23.10.1934
Neðri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

26. mál, vinnumiðlun

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Það hefir raunar ekki margt komið fram við þessa umr., sem ekki kom fram við 1. umr. málsins og minnzt var á þar, bæði af minni hálfu og minna flokksbræðra, og er því ekki ástæða til að fara út í mörg atriði nú. En mér virðist, að í umr. þeirra manna, sem talað hafa gegn frv. eða fyrir meginbreyt. á því í þá átt að fella í burt heimild um afskipti ríkisstj. af stj. skrifstofanna, gæti þess mikla misskilnings, að ef frv. verði samþ. eins og það er, þá sé einhverjum einum aðila gefið einræði um málefni skrifstofanna, en aðrir aðilar jafnframt sviptir réttmætum umráðum um þau. Sérstaklega hefir þetta komið fram á þá leið, að verið væri að ráðast á valdsvið bæjanna á þessu sviði. Þetta er hinn mesti misskilningur, sem kemur annað tveggja af því, að þeir menn, sem bera þetta fram, hafa ekki athugað nægilega, hvað frv. hefir inni að halda, eða að þeir vilja ekki skýra málið rétt. Það er gert ráð fyrir, að bæjarstj. skipi tvo menn í stj. vinnumiðlunarskrifstofunnar, félagsskapur innan bæjarins aðra tvo, og að ríkið velji aðeins einn. M. ö. o. á ríkið að ráða einum fimmta af skrifstofustjórninni, en bæjarstj. og félagsskapur innan bæjarins fjórum fimmtu hlutum. Þetta kalla ég að ganga ekki á vald bæjanna. - Ég sé, að hv. 5. þm. Reykv. hlær, og ég veit, af hverju. Honum er óljúft, að ríkisstj., sem hefir atvmrh. skipaðan af jafnaðarmönnum, hafi íhlutunarvald á þessu sviði. Jafnvíst er hitt, að hann mundi ekkert hafa að þessu fundið, ef í sæti atvmrh. hefði verið maður af hans flokki.

Það, sem hv. 8. landsk. var að tala um, að þetta frv. væri hnefahögg í garð Rvíkur, er vitanlega ekki annað en meginendileysa. Það er ekkert vald verið að taka af Rvíkurbæ með þessu frv., en það er verið að hindra Rvíkurbæ í því að beita ofbeldi, og annað ekki. Bæjarstj. Rvíkur hefir sýnt ofbeldi í þessu máli, og það er farið fram á með frv., að bæjarstj. yfirleitt hafi ekki tækifæri til að beita slíku ofbeldi eftirleiðis.

Hv. 8. landsk. var að tala um, að ráðningarskrifstofan á Siglufirði væri aðallega rekin af verkalýðssamtökunum. Ég skal geta þess, að þessi skrifstofa hefir fengið styrk úr bæjarsjóði, og það er viðurkennt af öllum, að hún hefir haft mikið hlutverk með höndum og að hún hefir komið bænum að miklu gagni. Þar hefir líka bæjarstj. fylgzt með og haft nokkra íhlutun um starfrækslu skrifstofunnar, og hvorki atvinnurekendur né verklýðsfélögin hafa verið henni andstæð. Og með því frv., sem hér liggur fyrir, er einmitt lagt til, að öllum aðilum, sem eitthvað eiga undir starfsemi vinnumiðlunarskrifstofanna, sé tryggður fulltrúi í stj. þeirra, bæjarstj., ríkisstj., fél. atvinnurekenda og verklýðsfél. Engan aðilann á að útiloka. (JakM: Fallega er nú talað). Í Rvík hefir öðrum aðilanum verið bolað út, algerlega að ástæðulausu. Þar hefir öllum aðilum verið bolað út, nema meiri hl. bæjarstj. (PHalld: Hefir ekki hv. þm. „íhlutun“ í bæjarstj. Rvíkur?). Hv. þm. þekkir það, að þó ég eigi sæti í bæjarráði, þá er ekki verið að hlaupa til að samþ. þær till., sem ég ber þar fram. (JakM: Nei, svoleiðis vitleysu er maður ekki að samþ.). Ég þekki þá illa hinn harðsnúna íhaldsmeirihl. í bæjarstj. Rvíkur, ef ég fengi miklu áorkað til hagsbóta fyrir alþýðuna, þegar íhaldinu finnst gengið á forréttindi síns fólks, sem eru stóratvinnurekendurnir í bænum.

