10.10.1934
Neðri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

26. mál, vinnumiðlun

Stefán Jóh. Stefánsson:

Hv. 8. landsk. fór nokkuð inn á einstök atriði þessa frv., sem að sjálfsögðu er algerlega óþarft, þar sem frv. þessu verður vísað til n. og það einmitt n., þar sem þessi hv. þm. á sæti. Hv. þm. minntist á, hvers vegna frv. þetta væri fram komið og hafði þá einungis fram að bera sömu endileysuna og samflokksmenn hans í þessari hv. d. Hann vildi og halda því fram, að það væri full ástæða til þess að bíða með afgreiðslu þessa máls og sjá hvernig skrifstofa sú, sem Rvíkurbær hefir nýlega sett á stofn, reyndist. Ég geri ekki ráð fyrir, að nein ástæða sé til þess að draga málið á langinn hennar vegna, því þess ber að gæta, að um leið og hún var stofnuð, var vakin sú tortryggni gegn henni, sem gerir það að verkum, að hún á engu trausti að fagna meðal alþýðumanna, þar sem verkalýðnum sjálfumvar þegar í upphafi synjað um að eiga nokkra hlutdeild um stjórn hennar, og forusta hennar falin harðsnúnum íhaldsmanni, sem jafnframt var formaður í hinu stærsta pólitíska félagi íhaldsmanna hér í bænum. Hvernig getur nokkur maður, sem skyn ber á þessa hluti, látið sér detta í hug, að verkamenn geti borið traust til slíkrar stofnunar?

Hv. 3. þm. Reykv. tók mér sem vænta mátti, þá er ég flutti hina fyrstu ræðu mína á þessari virðulegu samkomu. Hann var að tala um, að hv. þdm. myndu finna einhvern smjörþef af ræðum mínum. Það má vel vera, að mér auðnist að láta þennan hv. þm. og flokksbræður hans finna þann smjörþef, er þeir eiga skilið, þegar þeir að gömlum hætti berjast gegn umbótamálunum. Hann hefði sjálfur a. m. k. gott af því að læra að hegða sér hógværlegar en hann hefir gert hingað til, enda þótt hann sé nú kominn á sextugsaldurinn. Gamalt orðtæki segir, „að svo lengi læri sem lifi“, og má vel vera, að þessi fullorðni maður geti, þrátt fyrir aldur sinn, lært meiri hógværð og stillingu en hann hefir hingað til tamið sér, og myndi hann sannarlega hafa gott af því. A. m. k. væri þessum hv. þm. þörf á að læra að haga orðum sínum svo, að þau hneyksluðu ekki þingheim, eins og t. d. áðan, þar sem hann viðhafði svo óþingleg orð, að frekar hefði mátt halda, að þau hefðu verið sögð af illa uppöldum unglingi en öldruðum manni, sem búinn er að eiga setu á Alþ. um langt árabil.

Annars þýðir ekkert hvorki fyrir þennan hv. þm. eða aðra að reyna að verja það, að ekki hafi verið beitt hlutdrægni og pólitískum undirróðri við úthlutun atvinnubótavinnunnar hér í Rvík nú síðastl. sumar. Það hafa m. a. s. verið sendir menn út í vinnuflokkana, og þeir látnir flytja verkamönnunum þann boðskap, að þá og þegar mætti búast við, að vinnan yrði lögð niður, vegna þess að stj. hefði ekki gert skyldu sína um að inna af hendi fjárframlög til vinnunnar. Það hefir verið skorað á Alþýðublaðið að birta nöfn þeirra verkamanna, er kvartað hafa undan rangsleitni um úthlutun vinnunnar, en nöfn þeirra munu alls ekki verða birt, því að Alþýðuflokkurinn mun alls ekki fara að framselja flokksmenn sína undir fleiri píningar íhaldsmanna en þegar er orðið. Það mun verða nógu erfitt fyrir hina fátæku verkamenn að sækja um vinnu til þeirra manna, sem nú úthluta atvinnubótavinnunni, þó að verkamennirnir séu ekki beinlínis lagðir undir refsivöndinn hjá þeim. Þetta, sem ég nú hefi sagt, er óhrekjanlegur sannleiki, og á vitund alls verkalýðs hér í bænum. Samt dirfist hv. 3. þm. Reykv. að kalla það lygi. Það er honum líkt.