnuúthlutun og réð formann Varðarfél. til að veita henni forstöðu. Með þessari ráðstöfun var það útilokað, að vinnuúthlutunin yrði undir hlutlausri stjórn, þar sem verkamenn og atvinnurekendur hefðu báðir rétt til íhlutunar, svo að hvorugur aðili þyrfti að tortryggja störf skrifstofunnar. Þessi ákvörðun íhaldsmeirihlutans í bæjarstj. Rvíkur varð til þess, að fulltrúaráð verklýðsfélaganna stofnaði sína eigin ráðningarskrifstofu, og má hverjum manni vera ljóst, í hvílíkt óefni er komið, ef svo færi í hverjum kaupstað landsins.

Ég verð því að telja, að frv. þetta sé fram komið af fullri þörf m. a. vegna þeirrar reynslu, sem fengizt hefir hér í Rvík. Ekki verður heldur sagt, að með frv. þessu sé um nýmæli að ræða. Víða erlendis hafa slíkar skrifstofur starfað um margra ára skeið. Einnig hér á landi hefir fyrir nokkru hafizt starfsemi í þessa átt. Á Siglufirði hefir t. d. verið rekin slík skrifstofa um nokkur undanfarin sumur. Um hana hefir verið sæmilegur friður, bæjarstjórn hefir styrkt hana með fjárframlögum og ýmsir atvinnurekendur leitað til hennar, auk þess sem fjöldi verkamanna hafa notað sér aðstoð hennar.

Tilætlunin með þessu frv. er sú, að bæjarstjórnir í kaupstöðum eða atvmrh., ef hann telur þess þörf, geti stofnað slíkar vinnumiðlunarskrifstofur. Þá er og til þess ætlazt, að skrifstofur þessar hafi samband sín á milli, og gæti slíkt samstarf orðið mjög gagnlegt á ýmsa lund, t. d. um flutning verkafólks milli vinnustöðva, eftir því hvernig atvinnu er háttað á hverjum stað í það og það skipti. Segjum t. d., að skrifstofan í Rvík spyrðist fyrir hjá skrifstofunni á Siglufirði um fólksþörf þangað, meðan á síldveiði stendur, eða skrifstofan í Vestmannaeyjum leitaði til Rvíkurskrifstofunnar á vertíðinni um tiltekna tölu sjómanna o. s. frv. Þessi dæmi sýna, að af slíku fyrirkomulagi mætti verða hið mesta gagn fyrir báða aðilja, verkamenn og atvinnurekendur.

Samkv. þessu frv. er svo búið um stjórn alla, að á hvorugan er hallað. Báðir aðiljar, atvinnurekendur og verkamenn, fá sína málsvara, auk þess hlutaðeigandi bæjarstjórn og loks atvmrh., sem ber sérstök skylda til að fylgjast með atvinnuástæðum í landinu á hverjum tíma, enda gjarnan leitað til hans, er í nauðir rekur.

Enn vil ég geta þess, í sambandi við þau ummæli hv. 6. þm. Reykv., að með þessu frv. sé rauðliðum, er hann nefnir svo, fengið alræðisvald um alla vinnuúthlutun, að undanfarið hafa 2 menn haft á hendi úthlutun atvinnubótavinnunnar hér í bæ, annar sjálfstæðismaður en hinn tilnefndur af Alþýðuflokknum og var hann jafnframt einn af bæjarfulltrúum þess flokks. En nú í haust brá svo við, að fulltrúi íhaldsins var einn látinn hafa á hendi þessa vinnuúthlutun og fulltrúar verkamanna voru þannig sviptir öllum íhlutunarrétti um þessi mál. Það hefir nú brugðið svo við, að margar kvartanir hafa borizt um misrétti í úthlutun atvinnubótavinnunnar, miklu fleiri en áður. Situr því sízt á hv. þingmönnum Rvíkur, þeim sem til Sjálfstæðisflokksins teljast, að tala um einokun í sambandi við þetta frv., þar sem þeir vilja sjálfir einoka úthlutun allrar vinnu, með flokksskrifstofu þeirri, er þeir hafa sett á stofn. Þetta frv. gerir einmitt ráð fyrir íhlutun allra aðilja er hér eiga hlut að máli. Er því allt þetta tal um einokun hin örgustu öfugmæli þeirra manna, er halda vilja dauðahaldi í einhliða og óréttmæt umráð síns eigin flokks eftir atvinnumöguleikum alþýðunnar.