23.10.1934
Neðri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

26. mál, vinnumiðlun

Ásgeir Ásgeirason [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér að bera fram 4 brtt. á þskj. 165. Meginefni þeirra er, að bæjarfél. fái að hafa oddamann í stj. vinnumiðlunarskrifstofanna. Þá er og ákvæði um að ganga betur en gert er í frv. frá samstarfi skrifstofanna. Auk þess legg ég til, að sveitirnar verði ekki alveg undanskildar, að skrifstofurnar miðli vinnu á milli sveita og kaupstaða eftir því, sem við verður komið. Að sjálfsögðu miðast brtt. við það, að skrifstofur þessar komi að einhverju gagni, að þær miðli vinnu í milli vinnuþiggjenda og atvinnurekenda og að báðir aðilar noti þær.

Ég fæ ekki séð, að það séu nein úrræði í þessu máli, að sá flokkur, sem atvinnurekendur fylla, fái að vaða uppi, eða heldur hitt, að sá flokkur, sem verkamenn fylla, fái að ráða öllu. Höfuðatriðið, sem fyrir mér vakir, er það, að bæjarstj. fái meirihlutaaðstöðu í stjórnum skrifstofanna, og það er vegna þess m. a. að bæjarfél. er ætlað að bera 2/3 af öllum kostnaði við þær. Sú eina vinna, sem bæjarfél. hafa yfir að ráða, er atvinnubótavinnan, og til hennar leggja bæjarfél. líka fram 2/3 hluta. Þá eiga og bæjarfél. að bera allan þungann af þeim íbúum bæjarfél., sem ekki geta framfleytt sér og sínum. Af þessum ástæðum finnst mér ekki annað geta komið til greina en að þau hafi meirihlutaaðstöðu í stj. þeirra stofnana, sem vinnu á að úthluta hjá þeim. Það má vitanlega skylda ríkissjóð til þess að bera allan kostnaðinn af skrifstofunni, og jafnframt láta hann greiða allan kostnaðinn við atvinnubótavinnuna, en þó er ekki víst, að bæjarfél. vildu leita til þessara stofnana. Ég held því, að mesta tryggingin verði, að meiri hl. í bæjarstjórnunum verði tryggður meiri hl. í stj. vinnumiðlunarskrifstofanna.

Hv. 8. landsk. finnst það ósvífið af andstæðingum sínum að vilja ekki nota skrifstofuna vegna þess, að Gunnar Benediktsson sé aðalstarfsmaður hennar. Ég get tekið undir það með honum, mér finnst það eins ósvífið og að vilja ekki vera í byggingarfél., þar sem Héðinn Valdimarsson er formaður. En mér finnst nokkur sanngirni mæla með því, að þegar byggingarfél. hefir verið sett á stofn og Héðinn Valdimarsson er formaður þess, þá sætti menn sig við það, og þegar vinnumiðlunarskrifstofan hefir verið sett á stofn, þá sætti menn sig við þá ráðstöfun í aðaldráttunum. En það er eitt, sem ekki er hægt að sætta sig við, og það er að neita fulltrúum verklýðsfélaganna um að hafa hér íhlutun.

Nú vil ég vona, að mín till. hafi nokkurn byr í d., en þó er ég hræddur um, að hún komi of seint fram. Hún hefði átt að koma fram í bæjarstj. Rvíkur, því þá hefðum við kannske losnað við þetta mál á allan annan hátt en að sjá um heildarsamstarf milli vinnumiðlunarskrifstofa. Nei, lausnin á að koma upp vinnumiðlunarskrifstofum, er að gagni koma, er ekki fólgin í því, að atvinnurekendur geti sagt: Hér ráðum við öllu, og þið komið hvergi nálægt, - eða þá, að verkamannafélögin segi: Hér ætlum við að ráða sem mestu einir, og þið komið sem minnst nálægt.

Ég hefi tekið að mér vissa miðlun í þessu efni, hvort sem hún tekst eða ekki, vegna þess, að forsaga þessa máls er nokkuð óheppileg. Ég undrast yfir því, að bæjarstj. Rvíkur skuli ekki hafa þegar í upphafi viljað leyfa íhlutun verkamannafélaganna hér í bænum. Það hefði ekki þurft annað en að kynna sér sögu slíkra mála í öllum löndum, sem þegar hafa sett á stofn vinnumiðlunarskrifstofur. Ég veit hvergi til þess, að vinnumiðlun sé framkvæmd upp á annað en að báðir aðilar, atvinnurekendur og verkamenn, fái að hafa sína íhlutun gegnum vissa fulltrúa. En hitt er algengt, að bæjarstjórnir á hverjum stað ráði svo úrslitum.

Þá vildi ég segja það við hv. jafnaðarmenn, að þeir hafi ekki hugsað fram í tímann með því að ætla nú á þessu augnabliki að tryggja sér meiri hl. í vinnumiðlun í öllum bæjum á landinu. Að taka svona vald, miðað við augnabliksástand, leiðir venjulega það af sér, þegar meiri hl. breytist á þingi, að sá aðilinn, sem beittur hefir verið ofríki, tekur sér samskonar vald í öfuga átt. Þá gæti ég trúað, að jafnaðarmönnum þætti það fullhart í bæjarfélagi, þar sem þeir hefðu meiri hl., að hlíta því, að tómir íhaldsmenn stjórnuðu vinnumiðlun. Ég býst við, að svona ráðstafanir, sem miðaðar eru við núv. augnabliksástand, geti verið skammgóður vermir, þegar fram í sækir.

Sú aðaltill., sem ég flyt, er eins og hv. 1. landsk. gat um, í samræmi við þróun í okkar nágrannalöndum, og í Danmörku og Svíþjóð er þessi vinnumiðlun aðallega á vegum bæjarfélaganna og héraðanna. En svo er það eitt, sem víðast hvar er í höndum ríkisstjórnanna, og það er miðstöð fyrir allt landið. Ég fyrir mitt leyti er því samþykkur, að það eigi ekki eingöngu að vera á valdi bæjarfél., hvort þau hafi vinnumiðlunarskrifstofu, því þegar þær eru komnar upp á einum eða tveimur stöðum, þá er starfsemi þeirra komin undir því, að til séu samskonar stofnanir í öðrum bæjarfél., og ef eitt bæjarfél. þverskallast við því að vera hér liður í þessu skipulagi, þá er ekki nema réttlátt, að atvmrh. hafi vald til að skipa þeim það. Það varðar þjóðfélagið sannarlega um. En vegna þess, að mér hefir ekki virzt nægilega fastákveðið um þessa centralstarfsemi í frv., þá geri ég að till. minni að fela mætti sérstökum fulltrúa í atvmrn. öll störf, er lúta að þessu samstarfi fyrir allt landið. - Ákvæðið í þessari till. mætti gjarnan vera víðtækara, eins og hv. 1. landsk. benti á, en það mætti laga við 3. umr. Það er rétt, að það skiptir miklu fyrir ríkið, hvernig störf eru unnin í bæjunum, en það gildir yfirleitt um öll störf, sem unnin eru í landinu, en þar fyrir sé ég ekki betur en að við náum einmitt beztum árangri með því að byggja á sjálfstjórn héraðanna undir eftirliti og yfirstjórn atvmrn.