23.10.1934
Neðri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

26. mál, vinnumiðlun

Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson) [óyfirl.]:

Minni hl. allshn. er það ljóst, að grundvallarhugsun þessa frv. um stofnun vinnumiðlunarskrifstofa yfirleitt getur staðizt. En eins og hugmynd þessi er fram borin í frv., þegar athugaður er tilgangur og tilefni þessa frv., þá sér minni hl. allshn. sér ekki annað fært en að óska eftir, að frv. verði fellt.

Okkur er ljóst, þrátt fyrir ræðu hv. 1. landsk., að þetta frv. er borið fram, eins og svo mörg frv. hér á þingi nú, af stjórnarflokkunum sem eitt af þeim málum, sem fram eru borin til höfuðs Rvík og því valdi, sem fer með bæjarmál Rvíkur. Það er borið fram á móti vilja meiri hl. kjósenda hér í Rvík og meiri hl. bæjarstj., yfirleitt á móti þeim yfirráðum, sem jafnaðarmenn hafa ekki náð á sitt vald í Rvík. Þetta frv. er borið fram til þess að hnekkja þessu valdi.

Við, sem erum í minni hl. í n., álítum, að það sé alls ekki ástæða til þess að skylda kaupstaði landsins með löggjöf til þess að setja slíka skrifstofu á stofn hjá sér. Og í þessu sambandi má geta þess, að þó að frv. út af fyrir sig sé gott að grundvallarhugsun, þá er þegar eitt atriði í 1. gr. frv., sem útilokar það, að ég geti verið með því óbreyttu. Hér er það á ferðinni að leggja á vald atvmrh. að setja slíkar skrifstofur á stofn í kaupstöðum landsins, án tillits til þess, hvort bæjarstj. sjálfar sem slíkar óska þess eða ekki.

Það er eftirtektarvert, að hv. 1. landsk., þegar hann er að koma með dæmi, þessu frv. til réttlætingar, nefnir sem fordæmi l. um lögreglumenn, fyrir því, að ráðh. geti án vilja viðkomandi bæjarstj. lagt þennan kostnað á bæjarsjóðinn. Þessi tilvitnun hv. 1. landsk. sannar ekki réttmæti frv., því að í l. um lögreglumenn stendur í 1. og 6. gr., að lögreglustjóri skuli skipa lögreglumenn, að fengnum till. viðkomandi bæjarstj.

Í þessum l. er það einmitt tekið fram, að ráðh. skuli fyrst fá till. viðkomandi bæjarstj. um þetta atriði. Þetta á auðvitað að skilja á þann veg, að ef meiri hl. bæjarstj. ekki væri með því að setja á stofn hjá sér varalögreglulið, þá mundi ráðh. ekki geta gert það. Þessi tilvitnun hv. þm. í l. er því til stuðnings því, sem minni hl. n. heldur fram í málinu, en alls ekki til stuðnings því, sem meiri hl. heldur fram.

Ég vil nota tækifærið til þess í þessu sambandi að minna þennan hv. þm. á annað mál, sem hann hefir með miklu kappi varið og unnið fyrir dómstólunum fyrir hönd bæjarstj. Rvíkur, sem er málið á milli lögreglustjórans í Rvík og borgarstjóra í sambandi við ráðningu lögreglumanna hér í Rvík. Um það er úrslitaákvæði í l., að lögreglumenn eigi að ráða að fengnum till. lögreglustjóra. Þetta vildi hv. 1. landsk. skilja eftir bókstaf l. Það sýnir, að sá maður, sem á að ráða starfi lögregluþjóna, þeirra, sem starfa á hans ábyrgð, hann á samkv. l. að ráða svo miklu um val þessara manna, að bæjarstj. getur ekki með fullum rétti ráðið þá án þess að lögreglustjórinn hafi fyrst tilnefnt þá. Ég hefi að vísu ekki lesið varnir hv. 1. landsk. í þessu máli, en þó geri ég ráð fyrir, að hann hafi byggt upp sína vörn m. a. á þeim ástæðum, að þessir menn störfuðu á ábyrgð lögreglustjóra, og þess vegna ætti hann að hafa íhlutun um ráðningu þeirra.