Hv. 8. landsk. talaði um, að ekki væri þörf fyrir löggjöf sem þessa. Ég álít, að okkar þjóðfélag sé engin undantekning í þessu efni. Og reynslan hefir sýnt það hvarvetna annarsstaðar, að slík löggjöf er nauðsynleg. Hv. þm. Ak. benti á, að gerðar hefðu verið tilraunir til að starfrækja vinnumiðlunarskrifstofur áður og þær farið út um þúfur, því ekki hefði verið á þeim það skipulag, er skyldi. Þetta sýnir, að þörf er á löggjöf um þessar stofnanir, til þess að þær komi að tilætluðum notum.

Hv. 8. landsk. sagði, að það væri hægt að láta ráðningarskrifstofu Rvíkurbæjar gera allt það, sem 2. gr. frv. fer fram á, að vinnumiðlunarstöðvarnar hefðu með höndum. Já, það væri sennilega hægt. En ef ég þekki núv. ráðamenn Rvíkurbæjar rétt, þá geri ég ráð fyrir, að hún verði ekki látin gera nema lítinn hluta þess.

Út af því, sem hv. 8. landsk. talaði um það, að ég og meiri hl. allshn. hefði ekki viljað bera þetta mál undir bæjarstj. Rvíkur, skal ég geta þess, að ég gerði þá grein fyrir þessu af minni hálfu, að það væri fyrirfram vitað um afstöðu bæjarstj. í þessu máli, að hún skiptist þar eftir flokkum, og því væri það ekki nema formsatriði að leita umsagnar hennar. Aftur leitaði hv. þm. umsagnar bæjarráðs, og hún fór á þá leið að fela forstöðumanni ráðningarskrifstofunnar að semja umsögn um það. Svo þegar hún sendi Alþ. þá umsögn, sendi hún hana ekki sem sína umsögn eða á ábyrgð meiri hl. bæjarráðs, þar sem hann ekki gat sagt um, hvort allt væri rétt, sem í umsögninni stóð! Álít ég það mjög viturlega gert af meiri hl. bæjarráðs.

Mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar hv. 8. landsk. er að tala um einræði í sambandi við þetta mál. Hafi nokkur sýnt einræði í vinnumiðlunarmálunum, þá er það meiri hl. bæjarstj. Rvíkur. Það er hinn mikli misskilningur hjá hv. þm., þegar þeir vilja halda fram, að frv. fari fram á einhverja einræðisstjórn í vinnumiðlunarmálunum.

Hv. þm. var að tala um einhverjar sprengingar, og að það mundi verða „risið upp“. Ég veit ekki, hvernig á að skilja þessi orð hv. þm., hvort hann á við einhverskonar uppreisn eins og hv. 2. þm. Reykv. var að tala um. Ég lít nú fremur á þetta sem óhugsuð hitaorð þessa hv. þm. heldur en að hann sé að undirbúa uppreisn. Ég hefi ekki trú á, að þegar til stórræða kemur, gangi hann framarlega í fylkingu, þó hann geti viðhaft stór orð hér á Alþ. Hann var að tala um, að við mundum e. t. v. þurfa að koma upp bitlingamiðlunarskrifstofu. Það getur verið, að þessi hv. þm. hafi reynslu af því, að það sé betra að láta bæjarstj. ráða vinnuúthlutun heldur en einhverja aðra. A. m. k. hefir hann ekki farið varhluta af þeirri vinnu, sem hún hefir úthlutað, svo ekki sé meira sagt (Hlátur).

