23.10.1934
Neðri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

26. mál, vinnumiðlun

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Hafnf. hefir nú tekið svo greinilega fram mismun þess, að vera formaður ráðningarskrifstofunnar, og hins, að vera formaður byggingarfél. verkamanna, að ég þarf ekki meira um það að tala, en vil aðeins segja nokkur orð út af öðru því, sem hv. þm. G.-K. kom með, og þá sérstaklega minnast á þá hótun, sem hann var með, að sjálfstæðismenn mundu grípa til sömu ráða og þeir gerðu 9. nóv., ef þeir fengju þetta ekki útkljáð eins og þeir vildu. Það, sem þeir gerðu þá, var tilraun til almennrar kauplækkunar í bænum, með því að ráðast á atvinnubótavinnuna með kauplækkun. Ég segi, að ef þeir vilja gera það, þá skuli þeir gera það, af þeir þora. En viðvíkjandi því, sem hv. þm. G.-K. gaf í skyn, að ég talaði um ofbeldi í sambandi við það, ef þetta frv. næði ekki fram að ganga og ef þessi ráðningarskrifstofa héldi áfram, vil ég benda honum á, að ekki þarf annað en að alþýðusamtök hér í bæ samþ. ákvæði um að ráða sig ekki nema gegnum skrifstofu alþýðusamtakanna. - Ekki sízt samanborið við hina óbilgjörnu vinnumiðlun, sem á sér stað hjá sumum atvinnurekendum, eins og t. d. Kveldúlfi, þar sem mennirnir eru ráðnir beinlínis pólitískt. Því að það er alkunnugt, að bæði þm. G.-K. og þm. Snæf. ráða menn úr kjördæmum sínum á skipin, enda þótt fjöldi sjómanna, sem heima eiga hér í bænum, séu atvinnulausir. Þá er og vitanlegt, að sjómenn og verkamenn hjá þessu fél. mega alltaf búast við brottrekstri, ef þeir láta orð falla, sem forstjórunum er ekki að skapi. Það er því óhrekjanlegt, að eitthvert stærsta hagsmunamál verkamanna er að fá slíka vinnumiðlunarskrifstofu, sem hér er um að ræða, en hana fá þeir ekki, og það öryggi sem henni verður samfara fyrir þá, ef sjálfstæðismenn ráða. Annars veit ég ekki, hvers vegna sjálfstæðismenn eru að kvarta, þó að atvmrh. eigi að skipa oddamanninn, þeir fá þar sinn fulltrúa og eiga að geta látið sér það nægja. Hinu verður aldrei með rökum á móti mælt, að þeir eiga hér mestu að ráða, sem vinnuna eiga að þiggja.