Hér er nú svipað ástatt um þessar vinnumiðlunarskrifstofur. Þær eiga að verða reknar að 2/3 hlutum á kostnað viðkomandi bæjarfél. og að því leyti á ábyrgð þess, og bæjarbúar eiga sín mál undir þessum skrifstofum og viðkomandi bæjarstj. á að velja menn í stjórnir þeirra. Það væri því ekki óeðlilegt, þó að bæjarstj. í hverjum kaupstað fengi að ráða í þessu efni sjálf, án íhlutunar atvmrh. Bæjarfél. sjá sínum borgurum fyrir atvinnu og borgararnir greiða sín gjöld í bæjarsjóðinn, þ. á m. til atvinnubóta og rekstrar fyrirtækja bæjarins og svo þeirrar annarar vinnu, sem bæjarfél. lætur þeim í té. Það væri í samræmi við þá almennu reglu, að atvinnurekendur mega ráða menn í þá vinnu, sem þeir hafa fram að bjóða, að greiða fyrir því, að bæjarstj. fengju að ráða fyrirkomulagi slíkrar skrifstofu. - Ef bæjarfél. eru orðin svo stór og eftirspurn eftir vinnu þess vegna orðin svo mikil, að nauðsyn sé á að stofna slíka vinnumiðlunarskrifstofu, þá mun viðkomandi bæjarstj. auðvitað setja hana á stofn, án þess að til þurfi að koma nein löggjöf frá hæstv. Alþ., og með þeim mönnum í stj. skrifstofunnar, sem hún telur hæfasta til þess.

Að mínu áliti er því ekki nauðsyn á að skylda neinn bæ eða kaupstað til að setja á stofn hjá sér vinnumiðlunarskrifstofu, vegna þess að nauðsynin knýr hana fram, þegar tími er til kominn.

Eins og hv. 1. landsk. tók fram, hefir þegar verið settur á stofn vísir til slíkra skrifstofa hér í Rvík og Siglufirði, sem eru alveg nýteknar til starfa. Sósíalistar munu hafa staðið fyrir stofnun skrifstofunnar á Siglufirði, og þeir segja auðvitað, að hún hafi reynzt vel. En ég fyrir mitt leyti veit ekki, hvort það er rétt. Það má vel vera, að svo sé. Ég hugsa þó helzt, að stofnun þessarar skrifstofu á Siglufirði hafi verið meira til málamynda og sem auglýsing fyrir þessa menn, sósíalista, sem svo oft vilja draga sinn agitationarfána við hún.

Í Rvík er þessi skrifstofa komin fram vegna þess, að nauðsyn var komin fyrir hana. Hún var sett á stofn eftir samþ. meiri hl. bæjarstj., og ég veit ekki betur en að þessi hv. þm., 1. landsk., hafi sem bæjarfulltrúi verið með í að samþ. það, að hún skyldi verða sett á stofn. Hann mun hinsvegar hafa borið fram till. í þá átt, að leitað yrði álits verklýðsfél. bæjarins um stofnun þessarar skrifstofu. Hv. þm. er mjög hneykslaður yfir því, að meiri hl. bæjarstj. skyldi ekki samþ. að leita álits þessa aðilja um rekstur og fyrirkomulag skrifstofunnar. Nú vil ég skjóta því til hv. 1. landsk.: Hvernig hefir framkoma hans og hans flokksbræðra verið gagnvart minni hl. allshn., þegar þetta mál var til meðferðar hjá þeirri n., þegar við í minni hl. allshn. bárum fram till. um að leita skyldi umsagnar bæjarráðs um þetta? Þá sagði hann, að engin ástæða væri til að fara að tefja málið á því o. s. frv. Ég veit, að hv. 1. landsk. neitar því þó ekki, að þetta mál snertir mjög mikið bæjarstj. Rvíkur, og þá um leið bæjarráð, sem er kosið af bæjarstj., og að ekki er óviturlegt né ósanngjarnt að leita umsagnar þess áður en slíkt frv. sem þetta er lögfest. Þessi hv. þm. átti nú ekki með sínum lýðræðishugsjónum og lýðræðisorðum út af því, hve hann var hneykslaður af synjun meiri hl. bæjarstj. í áminnztu atriði, - hann átti nú ekki að láta þetta framferði bæjarstj., sem hann svo mjög hneykslaðist á, verða sér til fyrirmyndar, heldur miklu fremur til varnaðar í því máli, sem hér er um að ræða. En það er svo í þessu sem öðru, að sósíalistar tala fagurlega, en hyggja flátt, því þeir veita andstöðu málameðferð eins og þeirri, sem minni hl. allshn. hefir viljað hafa á þessu máli, af því að þeir hyggja, að það komi þeim ekki sjálfum í hag, þó að þeir alveg í hliðstæðu tilfelli hafi haldið fram þeirri sömu málsmeðferð og talað mikið um hana frá lýðræðissjónarmiði.

Minni hl. allshn. leitaði álits bæjarráðs Rvíkur um þetta mál. Till. þess er, að löggjöf um málið verði frestað þangað til útséð er um það, hvort sú skrifstofa, sem hér átti að fara að starfrækja, ekki nær þeim tilgangi, sem til er stofnað og sósíalistar segja, að vaki fyrir þeim með þessu frv., sem sé að gæta hagsmuna bæði atvinnurekenda og atvinnuþiggjenda. Sú skrifstofa, sem bæjarráðið hefir sett á stofn, er að vísu ekki enn tekin til starfa. Þessa skrifstofu á að reka á bæjarins kostnað og undir eftirliti og umsjón bæjarráðs Rvíkur, sem kosið er af bæjarstj. með hlutfallskosningu, og í því sitja 5 menn. Bæjarráðið, og því hv. 1. landsk. og hans flokkur, hafa því íhlutunarrétt um rekstur þessarar skrifstofu á sama hátt og um öll önnur bæjarmál Rvíkur.

