23.10.1934
Neðri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

26. mál, vinnumiðlun

Guðbrandur Ísberg:

Ég þarf aðeins að leiðrétta eitt atriði, sem hv. 1. landsk. hafði rangt eftir mér. Ég gat þess, að reynt hefði verið áður að setja á stofn vinnumiðlunarskrifstofur, en hann vildi segja, að ég hefði kennt skipulagsleysi um, að þær hefðu lognazt út af. Þetta var skakkt eftir mér haft. Þessar stofnanir lognuðust út af fyrst og fremst fyrir það, að þær voru ekki tímabærar, og ég tel vafasamt, að þær séu tímabærar enn, nema þá á örfáum stöðum. Vinnumiðlunarskrifstofur koma því aðeins að gagni, að vinnuleitendur geti beðið eftir atvinnu, en á því eru oft vandkvæði. Auk þess er það svo, að mönnum er oft óljúft að fara í ókunna staði og er því óljúft að láta aðra ráða sig þangað. Ég vildi aðeins leiðrétta þetta ranghermi hjá hv. 1. landsk., sem annaðhvort hefir sagt þetta óvart eða þá ósjálfrátt vegna þeirrar tilhneigingar jafnaðarmanna að vilja skipuleggja alla hluti. En af því stafa flestir árekstrar milli jafnaðarmanna og sjálfstæðismanna, að sjálfstæðismenn telja ekki nauðsynlegt að skipuleggja alla hluti. Þeir byggja meira á einstaklingsfrelsi og einstaklingsframtaki.