23.10.1934
Neðri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

26. mál, vinnumiðlun

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Út af þessari sjálfsögðu brtt. minni á þskj. 87, sem fer einvörðungu fram á það, að bæjarstj. kaupstaðanna sé í sjálfsvald sett, hvort þau komi á slíkri vinnumiðlunarskrifstofu eða ekki, hélt hv. 1. landsk. langa og lærða ræðu. Hv. þm. vildi sanna, að þessi till. væri alls ekki réttmæt og kæmi í bága við mína fortíð hér á Alþ., þar sem ég hafi lagt annað til í öðrum málum, þar sem leggja átti kostnað á bæjarfél., að þeim fornspurðum. Það kann að vera, að ég hafi tekið þátt í einhverri slíkri atkvgr., en aldrei til slíkra hégómamála sem þessu, sem hér er á ferðinni. Maður veit svo sem alla málavöxtu. Það að ná í alla smákaupstaðina úti um land er aðeins yfirskin, en aðaltilgangurinn er aðeins sá, að eyðileggja þá vinnumiðlunarskrifstofu, sem þegar er sett á stofn hér í Rvík. Það er bezt að segja þetta eins og það er, það er óþarfi fyrir hv. 1. landsk. að vera að hylja sig með neinni grímu hér; hann er of stór maður til þess, að þessi litla hula, sem hann breiðir yfir sig í þessu máli, hylji hann. Tilgangur frv. er einn sá, að eyðileggja ráðningarskrifstofu bæjarstj. Rvíkur. Hitt er aðeins aukaatriði, að taka okkur hina í smákaupstöðunum með. - Hv. 1. landsk. vitnaði í l. um lögreglumenn, þar sem hann taldi víst, að ég mundi hafa verið með því, að ráðh. væri heimilt að leggja þann kostnað, sem af lögreglu leiddi, á herðar bæjarfél., að þeim forspurðum. Einnig tók hv. þm. gagnfræðaskólana sem dæmi. Ég verð að segja það, að þessi hv. þm. virðist halda sér við þá reglu, að segja aldrei nema hálfan sannleikann. Í l. um lögreglumenn er svo fyrir mælt, að ráðh. sé heimilt, að fengnum till. bæjar- og sveitarstj., að fyrirskipa o. s. frv. Að því er þessi l. snertir, þá fylgdi sú yfirlýsing þess dómsmrh., sem þá var, að þessari heimild yrði aldrei beitt, nema till. frá bæjar- og sveitarfél. væru jákvæðar, þannig að þau óskuðu eftir að fá lögreglu. Og get ég, til þess að sýna, að hugur fylgdi máli hjá ráðh., bent til þess, að einmitt í mínu bæjarfél. var bæjarfógetanum neitað um aukna lögreglu, vegna þess, að stj. vissi, að meiri hl. bæjarstj. óskaði ekki eftir því. Þetta dæmi hv. 1. landsk. er því vindhögg út í loftið. - Hvað gagnfræðaskólana snertir, þá var lögboðið að setja á stofn gagnfræðaskóla í nokkrum kaupstöðum, en í sumum kaupstöðum, þegar bæjarstj. óskaði þess. Ég skal ekki fara að mæla þessari löggjöf bót, hún var frá upphafi illa gerð, en það er ekki Sjálfstæðisfl., sem ber ábyrgð á því.

Þá breiddi hv. 1. landsk. sig, eins og venja er meðal sósíalista, út yfir það, hvað gert væri í öðrum löndum í þessu efni. Það er ólíku saman að jafna, stórborgunum í Svíþjóð og Danmörku og krílisbæjunum hér heima á Íslandi.

