24.10.1934
Neðri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

26. mál, vinnumiðlun

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Árn. vildi álíta, að því væri ekki með réttu fram haldið af mér, að sá þingmeirihluti, sem nú situr, sé ranglega fenginn, vegna þess, að Alþ. samþ. breyt. á stjórnarskránni og ný kosningal. Það er rétt, að Alþ. gerði þetta, en hitt er honum kunnugt eins og öðrum hv. þdm., að við sjálfstæðismenn bárum fram miklu fyllri kröfur, en þær fengust ekki fram.

Hann tók fram, að Framsóknarfl. og Alþýðufl. hefðu h. u. b. sama atkvæðamagn og Sjálfstæðisfl., og auk þess er fjórði flokkurinn í þinginu, Bændafl., með 3-4 þús. atkv. Þingfl. sjálfstæðismanna og Bændaflokksmanna hafa því fleiri atkv. bak við sig en þeir flokkar, sem styðja stj. En um kosningar til bæjarstj. Rvíkur er það að segja, að þær fara fram á réttum lýðræðisgrundvelli, en ekki á sama hátt og kosningar til Alþ., sem eru ranglátari. Hitt er vitanlegt, að með engri löggjöf um kosningafyrirkomulag er hægt að girða fyrir það, að einhver atkvæði ónýtist.

Hv. 2. þm. Reykv. sagðist viðurkenna, að hafa viðhaft hér á Alþ. þau orð, að ef verklýðsfél. fyndist gengið á rétt sinn, og ákveðin l. yrðu samþ., þá myndu þau neita að hlýða l. Hann hefir þá lýst því yfir, að hann sé reiðubúinn að hefja uppreisn í þjóðfélaginu. Hann reyndi að réttlæta þetta á þann hátt, að það hefði átt að kippa grundvellinum undan verklýðsfél., - þar á hann við frv. um gerðardóm í vinnudeilum -, og brjóta rétt verkamanna, sem viðurkenndur væri. Hann ætti að taka sér til fyrirmyndar þann stóra mann, foringja sósíalistanna í Danmörku, sem á sér marga aðdáendur hér á landi, í einu eigin landi Danmörku, Norðurlöndum og víðar. Hann hefir sjálfur borið fram frv. á þingi Dana um lögþvingaðan gerðardóm í vinnudeilum. Þetta gerði forsrh. Dana, Stauning, fyrir ári síðan, vegna þess að honum þótti mikið við liggja og þörf fyrir þjóðfélagið að grípa inn í. Minnir mig að hann hafi á einum degi knúið þessi l. í gegn á sama tíma og hv. 2. þm. Reykv. segir þetta hér. Dómurinn var uppkveðinn, en það voru nokkrir verkamenn, sem ekki vildu hlíta honum og þótti gengið á rétt sinn. Það var í Esbjerg. En hvað gerir Stauning þá? Hann sendir ríkislögreglu til Esbjerg til að berja niður óhlýðna verkamenn með kylfum. Mig minnir, að bæjarstjóri og bæjarstj. í Esbjerg færu fram á við ráðh., að ríkislögreglan yrði kölluð þaðan í burt. En Stauning svaraði og sagði, að hún yrði kyrr þangað til allur mótþrói væri kveðinn niður. Þetta fordæmi finnst mér að hv. 2. þm. Reykv. ætti að muna og gæti komið sér vel fyrir hann að breyta eftir. En hann lýsir því hér yfir, að hann muni brjóta þau l. sem Alþ. setur. Mér sýnist þess vegna, að sú afsökun, sem hv. þm. færir fram, sé mjög léttvæg. Og ég vænti þess, að hv. þingheimur - líka jafnaðarmenn - hafi öðlazt skilning á því, að skoðanabræður þeirra í nágrannalöndunum líta öðruvísi á málið. - Ég ætla svo að víkja aftur að þeim ummælum hv. þm. um gerðardóminn, þegar hann var til umræðu, að það ætti að kippa grundvellinum undan viðurkenndum rétti verkalýðsfélaganna. En hvað á að gera með þessu frv., sem hér liggur fyrir? Það á að kippa grundvellinum undan lögvernduðum rétti - undan stjórnarskrárvernduðum rétti - bæjarfél. til þess að ráða sínum málum. Þetta sýndi m. a. hv. þm. V.-Ísf. fram á, hvert geti leitt. Og ég álít ákaflega óhyggilegt að leggja út á þessa braut. Ég álít rétt það, sem hv. þm. V.-Ísf. segir, að eðlileg afleiðing af þessari löggjöf er það, að þegar andstæðingar jafnaðarmanna fá yfirráðin yfir atvinnumálunum, má það þykja líklegt, að þeir taki tækifærið til þess að skipa nýjan formann fyrir slíkri vinnumiðlunarskrifstofu. Og verið getur, að jafnaðarmenn verði þá að sæta því hlutskipti að vera í meiri hl. í bæjarstj. í svo og svo mörgum bæjum og kaupstöðum landsins, en þola það, að andstæðingar þeirra hefðu meirihlutavald í þessu máli. Ég hygg, að þetta sé óhyggilegt, frá hvaða sjónarmiði sem þetta er skoðað. Mér skilst það vera áberandi brot á þeirri löggjöf, sem hefir hlotið viðurkenningu undanfarin þing og virðist hafa sterka stoð í stjórnarskrá landsins, eins og hv. þm. V.-Sk. mjög greinilega sýndi fram á í sinni ýtarlegu ræðu í gær.

