23.10.1934
Neðri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

26. mál, vinnumiðlun

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Eins og nál. ber með sér, hefir allshn. klofnað um málið. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ., en minni hl., að það verði fellt.

Um frv. var allverulega rætt við 1. umr., svo það er ekki ástæða til að ræða mikið um það nú, þar sem það var rætt í heild þá. En út af brtt., sem fyrir liggja, verð ég að fara nokkrum orðum um frv. í sambandi við þær. Eins og frv. ber með sér, er svo fyrir mælt í 1. gr., að vinnumiðlunarskrifstofur séu settar á stofn í kaupstöðum „ef bæjarstjórn eða atvinnumálaráðherra mæla svo fyrir“. Við 1. gr. er brtt. frá hv. þm. Vestm. þess efnis, að fella niður heimild atvmrh. til þess að setja á stofn vinnumiðlunarskrifstofur. Út af þessari brtt. vil ég taka það fram, að frv. er samið með það fyrir augum, að það geti orðið til gagns fyrir kaupstaðina og allan landslýðinn. Fyrirmæli frv. í 2. gr. eru þannig, að vinnumiðlunarskrifstofan hefir með höndum mál, er snerta ríkið. Frá mínu sjónarmiði á ekki eingöngu meiri hl. bæjarstj., heldur líka sá ráðh., sem fer með atvinnumálin á hvaða tíma, sem er, að hafa vald til að setja á stofn vinnumiðlunarskrifstofur, ef hann telur þær gagnlegar fyrir atvinnuhættina í landinu. Í öllum nágrannalöndum vorum eru slíkar skrifstofur fyrirskipaðar í kaupstöðunum.

Hv. þm. Vestm. sagði við 1. umr. þessa máls, að það væri hart fyrir kaupstaðina, ef ráðh. ætti að hafa vald til þess að stofna til kostnaðar fyrir þá, án vilja þeirra. Hv. m. veit, að svo að segja á hverju þingi eru sett ákvæði, sem hafa í för með sér kostnað fyrir bæjarfél., án þess að þau óski þeirra beinlínis. Ég skal í þessu samb. minna á l. um lögreglumenn. Þar er svo fyrirskipað, að dómsmrh. geti stofnað varalögreglu í bæjunum. Hann hefir á sínu valdi að ákveða tölu lögreglumannanna. Kostnaður við þá lögreglu er að hálfu leyti greiddur úr ríkissjóði og að hálfu leyti úr bæjarsjóði. Ríkisstj. er þannig heimilt að stofna til kostnaðar fyrir bæina, jafnvel móti vilja þeirra. Hv. þm. talaði þá ekki móti því frv. Ég vil nefna annað dæmi. Löggjafarvaldið hefir lagt allverulegan kostnað á bæjarfél. með stofnun gagnfræðaskóla í kaupstöðum landsins. Það er því ekki á rökum reist, að það sé óeðlilegt, að löggjafarvaldið leggi kostnað á bæjarfél. án óska þeirra. Það er einmitt mjög algengt. - Ég hefi þá gert grein fyrir því, að það er eðlilegt, að atvmrh. kveði svo á, ef honum þykir þörf á, að stofnuð sé vinnumiðlunarskrifstofa í bæjunum, þó að þeir hafi ekki borið fram sérstaka ósk um það.

Í 2. gr., tölul. 3, 4, 5 og 7, er þessum skrifstofum ætlað hlutverk, sem ekki eingöngu snertir bæjarfélögin, heldur og ríkisheildina. Í 3. tölul. eru ákvæði um það, að vinnumiðlunarskrifstofan ráði yfir styrk, sem veittur er til atvinnubóta. Af því fé leggur ríkið til 1/3, en bæjarfél. 2/3. Það skiptir því að sjálfsögðu ríkisstj. máli, hvernig þeim styrk er varið. Það er því eðlilegt, að ríkið hafi hönd í bagga með því, hvernig þessar vinnumiðlunarskrifstofur eru reknar.

