10.10.1934
Neðri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

26. mál, vinnumiðlun

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að bæjarfulltrúa varðaði ekkert um úthlutun vinnu. Þetta er algerlega rangt. Bæjarfulltrúum er ætlað að semja fjárhagsáætlun fyrir bæina og bera ábyrgð á því, sem fram fer. Hv. 2. þm. Reykv. vill taka af þeim ákvörðunarréttinn um það, hvernig farið sé með það fé, sem bærinn lætur vinna fyrir. Það er vitanlegt, að þegar um bæjarvinnu er að ræða, þá verður að hafa nokkra hliðsjón af því, hverjir það eru, sem þarfnast mest vinnu. Það vita fáir betur en bæjarfulltrúarnir, hverjir æskja mest að fá styrk frá bænum, og það er við bæjarfulltrúana, sem menn bera sig upp, þegar þeir telja sig komna svo að örþrotum, að þeir hljóti að fara á bæinn, ef þeir ekki fái vinnu. Svo vill hv. 2. þm. Reykv. ekki láta ákvörðunar- og miðlunarréttinn hvað vinnu snertir vera í höndum þessara manna, sem ætlað er að bera ábyrgð á málefnum bæjanna.

Það hefir komið berlega fram í umr. um þetta mál, að það er eingöngu komið fram vegna ágreinings, sem orðið hefir milli stjórnmálaflokkanna hér í bæjarstj. Rvíkur. Aðrir kaupstaðir eru bara teknir með rétt til málamynda. Ég vil mælast til þess, að n. sú, sem fær málið til athugunar, leiti sér upplýsinga um það, áður en hún dembir þeirri skyldu á kaupstaðina að hafa vinnumiðlunarskrifstofu, hvort sem menn vilja það eða ekki, hversu miklu eða hvort nokkru hefir verið til þess kostað áður og hvernig miðlunin hefir farið fram. Ég vil bæta því við, að það er sanngjörn krafa þeirra bæjarfél., sem hafa unnið þetta verk hingað til óátalið og án kostnaðar fyrir bæjarsjóðina, að þau fái að haga sínum málum í þessu efni eins og verið hefir, og a. m. k., að skrifstofa, sem kostar fleiri hundruð kr., verði ekki sett á stofn í bæjum án vilja bæjarstjórnanna.