Þá skal ég snúa mér að hv. þm. V.-Ísf. Í raun og veru hefi ég svarað hans ræðu að miklu leyti með því, sem ég hefi þegar sagt, því hún byggðist á þeim meginmisskilningi, að stofnað væri til einhvers einræðis með frv. eins og það liggur fyrir. Ég er sammála hv. þm. um það, að ekki sé heppilegt, að atvinnurekendur né nokkur annar einn aðili hafi umráð yfir vinnumiðlunarskrifstofunum. Enda fer frv. fram á, að allir aðilar, sem hagsmuna hafa að gæta á þessu sviði, hafi íhlutun um stj. þeirra. Þetta er hið „typiska“ lýðræði, að þeir, sem eiga fram úr málunum að ráða, séu einmitt fulltrúar þeirra, sem skiptir einhverju, hvernig málin eru leyst. Hv. þm. sagði, að sér fyndist eðlilegt, að ríkissjóður ætti oddamann í stj. skrifstofanna, ef hann borgaði allan kostnaðinn. En finnst þá hv. þm. óeðlilegt, að ríkið eigi einn fulltrúa af fimm í stj. stofnunar, sem það greiðir 1/3 af kostnaðinum við? Ef fara ætti eftir framlögðum kostnaði, ætti ríkið í raun og veru að ráða 1/3 stjórnarinnar. Ég vil minna á það aftur, að frv. fer fram á, að bæirnir fái að ráða 4 af 5 í stj. skrifstofanna, sumpart bæjarstj. og sumpart fél. innan bæjanna, en ríkið aðeins einum.

Hv. þm. sagði, að það væri sama ósvífni af okkur að dæma Gunnar Benediktsson, formann Varðarfélagsins, áður en hann hefði tækifæri til að sýna, hvort honum væri trúandi fyrir starfi sínu, eins og það hefði verið af meiri hl. bæjarstj. að bola verkalýðsfél. frá öllum afskiptum af málinu. Þar er því til að svara, að það er ekki verið að ráðast á persónu Gunnars Benediktssonar í sambandi við þetta mál. Það er verið að ráðast á þá ráðstöfun meiri hl. bæjarstj., að skipa þennan mann formann ráðningarskrifstofunnar, eftir að hafa hindrað öll afskipti verkalýðsfél.; mann sem samtímis er formaður í stjórnmálafél. þess flokks, sem stendur að þessum sama meiri hl. bæjarstj.

Hvernig, sem ég lít á þetta mál, get ég ekki skilið það kapp, sem menn geta lagt á að útiloka áhrif ríkisstj. á þessar stofnanir, sem að nokkru leyti á þó að kosta af ríkissjóði. Hv. þm. V.-Ísf. gat þess til, að nú væri lagt kapp á þetta atriði af hálfu jafnaðarmanna og framsóknarmanna, af því að þessir flokkar færu nú með stj. í landinu. En mér finnst eðlilegast, hverjir sem fara með stj. í landinu, að ríkisstj. ráði einum af fimm í stj. vinnumiðlunarskrifstofanna, með tilliti til þess starfsviðs, sem þeim er markað með 2. gr. frv.

Hv. þm. Vestm. talaði um, að Vestmannaeyjakaupstaður mundi ekki kæra sig um vinnumiðlunarskrifstofu. Það má vel vera, að hv. þm. sé þeirrar skoðunar, að það sé hreinn hégómi fyrir Vestmannaeyinga að hafa þannig stofnun hjá sér. En ég er ekki sannfærður um, að sú skoðun sé rétt. Ég hefi trú á, að vinnumiðlunarskrifstofa gæti komið að notum í Vestmannaeyjum eins og í öðrum kaupstöðum landsins. Og þó þessi hv. þm. þykist fullviss um, að meiri hl. bæjarstj. Vestmannaeyjakaupstaðar vilji ekki leggja til, að stofnuð sé þar vinnumiðlunarskrifstofa, þá tel ég samt sem áður athugandi fyrir atvmrh., hvort ekki ætti að gera það.

Hv. þm. Vestm. tók sér í munn orð hv. 3. þm. Reykv., að ég hefði farið með hálfan sannleika í þessu máli með tilvitnun minni til annara l., sem ég tók af handa hófi til dæmis um það, að Alþ. leggur mjög oft kvaðir á bæjarfél., sem valda þeim kostnaði, án þess að þau séu spurð ráða. Dæmið, sem ég tók, er alveg „typiskt“, og það er byggt á rökvillu hjá hv. þm., að það sýni annað heldur en ég vildi með því sanna. Samkv. l. um lögreglumenn er dómsmrh. heimilt að stofna varalögreglu í bæjum landsins, ef hann telur það nauðsynlegt, að fengnum till. viðkomandi bæjarst. „Að fengnum tillögum“ hefir ætíð verið skilið svo, að ráðh. væri ekki skyldugur að fara eftir þeim till., sem hann á að fá sér til leiðbeiningar. Ég get nefnt eitt dæmi þessu til sönnunar, bæði frá tíð fyrrv. og núv. stj. Samkv. gildandi l. á ráðh. að ákveða meðalmeðlag með óskilgetnum börnum, að fengnum till. frá stjórnum bæjar- og sýslufélaga. Ég get nefnt dæmi um það, að bæði núv. og fyrrv. stj. hefir breytt út af till. bæjarstj. í þessu efni, og það er enginn vafi á, að til þess hefir hún fullkomna heimild. Á sama hátt er dómsmrh. með l. um lögreglumenn gefið algert vald til þess að setja varalögreglu í bæjum landsins, án þess að samþykki meiri hl. bæjarstj. komi til. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi, þó fyrrv. dómsmrh. lýsti því yfir, að hann mundi ekki gera slíkt nema eftir óskum bæjarstj. Sú yfirlýsing er aðeins frá honum persónulega og er á engan hátt bindandi fyrir eftirmenn hans.

