25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

26. mál, vinnumiðlun

Sigurður Kristjánsson:

Það var bara til að gera stutta leiðréttingu, að ég kvaddi mér hljóðs. Það er nú eins og oft vill verða, að það þarf að leiðrétta það, sem hv. 2. þm. Reykv. hefir sagt, en ég get ekki komizt yfir að leiðrétta allt, sem hann hefir farið hér rangt með.

Hv. þm. gerði þau firn að draga inn í umr. nöfn manna, sem eru fjarstaddir, og það gersamlega að óþörfu. Hann nefndi mann, Svein Halldórsson, sem hann sagði, að hefði verið rekinn úr vinnu af sjálfstæðismönnum, af því að hann hefði verið í andstöðu við þá í pólitík. Hann sagði ennfremur, að þessi maður hefði verið tekinn fyrir og hefði átt að pína hann til að breyta gegn skoðun sinni og sannfæringu og beita sér fyrir kosningu Jóns Auðuns í Norður-Ísafjarðarsýslu.

Nú er það svo um þennan mann, að ég hefi ekki lakari heimildir en hans eigin orð um það, að hann sé sjálfstæðismaður, og 2 dögum fyrir kosningar lét hann það í ljós á almannafæri að hann mundi beita sér fyrir kosningu Jóns Auðuns. Það þykir nú hvort sem er engin óvirðing, þó að menn segi opinberlega frá því, hvaða skoðun þykir hafa í landsmálum, og að þeir muni styðja að kosningu þess manns, sem þeir álíta, að heppilegast sé, að komi á þing.

Hv. þm. segir, að sér sé kunnugt um, að þessi maður sé ekki fylgismaður sjálfstæðismanna nú. Ef það er, þá er það af því, að hann hefir verið tældur, því að hann var opinber fylgismaður sjálfstæðismanna, og hann hefir í minni áheyrn talið sig fylgjandi sjálfstæðisstefnunni og hefir verið skrifstofustjóri fyrir sjálfstæðismenn við kosningar fyrir stuttu.

Nú dettur mér ekki í hug að leggja dóm á það, hvort hann sé orðinn sósíalisti, en þykir það þó ákaflega ólíklegt, og veit, að hann hefir opinberlega sagt það gagnstæða. En í þessari fullyrðingu hv. 2. þm. Reykv. getur þá ekki falizt annað en það, að hann vilji halda því fram, að þessi maður sé pólitískur flugumaður. Því vil ég ekki trúa að óreyndu, að þessi maður, sem hefir verið skrifstofustjóri fyrir sjálfstæðismenn, sé flugumaður frá sósíalistum, en það er þó það, sem hv. þm. gefur beint í skyn með þessu.

Út af því, sem ég gat um áðan, að hv. 2. þm. Reykv. hefði sagt, að Sigurjón Jónsson, bankastjóri á Ísafirði, hefði ætlað að knýja þennan mann - beinlínis neyða hann - til að fylgja frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í Norður-Ísafjarðarsýslu, vil ég segja það eitt, að það eru tilhæfulaus ósannindi. Mér er líka kunnugt um það, að einmitt þessi maður, þegar hann vissi, að hann gat ekki fengið þessa stöðu á Hesteyri, sem hann vonaðist eftir, fór til Sigurjóns Jónssonar til að biðja hann að ná sambandi fyrir sig við forstjóra Kveldúlfs til þess að vita, hvort hann gæti ekki veitt sér vinnu. Hvað þeim fór á milli, veit ég ekki, en Sigurjón tók þessu vel og hefir eflaust gert það, enda kemur það heim við það, sem hv. þm. G.-K. segir, að hann ætlaði honum atvinnu á Sólbakka og hana hefði hann fengið, ef það hefði ekki brugðizt, að verksmiðjan fengist til starfrækslu fyrir Kveldúlf.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði mikið um það, hver hætta þjóðinni stafaði af þessum uppreisnar- og byltingahug sjálfstæðismanna. Hann sagði, að þeir hefðu í hótunum um að grípa til vopna. Ég veit ekki til, að nokkrum manni í þessu landi detti í hug að nota stjórnmálaaðstöðu sína til að brjótast til valda með ofbeldi, nema einum einasta manni, og það er hv. 2. þm. Reykv. A. m. k. vita það allir Rvíkingar, sem eru komnir til vits og ára, að lýðfrelsi þessa lands stafar engin hætta af neinum nema þessum eina manni, hv. 2. þm. Reykv. Hann hefir ekki heldur farið dult með þennan ásetning sinn, því að hann hefir gripið til vopna. Hann segir, að sjálfstæðismenn ætli sér að grípa til vopna, af því að þeir hafi ekki meiri hl. kjósenda. Nú hefir reynslan sýnt, að hans flokkur hefir getað sargað saman 1/5-1/4 kjósenda landsins til að styðja sína illræmdu stefnu. Nú mun hann hafa reiknað það út, að hann yrði kominn á efra aldur áður en hann yrði búinn að breyta þessum 1/5 hluta í meiri hl. þjóðarinnar. Þess vegna mun hann skilja það, jafnvitiborinn maður, að engin leið er að bíða eftir því, að hægt verði að ná völdum á þann hátt. Hann hefir sýnt virðingarverða viðleitni í að beygja undir sig annan flokk og láta hann renna sem stoð undir sig í valdabaráttu hans, sem sé Framsóknarflokkinn. Ég geri ráð fyrir, að þótt svo sé, að menn, sem eru komnir úr fámenni utan af landi, verði hvumsa, þegar þessi maður traðkar hér meðal þeirra, eins og hann nú gerir, þá fari brátt svo, að þeir kjósi sér undan valdi hans og yfirgangi. Hann mun skilja þetta og sjá, að það endist honum skammt til valdatöku. Hefir hann því reynt að efla hér árásarflokk og hefir hlaupið kófsveittur á línklæðum einum í fylkingarbroddi nokkurra vitsmunaöreiga á heræfingar hér í Rvík, til þess að hann þurfi ekki kjósendur landsins til að styðja sig til valda. Hann hefir gert tilraun með það, hve margir mundu fylgja honum, ef hann kallaði þá undir vopn. Það gerði hann 9. nóv. Ég vil segja honum, að hann getur sparað sér að tala um uppreisnaráform sjálfstæðismanna. Þeir eru sannfærðir um, að þeir þurfa ekki nema fólkið til að styðja sig til valda. Þeir hafa biðlund, af því að þeir vita, að þeirra stefna sigrar. En þessi hv. þm. veit, að hann skortir ekki aðeins lýðfylgi, heldur skortir hann líka það, sem þarf til að öðlast lýðfylgi. Hann hefir að sönnu ýmsa hæfileika, sem til þess þarf að vera ræningjaforingi svo sem áræði og hörku, en hann skortir allt það, sem skapar traust og velvild fólksins, en það væntum við sjálfstæðismenn, að verði okkur drýgst.

Ég held, að jafnframt því, sem hann ætti nú að átta sig á því, að hann hefir ekki skilyrði til að komast til valda á lýðræðislegan hátt, þá ætti hann líka að skilja, að það er til nokkuð, sem ekki er uppreisn, en heitir þegjandi mótspyrna gegn ofbeldi. Verið getur, að fólkið finni upp á að veita þessa mótspyrnu, og jafnvel, að það fólk, sem hann hefir kvatt sér til fylgis, fyndi nú, að það hefir orðið það óheppið í foringjavalinu, að það taki það ráð að láta hann ekki öðru sinni fara húsavillt.