Út af þeim persónulegu hnútum, sem hv. 2. þm. Reykv. sendi mér, þar sem hann tilfærði, að á skipum Kveldúlfs hefðu samkv. skipshafnarskrám verið lögskráðir 72 sjómenn búsettir utan Rvíkur, - út af því vil ég segja það, að út af fyrir sig er það hvorki undarlegt né athugunarefni, þó að á skipum Kveldúlfs séu af 300-350 mönnum 72 búsettir utan Rvíkur. Ég hygg, að það sé nokkuð fyrir neðan meðallag af því, sem tíðkast á togaraflotanum í heild. Hv. þm. sagði, að við nánari athugun á nöfnum þessara manna sæist, að allmargir þeirra væru úr kjördæmi hv. þm. Snæf. og úr mínu kjördæmi. Ég svaraði þessu í gær og þarf ekki að endurtaka það. Mér er það kannske ennþá eiginlegra en þessum hv. þm. að gera öðrum greiða, sem ég eitthvað þekki, og af því stafar það sjálfsagt, að einhverjir eru úr mínu kjördæmi. En mér vitanlega eru þeir ekki fleiri en 8-10. Getur verið, að þeir séu eitthvað fleiri, en ekki mér vitanlega né fyrir mitt tilstilli.

Þá ítrekaði þessi hv. þm. þá aðdróttun til mín, að menn hafi verið reknir úr þjónustu þessa félags vegna stjórnmálaskoðana. Færði hann fjögur dæmi og nefndi nöfnin: Þorgils Bjarnason, Ólaf Kristjánsson, Gunnar Kristófersson. Þessa taldi hann rekna af skipum vegna áðurnefndrar ástæðu, að þeir hafi á einhvern hátt verið óþægilegir forstjórum Kveldúlfs, sem ekki kæmi þó fram í lélegum vinnubrögðum. Það þýða nú ekki langar hrókaræður um svona hluti í Alþ. En um þetta segi ég það, og get - ef mönnum þykir meira virði - lagt við drengskap minn, að ég hefi aldrei fyrr en af vörum þessa hv. þm. heyrt slíkt um nokkurn þessara manna. En um Svein Halldórsson í Bolungavík, sem hv. þm. einnig minntist á og taldi hafa verið rekinn frá Hesteyri, vegna þess að hann hefði ekki viljað fylgja þm. N.-Ísf. við síðustu kosningar, vil ég segja það, að sjálfur fór ég þess á leit við þennan mann í fyrra, hvort hann vildi fyrir mín orð leggja lið sitt til þeirrar kosningar. Hann tók mjög vel í það og gerði það. Og ég veit ekki betur en að hann sé sami góði sjálfstæðismaðurinn í dag eins og hann var í fyrra. Hitt er annað mál, að það er ekki á mínu færi að veita öllum atvinnu, sem eru góðir sjálfstæðismenn. Og að þessi maður varð að víkja nú frá starfi, var af því, að ég hafði sjálfur í fyrra lofað manni atvinnu við síldarbræðslustöðina á Hesteyri. En bræður mínir, sem ekki vissu um mitt loforð, bundu þá atvinnu fastmælum við annan mann, og varð það loforð að ganga fyrir, því að það var gert á undan mínu. Mér ósjálfrátt varð úr þessu brigðmæli af minni hálfu til þessa manns. Nú ætlaði ég að bæta úr þessu í ár, því að ég átti von á, að Kveldúlfur fengi bræðslustöðina á Sólbakka. Það gat ekki orðið, sumpart fyrir andúð hv. formanns Alþýðuflokksins, sem með sínum áhrifum og atkvæði lagðist á sveif með atvinnuleysinu í landinu og varð m. a. til þess að svipta þennan mann atvinnu.

Ég hefi þá upplýst þetta að fullu, engu leynt og ekkert undan fellt. Og ég bið menn að taka eftir, að þegar hv. 2. þm. Reykv. hefir haft svæsin ummæli um mína harðstjórn og pólitískt ofríki í málefnum Kveldúlfs og verkalýðsins eftir 25 ára starfsemi, þegar fél. hefir áreiðanlega greitt í vinnulaun til verkalýðsins 40 til 50 millj. króna, þá skuli hann eftir gaumgæfilega lúsaleit, með aðstoð sér óprúttnari manna ekki geta tiltínt nema fjögur dæmi, sem öll eru ósönn. Ég hefi nú ekki viðhaft neina rannsókn um það, hvað um hann sjálfan megi segja, hann hefir litla atvinnu veitt. En ég þori að vísa því til hans og hvers annars, sem vera skal, hvort hann sé ekki sekari um að hafa beitt stjórnmálaofríki við sína menn heldur en ég við mína. Væri þykkjulaust af minni hendi, þótt upplýsingar af því tægi kæmu í dagsins ljós; og ef hann heldur uppteknum hætti, er ekki fjarri mér að rannsaka hans feril, og mun það þá lagt fram og sannað, að þar finnast mörg dæmi, sem atvinnurekendur eiga að varast, en ekki fylgja. Í því efni mun þessi hv. þm. verða fundinn sekur, en ekki ég.