10.10.1934
Neðri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

26. mál, vinnumiðlun

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hæstv. atvmrh. kom hér, ég vil ekki segja eins og skrattinn úr sauðarleggnum um svo virðulegan mann, og það var auðheyrt, að hann hafði ekki fylgzt með þessu máli hér, sem er ekki heldur hægt að heimta, þar sem hann hefir verið að taka þátt í afgreiðslu mála í Ed. Það hefir einhvernveginn komizt inn í höfuð hans, að ég hafi verið að finna að því, að mistekizt hefði skipun þeirrar stj., sem frv. gerir ráð fyrir. Þetta er lítilsháttar misskilningur. Þessar umr. stöfuðu af því, að flokksmenn hæstv. ráðh. voru að halda því fram hér í d., að þessi fyrirhugaða skrifstofa yrði alveg hlutlaus. Svo kemur hæstv. atvmrh. eins og af himnum sendur, mér til aðstoðar í þessu máli, og segir, að þetta sé alveg ómögulegt, og staðfestir það, sem ég hefi haldið fram, að kenning flokksmanna hans sé ekkert nema vitleysa og m. a. s. lýgi, heil eða hálf eftir því, sem forseti vill láta vera. En hvað lýðræðið snertir, þá hefir hæstv. atvmrh. enga afsökun, og mér virðast kenningar hans um lýðræði nokkuð haltrandi. Hann segist ekki þekkja aðrar lýðræðisreglur en að löggjöf sé sett á þingræðislegan hátt. Það hefir heyrzt, og það ekki alls fyrir löngu, að fyrirhugað væri að setja löggjöf um, að borgarstjórinn í Rvík væri skipaður af ríkistj. Um þetta má setja löggjöf, og hún yrði sjálfsagt sett eftir þingræðisreglum, samþ. af meiri hl. þings, en ég held, að atvmrh. gengi ákaflega illa að sannfæra jafnvel sína sauðspökustu fylgismenn um, að þetta væri lýðræði, að setja bæjarfél., sem á að hafa sjálfstjórn um sín mál, með valdboði borgarstjóra. Ég hefi tekið þetta dæmi, af því að það er gleggst. Það, sem verið er að gera hér, er alveg það sama. Það er verið að taka völdin af bæjarstj. í bæjarfél., um það, hvernig eigi að skipa stj. á stofnun, sem bæjarstj. á að ráða yfir og er búin að stofna. Þetta á að gera með löggjöf og eftir lýðræðisreglum, en ég neita, að þetta sé gert samkv. lýðræðisreglum. Það er ofbeldi og ekkert annað.

Það eru til stjórnarskrárákvæði fyrir því, að sveitarfélög ráði sjálf sínum málefnum, og það er ekkert vafamál, að það verður gengið eins nálægt þeim og frekast er unnt, án þess að því verði hegnt, af hv. 2. þm. Reykv. Honum vil ég segja það, að þegar hann er að trana sér hér fram sem fyrsti og helzti málsvari verkalýðsins, þegar þessi illræmda blóðsuga á atvinnuvegum þessa lands (Forseti hringir), er að hreykja sér í þessu sæti, þá roðna ég og skammast mín fyrir alþýðu þessa lands. Og um það, hve verkalýðurinn sé ánægður með stj. þessa manns, sem lifir á sveita fátæklinganna, sem tekur 3 fiska af hverjum 4 og stingur andvirðinu í sinn vasa, og hve stjórn hans á verkalýðsfél. takist vel og allir séu ánægðir þar, það vita allir í Rvík. Það vita allir, hve vel það var þokkað, er stjórn Dagsbrúnar sölsaði undir sig vinnumiðlun hér í bænum og bannaði fjöldamörgum að vinna, sem vildu vinna og gátu fengið vinnu.