10.10.1934
Neðri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

26. mál, vinnumiðlun

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. 1. landsk. dásamaði mjög fyrirkomulag skrifstofanna, og einkum samband það, sem verða ætti milli þeirra. Ég fyrir mitt leyti hafði nú haldið, að ekki þyrfti að setja l. um svo sjálfsagða hluti, því ef til væri slíkar skrifstofur, þá kæmi það af sjálfu sér, að þær ynnu saman. Er því gersamlega óþarft vegna þessa ákvæðis að setja l. sem þessi. Annars var það ekki sérstaklega þetta tilefni, sem kom mér til að taka til máls hér við þessa umr. Það má nú segja, að ræða hv. 1. landsk. var fremur staðlítil, eins og vant er um hans ræður og þingmenn fá nú að heyra framvegis. Þessi fyrsta ræða hans hér var engin undantekning frá því, sem maður á að venjast af honum. Annað einkenni á ræðum þessa hv. þm. er sú hálfa lygi, sem (forseti hringir) ég get sagt heila lygi, ef hæstv. forseti hringir aftur. Ég á við það, sem hv. þm. var að tala um almennar umkvartanir, sem ættu sér stað í sambandi við úthlutun atvinnubótavinnunnar í Rvík. Hv. þm. veit mæta vel sjálfur, að þar fer hann og blað hans með algerlega staðlausa stafi. Forsprakkar sósíalista í Rvík skáru upp herör að safna gögnum fyrir þessum dylgjum sínum um misfellur, sem ættu sér stað frá bæjarins hendi. Allt, sem þeir gáfu krafsað upp, var það, samkvæmt því, er upplýstist á síðasta bæjarstjórnarfundi, að einn maður hafði í fússi skilað vinnukorti sínu, en gerði enga grein fyrir hvers vegna. Þetta er nú það eina, sem þingmaðurinn hefir fyrir sér. Ekkert annað hefir komið fram opinberlega. Þeir mega því halda betur áfram, höfundar hálfu lyginnar, ef slíkur vopnaburður á að endast þeim.