24.10.1934
Neðri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

26. mál, vinnumiðlun

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég verð að segja það, að það er í sjálfu sér ekkert undarlegt, þó að þetta frv. hafi mætt ákveðnum andmælum hér á þinginu. Og þar sem þeim andmælum hefir verið tekið með slíku offorsi, að gefið hefir verið í skyn, að hér verði látið gjalda aflsmunar, þá er það ekkert undarlegt, þó að nokkrar umræður hafi orðið um þetta mál. Ég verð að segja, að það er ekkert undarlegt, þó að ákveðin andmæli komi fram, þegar svo freklega er ráðizt inn á afmarkað svið bæjarstjórna og hreppsnefnda, sem gert er með þessu frv. Það hefir verið bent á það, að einasta orsökin fyrir því, að þetta frv. er fram komið, sé sú, að ágreiningur hafi orðið í bæjarstj. Rvíkur út af einu atriði. Ég vil vekja athygli á því, til hvers það gæti leitt í löggjöfinni, ef í hvert skipti, sem ágreiningur kemur upp í bæjarstj. eða hreppstj., að það væri tekið sem grundvöllur undir heildarlöggjöf. Þetta mundi leiða til þeirra öfga í löggjöfinni, sem ekki væri hægt að sjá út fyrir. Ég vil benda á það, hvaða átt það nær og hvaða vit er í því, að taka árekstur, sem kynni að verða í bæjarstj. Rvíkur, því eftir því, sem ég veit bezt, hefir þessi árekstur ekki orðið ennþá, að taka þennan væntanlega árekstur og gera hann að ástæðu fyrir því, að stofna ekki færri en 8 skrifstofur í landinu og fyrirskipa bæjarfél. og ríkinu að leggja fram fé. Ég hélt nú, að ríkissjóður hefði annað að gera við þá skildinga, sem hann pressar út hjá almenningi. Það horfir til vandræða að finna gjaldstofna til þess að standast nauðsynleg útgjöld og halda uppi verklegum framkvæmdum. Það virðist svo fjarlægt, að það geti tæplega komið til mála að nota þetta tilefni, sem hér hefir verið minnzt á, til þess að afgreiða þessa löggjöf, sem hér um ræðir. Það er kannske búið að binda þetta mál svo, að bjargföst sannfæring fái ekki notið sín. En það eru þá álíka öfgar að selja sig þannig, eins og að nota þetta tilefni, sem hér hefir verið nefnt, til þess að afgreiða frv. eins og þetta. Ég get ekki séð, að annað geti legið til grundvallar, ef þetta mál verður samþ., en fyrirfram ákveðin samtök, svo að sannfæring manna fái ekki notið sín. Það hefir verið talað um það í sambandi við þetta frv., að það væri eðlilegt, að atvmrh. hefði hönd í bagga með þessum skrifstofum, þar sem þeim væri ætlað að úthluta atvinnubótafé, sem ríkið leggur fram. Ég vil benda á, að löggjöfin hefir alveg gengið frá því atriði. Það skilyrði hefir verið sett fyrir þessari fjárveitingu í fjárl., að bæjarfél. leggi fram tvöfalt á móti. Ennfremur hefir það skilyrði verið sett, að unnið verði í ríkisins þarfir fyrir 1/3 af þessu atvinnubótafé. Og nú í síðustu fjárl. hefir nýtt skilyrði verið sett og það er, að ekki verði að öðru leyti dregið úr framkvæmdum í kaupstöðunum, heldur komi þetta framlag ríkisins sem viðbótarfé. Mér finnst því, eins og ég hefi sagt áður, að það geti ekki komið til greina að setja þessi l. Og ef þetta mál verður samþ., þá verð ég að líta svo á, að það byggist á fyrirfram gerðum samningum eins og önnur mál. Þessar skrifstofur fela ekki í sér neina aukna atvinnu í landinu, nema ef telja skyldi þau störf, sem þeir menn fá, er vinna á skrifstofunum. En ef svo er um hnútana búið, að ekki er undankomu auðið, þá tel ég, að sú leið sé réttari, sem brtt. hv. þm. V.-Ísf. bendir á. Í sambandi við þá skoðun mína, að till. hv. þm. V.-Ísf. fari í rétta átt, þá hefði átt að fylgja það ákvæði, að bæjarfél. kostuðu þessar skrifstofur að öllu leyti, og ég ætla, að frv. sé komið fram af þessari ástæðu eftir því, sem hv. frsm. meiri hl., 1. landsk. þm., sagði í gær. Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um frv., en vildi láta mína skoðun koma fram um frv., og ég mun greiða atkv. gegn því.