Þá rökstuddi hv. þm. þessa kröfu sína og stj. um að atvmrh. mætti heimta, að settar væru á stofn vinnumiðlunarskrifstofur á kostnað bæjanna, hvort sem þeir vildu það eða ekki, á þá leið, að þar sem nú á tímum væri leitað til ríkisins um atvinnubótastyrki, þá væri ekki nema eðlilegt, að atvmrh. vildi vita eitthvað um það, sem unnið væri. En í frv. er ekkert um þetta. Vinnumiðlunarskrifstofunum er ekki ætlað að hafa nein áhrif á það, hvaða verk eru unnin í bæjunum, svo þann part ræðu sinnar, sem hv. þm. varði til þessa, hefði hann getað sparað. Atvmrh. hefir aðra aðstöðu til að hafa áhrif á það, hvaða verk séu unnin, því hann á í hvert skipti viðtal við fulltrúa úr þessum bæjarfél., þegar herja á út atvinnubótafé. Þá getur ráðh. komið með sínar aths. um það, hvaða verk skuli leggja í. En frv. um vinnumiðlun er ekki stefnt í þessa átt; þar er ekki orð um það, að skrifstofurnar eigi að hafa áhrif á það, hvaða verk skuli unnin. Þetta sýnir bara það, að hv. l. landsk. er í vandræðum með að rökstyðja sínar kröfur, þar sem hann er að búa til ástæður, sem ekki eiga sér nokkurn stað.

Hv. þm. V.-Ísf. var að enda sína ræðu, þegar ég kom inn í d., og var þá að tala um, að ekki væri nema réttmætt að skylda þau bæjarfél., sem „þverskölluðust“ við þessu, til þess að taka þátt í samstarfi fyrir ríkið til þess að miðla vinnu. En ég verð að segja það, að ég hefi takmarkaða trú á því, hvað mikið vinnumiðlunarskrifstofur á Akureyri, Ísafirði, Siglufirði og Rvík greiddu mikið fyrir atvinnuaukningu, jafnvel innan síns bæjarfél., að ég ekki tala um utan bæjarfélaganna. Þessar skýjaborgir, sem hv. þm. V.-Ísf. var að byggja upp, eru eins og þessir venjulegu loftkastalar slíkra manna, sem hafa sjálfir litla reynslu af daglegum gangi atvinnulífsins, en hafa gaman af því að breiða úr þekkingu sinni og láta lærdómsljós sitt skína. - Ég get ekki kallað það að þverskallast, þó menn, sem sjálfir eru kunnugir þessum hlutum og hafa um langt skeið staðið í baráttu fyrir fátækt bæjarfél., heldur bægi þessum hégóma frá sér, sem ekkert hefir í för með sér annað en aukin útgjöld.

Ég minntist á það áðan, að einstakir atvinnurekendur í kaupstöðunum muni vilja ráða því sjálfir, hverja þeir ráða til sín í vinnu, og fari lítið eftir því, þó einhverjar vinnumiðlunarskrifstofur mælist til þess, að þeir taki Pétur eða Pál. Það er ekki enn búið að eyðileggja svo allt persónulegt samneyti vinnuveitenda og verkamanna í þessu landi, að það verði ekki frekar gagnkvæm kynning manna, sem ræður í þessu efni, heldur en opinber íhlutun. Í verstöðvunum er það svo, að sjómenn og verkamenn úr sveitum koma til sama húsbóndans ár eftir ár, og engin vinnumiðlunarskrifstofa mundi geta breytt því. Þá er ekki annað eftir en þessi bæjarvinna, og ég hefi sagt frá því, hvernig henni er útdeilt, þar sem ég þekki til.

En í raun og veru er þetta allt utan við hið eiginlega efni, því hið eiginlega efni þessa máls er ekkert annað en það, hvort jafnaðarmenn hér á þ. fái komið í verk, með ofríki og undir yfirskini lýðræðis, að eyðileggja þá vinnumiðlunarskrifstofu, sem hér hefir verið sett á stofn í Rvík. Það er það, sem deilan stendur um. Allt annað er aukaatriði. En það eina, sem ég skipti mér af í þessu máli, er það, að ég krefst þess fyrir mitt bæjarfél., að við verðum látnir ráða því sjálfír, hvort við leggjum út í þennan kostnað eða ekki. Geta bæjarfél. er svo takmörkuð til þess, sem nauðsynlegt er að halda uppi, að ekki er gerandi að skylda þau með löggjöf til þess að leggja út í þann kostnað, sem er algerlega óþarfur. Ef þessir hv. þm. hefðu borið fram einhverjar till. um að auka atvinnu, þá hefði það verið góðra gjalda vert, en þetta er miklu fremur til þess að draga úr vinnu heldur en til að örva hana.