Þá er brtt. við 3. gr., frá hv. þm. V.-Ísf., á þá leið, að í stað 5 manna stj. verði 3 manna stj., þannig skipuð, að 1 maður sé frá verkamönnum, 1 frá atvinnurekendum og 1 skipaður af bæjarstj. Meiri hl. n. er á móti þessari brtt. Og ástæðan er fyrst og fremst sú, að það skiptir ríkisstj. miklu máli, hvernig þessi starfsemi er rekin, þar sem hún á að ráða yfir atvinnubótavinnunni. Það skiptir ríkið miklu máli, að geta fylgzt með atvinnumálum bæjanna og fengið upplýsingar um atvinnuhætti þar. Það getur sem sé borið við, að ásjár atvmrh. sé beiðzt, og þá þarf hann að vita glögg skil á því, hvernig atvinnuháttum er varið í því bæjarfél., sem leitar á náðir ríkisins. Meginþættirnir í 2. gr. frv. eru þannig mjög viðkomandi ríkinu, og er því ófært að svipta ríkisstj. öllum ráðum í máli, sem snertir ríkið svona mikið.

Ég get ímyndað mér, að þessi till. stafi af því, að í nágrannalöndunum er stj. þessara stofnana að nokkru leyti falin fulltrúum úr bæjarstj. En það er aðgætandi í þessu sambandi, að vinnumiðlunarskrifstofum erlendis er ekki ætlað sama hlutverk og vinnumiðlunarskrifstofum hér er ætlað með frv. Í Svíþjóð eru t. d. atvinnuhættir svipaðir og hér. Þar er t. d. atvinnubótavinna, en hún er falin stjórn sérstakrar nefndar (Arbetslöshetskommissionen), og vinnumiðlunarskrifstofur þar hafa því ekki tekið beinan þátt í úthlutun atvinnubótavinnu. Meginmunurinn er því sá, að vinnumiðlunarskrifstofum þar er ætlað minna hlutverk, og þá helzt það, er snertir hagsmuni bæjanna, en minna ríkið. Löggjöfin um þetta efni í Danmörku mælir svo fyrir, að bæjarstj. tilnefni oddamanninn, en þó því aðeins, að ákveðinn meiri hl. fáist. En vinnumiðlunarskrifstofurnar þar eru háðar miklu eftirliti félagsmálaráðh. Ég held þess vegna, að þetta sé byggt á misskilningi, og mér finnst það einkennilegt af hv. þm., sem fyrst og fremst eiga að hafa fyrir augum heill ríkisheildarinnar, að koma fram með brtt. og leggja ríka áherzlu á, að ríkið verði svipt möguleikanum til íhlutunar um störf þessara fyrirtækja. Ég skil ekki vel þá hugsun, sem liggur á bak við brtt. Og mér finnst það fjarri lagi, eftir efni frv., að láta brtt. ná fram að ganga.

Hv. þm. V.-Ísf. hefir borið fram brtt. á þskj. 165, sem ég hefi að nokkru leyti minnzt á, nema brtt. við 7. lið 2. gr. En ég tel hana til bóta og mun meiri hl. allshn. leggja með því, að hún verði samþ.

Um niðurlagið á brtt. við 3. gr. á sömu brtt. hv. þm. V.-Ísf. er það að segja, að ef brtt. hans í heild verður felld, sem meiri hl. allshn. vill að verði gert, þá vildi ég breyta svo til með 3. gr., að það verði ákveðið, að ef ekki er starfandi verklýðsfél. eða eitthvert slíkt fél. þar, sem vinnumiðlunarskrifstofa starfar, þá eigi allsherjarfélagsskapur verklýðsstéttarinnar að útnefna manninn.

Mér finnst mjög eðlileg brtt. við 4. gr., um að kostnaður af símtölum, símskeytum og póstsendingum greiðist úr ríkissjóði, því að þetta atriði skiptir ríkið miklu máli, og mun það, að greiða þetta úr ríkissjóði, vera í samræmi við það, sem víða er annarsstaðar.