Mér finnst nú eðlilegast, að bæjarstj. Rvíkur fái sjálf að ráða fyrirkomulagi og rekstri þessarar skrifstofu, sem rekin er á hennar ábyrgð og kostnað að öllu leyti. Og ég fæ ekki séð, að sú upptalning, sem gerð er í 2. gr. frv., geti á nokkurn hátt útilokað það, að hér sé á viðunandi hátt hægt að safna skýrslum fyrir ríkisstj. og framkvæma annað, sem þar er upp talið, án þess að þetta frv. verði samþ. Það er og öldungis víst, að ráðningarskrifstofa bæjarins getur látið ríkisstj. í té allar þær skýrslur, sem heimtaðar eru í frv. Er því engin ástæða þeirra hluta vegna fyrir löggjafarvaldið að fara að þvinga fram slíka stofnun sem þessa vinnumiðlunarskrifstofu. Það hefir heldur enginn getað sannfært mig um það, að ráðningarskrifstofa bæjarins geti ekki að öllu leyti fullnægt þeim kröfum, sem settar eru fram í 2. gr. frv. Það myndi enginn t. d. vera færari um að miðla vinnu á milli bæjarbúa en hún, því að hún myndi gera það í samráði við fátækrafulltrúa bæjarins og verkamennina sjálfa. Þá fæ ég ekki heldur séð, að vinnumiðlunarskrifstofa þessi sé nauðsynleg vegna skýrslusöfnunar. Það myndi skrifstofa bæjarins eins geta gert engu síður en skrifstofa þessi. Þá fæ ég ekki heldur séð, að ráðningarskrifstofa bæjarins geti ekki fullnægt 6. lið 2. gr. frv., að veita opinberum stofnunum, svo og verkalýðsfél. innan Alþýðusambands Ísl. og fél. atvinnurekenda upplýsingar um tölu atvinnulausra og hagi þeirra. Í einu orði sagt: Ég fæ ekki séð, að það sé neitt það í upptalningu 2. gr. frv. og vinnumiðlunarskrifstofunni er ætlað að gera, sem skrifstofa undir eftirliti bæjarstj. geti ekki fullnægt. Eftir gildandi l. hafa öll bæjarfél. sín fjármál út af fyrir sig, sitt fátækraframfæri út af fyrir sig o. s. frv. Þau hafa því þá aðstöðu, að vera nokkurskonar ríki í ríkinu. Það er því undarlegt að fara að neyða þau öll til þess að setja á stofn hjá sér slíka skrifstofu sem þessa.

Það er eitt, sem hv. 1. landsk., sem stundum þykist vilja vera sanngjarn, hlýtur að viðurkenna, en það er, að Rvíkurbær eigi að stjórna sínum málum sjálfur. Og komi sá tími nokkurn tíma, að jafnaðarmenn nái yfirráðum yfir bænum, þá munu þeir sannarlega vilja ráða, hverjir stýra honum. Get ég þá trúað, að þeir muni hvorki vilja hafa þar um íhlutun ríkisins eða annara. Að þeir vilji ráða þar sem þeir hafa einhverja möguleika til þess, má og sjá á frv. þeim, sem fyrir þinginu liggja, þar sem þeir, enda þótt þeir séu í minni hl. að kjósendatölu í landinu, koma með hvert frv. öðru róttækara, sem eru algerð hnefahögg á móti þeim, sem ekki fylgja þeim að málum.

Verði frv. þetta, sem hér liggur fyrir, að f., þá verða þau l. t. d. sett alveg á móti vilja meiri hl. bæjarstj. Rvíkur, og það verður að teljast æði hart að skylda bæjarstj., alveg gegn vilja hennar, til þess að kosta slíka skrifstofu sem hér er um að ræða. Annars er það undarlegt, ef meiri hl. Alþ. gengur inn á það, að leggja þann kostnað, sem af frv. þessu leiðir, að nokkru leyti yfir á ríkissjóðinn, þegar vitanlegt er, að bæjarstj. Rvíkur vill ein kosta skrifstofu, sem að öllu leyti getur innt af hendi þau störf, sem miðlunarskrifstofu þessari er ætlað að vinna. Það er ekki alltaf verið að hlífa Rvíkurbæ svona við útgjöldum.

