10.12.1934
Neðri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2832 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

Afgreiðsla þingmála

Jóhann Jósefsson:

Ég hefi ásamt hv. 2. og 3. landsk. flutt hér frv. um hlutabréfakaup í Útvegsbanka Íslands h/f. Þetta frv. fer í þá átt, að rétta hlut þeirra manna, sem áttu sparisjóðsinnstæðu í Íslandsbanka, þegar hann hætti störfum. En sem kunnugt er, var það fé látið ganga sem hlutafé inn í Útvegsbankann. Í frv. þessu eru gerðar ráðstafanir, hagkvæmar og lítt þungbærar ríkissjóði, til þess að leysa inn þessi bréf á löngum tíma, og þar með gera féð að verðmætri eign fyrir eigendurna, en verðmæt eign getur það ekki talizt í núverandi formi. Ég skal geta þess, að stór hluti þessa fjár er kominn úr mínu kjördæmi, og mest frá fólki, sem a. m. k. á þessum erfiðu tímum má á engan hátt vera án þessa fjár eða láta liggja án þess að hafa þess nokkur not. — Frv. var hér til 1. umr. og vísað til hv. fjhn. þ. 19. f. m., ef ég man rétt. Þar sem nú svo langt er síðan þetta skeði, og mér ekki kunnugt, að n. hafi nokkuð látið frá sér heyra um málið, þá vildi ég beina þeirri ósk til hæstv. forseta, að hann hlutist til um, að n. segi álit sitt um málið hið allra fyrsta.