Hv. 8. landsk. minntist á í þessu sambandi mál, sem ég hefi haft með að gera fyrir dómstólunum. Í l. um lögreglumenn er sagt „að fengnum tillögum“ og svo er víða í lögum. En í tilskipun um bæjarmálefni Rvíkur frá 1872 er sagt, að lögregluþjóna skuli skipa „eftir uppástungu“ lögreglustjóra. Á þessu er sá reginmunur, að hið síðargreinda skýrði dómarinn á þann hátt, að uppástungurnar væru bindandi um val lögregluþjóna.

Hv. þm. Vestm. taldi mig ekki heldur hafa færi rök fyrir mínum málstað með tilvitnun minni í l. um gagnfræðaskóla. En það er rangt hjá honum. Í 1. gr. l. er fyrirskipað, að í kaupstöðunum, sem þar eru taldir, skuli vera gagnfræðaskólar, og þeir skyldaðir til að taka á sig vissan hluta kostnaðarins við stofnun og rekstur skólanna.

Þetta er einnig greinilegt dæmi um það, að löggjafarvaldið skyldar bæina til þess að bera hluta af kostnaðinum við þær stofnanir, sem það telur heppilegt að setja á laggirnar á hverjum tíma.

Hv. þm. Vestm. talaði um, að erlendar fyrirmyndir hefðu lítið að segja. En það er nú svo um okkur Íslendinga, að ef við hefðum ekki haft yfirleitt erlendar fyrirmyndir og erlenda reynslu okkur til stuðnings í löggjafarmálum og fleiru, þá værum við ábyggilega skemmra á veg komnir heldur en við erum nú. Við höfum á mörgum sviðum orðið að fara þá leið, að kynna okkur reynslu annara þjóða og byggja á henni, og það með góðum árangri. Ég get bent á fjöldamörg dæmi úr ísl. löggjöf, þar sem beinlínis er byggt á rannsóknum erlendra fræðimanna og hefir komið að góðu gagni. - Í sambandi við erlenda löggjöf um þetta efni vil ég benda á eitt dæmi. Það er löggjöf Finna um vinnumiðlun. Þar er fyrirskipuð vinnumiðlun í öllum bæjum landsins, og hefir félagsmálaráðh. þar rétt til að setja á stofn sérstaka vinnumiðlunarskrifstofu fyrir sjómenn í þeim bæjum, sem eru miklir siglingabæir, ef hann álítur þess þörf. Þetta getur hann gert án vilja bæjarstj. Þess vegna er engin ástæða á móti því, að ríkisstj., í þessu tilfelli frekar en svo mörgum öðrum, gefist heimild til þess að ákveða, hvort einhver stofnun er sett á laggirnar eða ekki. Það kemur ekki til, að sjálfsstjórn ísl. bæjarfél. sé í hættu frekar en sjálfsstjórn finnskra bæjarfél., þó að samskonar ákvæði séu sett hér um þetta efni og þar eru.

Það var ekkert í ræðu hv. þm. Ak., sem gefur tilefni til andsvara. Hann taldi sig fylgja brtt. hv. þm. V.-Ísf. og hv. þm. Vestm. Þær brtt. hefi ég minnzt á áður í ræðum mínum, og hefi þar með svarað því atriði.

Ég vil svo aðeins undirstrika það, að í frv. er ekki farið fram á neitt einræði, heldur aðeins réttan hluta allra aðila, sem hér eiga hlut að máli og hagsmuna hafa að gæta við stofnun þessarar vinnumiðlunarskrifstofu.