Eigi slík skrifstofa sem þessi að ná tilgangi sínum, þá þarf umfram allt að vera fullt samkomulag um hana, bæði meðal vinnuveitenda og vinnuþiggjenda. Náist slíkt samkomulag ekki, nær hún aldrei tilgangi sínum.

Verði það úr, að mál þetta verði þvingað í gegnum þingið á móti allri sanngirni og lýðræðisreglum, þá er fyrirfram víst, hvernig stofnuninni verður tekið yfirleitt af borgurum Rvíkur. Við 1. umr. þessa máls hér í d. var það sérstaklega haft á móti ráðningarskrifstofu bæjarins, að ráðinn hafði verið sem forstöðumaður hennar maður að nafni Gunnar E. Benediktsson, sem unnið hafði fyrir Varðarfél. Var skrifstofan og forstöðumaðurinn dæmdur fyrirfram óalandi og óferjandi, áður en skrifstofan hafði byrjað starfsemi sína. (HV: Hann hafði dæmt sig sjálfur). Það er hv. 2. þm. Reykv., sem hefir dæmt sig sjálfur með hrottaskap sínum og böðulsgangi. (JakM: Og olíuverzlun). Já, og mörgu fleiru, sem á endanum hlýtur að verða sprenging af. Ég segi sprenging, því það get ég fullvissað þennan hv. þm. um, að haldi hann og flokksmenn hans áfram með allar firrur sínar og yfirgang, þá verður af því einhver sprenging, því að það getur fleira verið eldfimt en benzín og olía. Annars er það býsna hlálegt að hugsa til þess, að hér sitja þessir háu herrar, sem aðstöðu sinnar vegna hér á Alþ. eiga að gæta réttar fjöldans og fara miðlunarleið, þegar um mikinn ágreining er að ræða. En í stað þess að gera þá sjálfsögðu skyldu sína, þá þvinga þeir hér fram pólitísk einkahagsmunamál sín og síns flokks. Ef þeir hefðu fyrir augum hag kaupstaðanna og landslýðsins, þá myndu þeir leita betri ráða til úrlausnar þessu og fleiri mála heldur en þess, að koma hér fram með einhliða flokkshagsmuni, alveg án tillits til annars. Það er vitanlegt, að frv. þetta á að knýja fram alveg gegn vilja meiri hl. bæjarstj. Rvíkur, aðeins til hagsmuna fyrir þá klíku, sem stendur utan um hv. 2. þm. Reykv. Ég vildi því ráða þessum háu herrum til þess að nota þessa miðlunarskrifstofu sína til þess að miðla á milli sín öllum þeim bitlingum, sem þeir eru að hrúga upp fyrir sig og skjólstæðinga sína.

Það mun vera alveg einsdæmi að setja á stofn slíka skrifstofu sem þessa án þess að leita áður umsagna bæjarstjórnanna sjálfra. Það hefir verið og er enn þá sjálfsögð regla, að bera undir hlutaðeigandi bæjarstj. öll þau frv., sem koma til með að valda bæjunum sérstakra útgjalda. Að gera það ekki er ónærgætni við bæjarfél., sem ekki á að eiga sér stað og engir geta verið þekktir fyrir nema skammsýnir og einráðir stjórnmálamenn.

Að því er snertir brtt. þær, sem fram hafa komið, þá skal ég taka það fram, að ég mun fylgja brtt. hv. þm. V.-Ísf. að því er snertir stjórn skrifstofunnar. Rök þau, sem hv. 1. landsk. var að færa gegn þessu, voru einskisvirði. Það er alls ekki útilokað með brtt. þessari, að ríkisstj. geti haft áhrif á það, hvernig stj. skrifstofunnar yrði skipuð, a. m. k. ekki eins og nú standa sakir, þegar Alþýðusamband Ísl. og ríkisstj. eru eitt.

Ég skal svo að síðustu endurtaka það, að því fer fjarri, að frv. þetta sé borið fram til þess að hafa með höndum að miðla vinnu á milli manna og hafa milligöngu meðal þeirra manna, er vinnu vilja selja, og þeirra, sem vinnu vilja kaupa, atvinnurekenda. Höfuðtilgangur þess er að leggja að velli skrifstofu þá til ráðningar verkamanna, sem Rvíkurbær hefir stofnað, og jafnframt til þess að fá tækifæri til þess að áfella og svívirða mann þann, sem falin hefir verið forstaða hennar. Mann, sem enga aðstöðu hefir til þess að bera hönd fyrir höfuð sér á þessum vettvangi. Svo hrópa þessir háu herrar, að hann hafi dæmt sig sjálfur, og það áður en skrifstofan tók til starfa. Slík framkoma dæmir sig sjálf. Það er ekkert hugsað um annað en að svala sér á andstæðingunum. Það er hrópað um lýðræði, en viðhaft einræði á öllum sviðum. Ekkert látið ógert til þess að hefna sín á andstæðingunum fyrir ímyndaðar sakir.