Minni hl. allshn. hefir ekki komið fram með neinar brtt. við frv., en leggur til í nál. sínu á þskj. 157, að frv. verði fellt, og færir þar fram sínar ástæður fyrir því. Ég álít, að ályktanir minni hl. allshn. séu byggðar á misskilningi. Það er auðséð á framkvæmdum í þessu efni á Siglufirði og hér í Rvík, að hingað til landsins er að berast sú stefna, sem framkvæmd hefir verið í nágrannalöndum okkar um mörg ár, að hafa lögskipað fyrirkomulag til þess að geta á atvinnuleysistímum greitt fyrir fólki, sem þarf að fara stað úr stað til að leita sér atvinnu. Og ég álít fullkomlega tíma til þess kominn að setja löggjöf um þetta efni hér á landi.

Minni hl. allshn. segir í nál. sínu, að þessar skrifstofur mundu hafa verulegan kostnað í för með sér fyrir bæina, ef þær yrðu settar á stofn. En mér finnst, að Rvíkurbær ætti sízt að kvarta undan því, þó að sett yrðu l. eins og hér er um að ræða, þar sem ríkið á að greiða 1/3 hluta kostnaðar. Mér skilst, að ráðningarskrifstofa sú, sem tók til starfa hér í bænum, hafi farið þannig af stað, að útlit sé fyrir, að hún hafi verulegan kostnað í för með sér, sem ég efast um, að þyrfti að vera svona mikill. Því að fyrir utan forstöðumann með háum launum, eru tveir eða þrír aðrir starfsmenn á skrifstofunni, og það strax í upphafi.

Í nál. minni hl. er því einnig slegið föstu, að frv. þetta sé fram komið til höfuðs ráðningarskrifstofu þeirri, sem bæjarstj. Rvíkur hefir ákveðið að stofna. Þetta er ekki rétt. Það er fram komið til þess að koma á eðlilegri samræmingu í störfum þessara stofnana í kaupstöðum landsins, og til að setja ákvæði og reglur um þau, til þess að sem mest gagn verði að þeim fyrir kaupstaðina, ríkið og aðra aðilja, sem mikið eiga undir því, að stofnanir þessar verði reknar vel og viturlega, en það eru fyrst og fremst verkamenn í kaupstöðunum og þá líka atvinnurekendur.

Ég sagði við fyrstu umr. málsins, að Alþýðuflokknum þætti ekki eins vel til þessarar ráðningarskrifstofu hér í Rvík stofnað eins og skyldi, af því að þar væri of mikið einræðisbrölt á ferðinni, þar sem útilokuð er íhlutun þeirra manna, sem ættu að hafa veruleg afskipti af þessum málum, nefnilega verkamanna. Ég skal geta þess, að á bæjarstjórnarfundi hér í Rvík 5. júlí 1934 bar ég fram till., sem ég leyfi mér að lesa hér upp:

„Um val á forstöðumanni og tilhögun skrifstofunnar sé leitað álits og tillagna fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík“.

Þessi till. var felld með 7 atkv. gegn 5. Það þótti ekki einu sinni ástæða til að leita álits verkamanna í Rvík um þetta. Það var von, að verkamönnum litist ekki á stofnun þessarar skrifstofu, þegar svona var af stað farið, og líka þegar valinn var til forstöðu fyrir þessari skrifstofu maður, sem er formaður stærsta sjálfstæðisfélagsins í bænum og svarinn andstæðingur verkalýðshreyfingarinnar.

Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að því, sem minni hl. allshn. talar um, að með löggjöf þessari eigi að svipta bæjarstjórnir forráðum sinna mála. Þetta er ekki rétt. En löggjöfin setur oft ýmsar reglur um mál, er snerta bæi landsins, því að bæirnir hafa ekki löggjafarvald sjálfir, heldur aðeins takmarkað vald í sínum eigin málum. En þessar reglur, sem nú er lagt til að setja um vinnumiðlunarskrifstofur, snerta ekki aðeins bæjarfél., heldur einnig landsmenn í heild.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta að sinni. Skal aðeins leggja áherzlu á það, að meiri hl. allshn. óskar eftir, að frv. verði samþ. með þeirri brtt., sem hann kemur fram með á þskj. 83 á eftir nál., um að ef vinnumiðlunarskrifstofa er stofnuð í kaupstað, þar sem einhver aðili, sem eftir 3. gr. frv. hefir rétt til að skipa mann í stj. vinnumiðlunarskrifstofunnar, geri það ekki, hver aðili sem það er, þá skipi atvmrh. þann eða þá menn í stj.