23.10.1934
Neðri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

26. mál, vinnumiðlun

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég þarf ekki langt mál til andsvara þeim hv. þm., sem tekið hafa til máls síðan ég talaði og andmælt minni ræðu. Það var dálítið eftirtektarvert, þegar hv. 9. landsk. fór að segja æfisögu sína hér áðan. Hann gerði lítið úr stuðningi sínum við mig 1926. Ég sagði ekki, að ég hefði verið kosinn fyrir hans atbeina, en með hans atbeina var ég kosinn, og vegna þess góða málstaðar, er við börðumst fyrir þá. Um þetta er vitanlega ekki mikið að segja, en það er dálítið gaman að rifja upp endurminningarnar um það, þegar við stóðum hlið við hlið og börðumst fyrir þeim hinum „góða málstaðnum“.

Út af ræðu hv. 2. þm. Reykv. skal ég taka það fram, að við sjálfstæðismenn munum ekki grípa til sama ráðsins sem þessi hv. þm. greip til 9. nóv. forðum, þó að frv. þetta verði að l. Annars má hv. þm. vita, að svo lengi má brýna deigt járn að bíti. Svo langt getur hann og flokksmenn hans gengið í gerðum sínum, að óþolandi verði og vil ég í því sambandi minna hann á, að alþýðuflokksmenn hafa lýst yfir því hér á Alþ., að yrðu ákveðin fyrirmæli lögfest, þá myndu þeir neita að hlýða þeim. Þarna er fordæmið. Hv. þm. má því vera það ljóst, að það eru ekki allir, sem geta þolað böðulsskap hans og hrottaskap. Það eru takmörk fyrir því eins og öðru.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að hann hefði ekki átt við það, að hann myndi stofna til uppþots, ef fyrirmæli þessa frv. yrðu ekki lögfest, heldur grípa til þess ráðs að láta fél. það, sem hann er form. fyrir, eða Alþýðusambandið, meina mönnum að semja um vinnu fyrir milligöngu ráðningarskrifstofu Rvíkurbæjar. Það getur verið, að þetta sé ráð, en ég vil vekja athygli hans á því, að þarna er hann að benda atvinnurekendum á leið, sem þeir geta farið. Ég get nú ímyndað mér, að þessi fljótfærni, ég segi ekki grunnhyggni þm. segi, að þetta skulum við gera, ef við þorum. Ég vil því segja honum, að fari svo, að það falli í mitt hlutskipti að svara þessu, þá mun ég leggja minn hlut að því, að ekki verði umhugsunarlaust að slíku horfið. Það er aldrei úr vegi að hlýða því fornkveðna, að sá skal vægja, sem vitið hefir meira, þó öllu megi vitanlega ofbjóða.

Þá sagði, hv. þm., að fél. það, sem ég starfa við, hefði misnotað aðstöðu sína við mannaráðningar. Þessari aðdróttun mótmæli ég sem algerlega rakalausri og tilefnislausri. Með því er ég þó alls ekki að segja það, að ég telji mig og okkur, sem fél. veitum forstöðu, ekki hafa fulla heimild til, þess að ráða þá verkamenn og sjómenn í vinnu, sem okkur sýnist. Ég veit það mjög vel, að þessi hv. þm. og fleiri fylgifiskar hans hafa reynt af öllum mætti að vekja óvild og andúð gegn okkur meðal verkamanna og sjómanna með því að breiða þessar firrur út, sem í engu hafa við rök að styðjast. Það er nefnilega svo langt frá því, að það hafi nokkurn tíma komið til orða á milli okkar bræðra að velja menn í vinnu eftir pólitískum skoðunum, hvað þá að það hafi verið framkvæmt í verki. Allt bull um slíkt eru því staðlausir stafir. Hitt er annað mál, þó að manni geti dottið í hug, að betur myndi notast vinna þeirra manna, sem ekki eru gagnsýrðir af sömu skoðun og hv. 2. þm. Reykv. og hans nótar. En slíkt hefir bara aldrei verið látið ráða um val manna hjá okkur. Hitt er annað mál, þó að ég t. d. hafi hlynnt að mönnum úr mínu kjördæmi eins og öðrum, sem til mín hafa leitað. Það er máttur kunningsskaparins, sem ræður þar og löngunin til þess að greiða götu einstaklingsins, sem til manns leitar. Það er því annars eðlis en aðdróttanir þær, sem hv. 2. þm. Reykv. var að beina til mín og okkar bræðra. Þetta veit ég að hv. þm. skilja.

Alveg eins eru þau úr lausu lofti gripin ummæli hv. þm. um það, að þeir, sem vinna á vegum Kveldúlfs, þurfi að vera sérstaklega varfærnir í tali um stjórnmál, því að yfir þeim grúfi sá voði, að verða sviptir atvinnunni, ef þeir tali óvingjarnlega um þann stjórnmálaflokk, sem við tilheyrum. Þetta er algerlega sagt út í loftið, án þess að hafa við hin minnstu rök að styðjast. Ekkert slíkt hefir komið fyrir, og segi ég það ekki okkur til lofs, heldur af því að það er satt.