25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

26. mál, vinnumiðlun

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Út af orðum hv. þm. G.-K. um aðgerðir dönsku stj. og Staunings í þessum kaupdeilumálum vil ég segja þetta:

Það er rétt, sem hann nú sagði, að í sláturhúsadeilunni í Danmörku voru sett með skyndingu l. um gerðardóm í þeirri einu deilu, sem þar var um að ræða, þ. e. a. s. deilunni milli verkamannanna í sláturhúsunum og eigenda þeirra, en þau voru eingöngu sett um þetta eina tilfelli, og var þetta í fullkomnu samkomulagi og beinlínis eftir ósk „Samvirkende Faarevirkebolig“ í Danmörku. En í gær hélt hv. þm. því fram, að þessi l. væru svipuð eða a. m. k. fullkomlega sambærileg við það frv. um lögþvingaðan gerðardóm, sem íhaldsmenn fluttu hér á árunum. En það nær engri átt, af þeirri ástæðu, að hér var eingöngu miðað við þessa einu vinnudeilu, og voru l. sett í fullkomnu samkomulagi við verkamannafélagsskap Dana. Hinsvegar hélt hv. þm. því fram, að þessi l. hefðu verið almenn og sérstaklega beitt í kaupdeilunni í Esbjerg, en það veit hv. þm., að ekki er rétt, þar sem þar var aðeins um ólöglegt verkfall að ræða. Mér þótti rétt að taka þetta fram, svo að það gæti ekki valdið misskilningi í sambandi við orð hv. þm. Ég hefi athugað þetta síðan umr. fóru fram í gær og veit, að þetta er fullkomlega rétt.

En í sambandi við það atriði í ræðu hans í gær, að af þeim, sem skráðir eru á skip þessa félags, séu 72 utanbæjarmenn, upplýsti hann að á togurum þessa félags ynnu að mér skildist 350 menn á vertíð. Mér þætti æskilegt, að hann upplýsti þetta nánar, því að mér þykir ótrúlegt, að 350 menn geti verið þar, jafnvel á vertíðinni, sem er ekki nema 2½ mán.

Annars sé ég ekki ástæðu til að taka fleira fram í sambandi við þessar umr., sem hér fóru fram í gær. Ég mun ekki heldur fara að ræða almennt um þetta frv., sem virðist aðallega mæta mótspyrnu sjálfstæðismanna fyrir það, að atvmrh. skuli skipa oddamann á vinnumiðlunarskrifstofuna. Eins og ég hef áður sagt, þá finnst mér þetta eðlilegt, þar sem ríkið á mikilla hagsmuna að gæta í því, að þetta starf sé vel af hendi leyst, því að ríkið á að leggja fram verulega fjárhæð í þessu skyni. Mótstaða sjálfstæðismanna gegn þessu getur varla stafað af öðru en því, að sæti atvmrh. verði þannig skipað, að þeir hafi ekki mikil ítök í ráðningu þessa manns. Ég vildi óska, að þessi spásögn sjálfstæðismanna, hver skipaði þetta sæti, mætti rætast. Hinu er þá ekki að neita, að þeir hafa litla trú á eigin málstað, sem lýsir sér í þessum harðvítugu árásum á þetta ákveðna mál.