25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

26. mál, vinnumiðlun

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það er sú heilaga einfeldni, sem lýsir sér í þessum síðustu orðum hæstv. atvmrh. Hann gerir sér auðsjáanlega ekki ljóst, af hverju sjálfstæðismenn fyrst og fremst hafa beitt sér á móti þessu frv. Það gengur líka gegnum allar ræður stjórnarliða um þetta mál misskilningur og skilningsleysi á það, um hvað er deilt. Ég veit, að menn kannast við, að það hafa verið aðalrök stjórnarliða í þessu máli, að aðalverkefni þessarar skrifstofu væri að úthluta atvinnubótavinnu. En þetta er reginmisskilningur. Úthlutun atvinnubótavinnunnar er, eins og ýmsir hv. þm. hafa sýnt fram á, ekkert sérlegt vandaverk, og því ekki nauðsyn að koma upp heilli stofnun vegna þess starfs. Vísa ég þar fyrst og fremst til ummæla hv. þm. Hafnf., sem sagði, að úthlutun atvinnubótavinnunnar hefði gengið þar vel, svo að þar væri yfir engu að kvarta. Ég get sagt sama um úthlutun atvinnubótavinnunnar í Rvík, því að yfirleitt hefir enginn flokkaágreiningur komizt þar að. Það hefir ýmislegt verið um það sagt, en engum flokki hefir þar verið sérstaklega um að kenna, því að tveir menn settir af hvorum flokki hafa annazt úthlutun þessarar vinnu.

Nei, hér er um annað og meira að ræða en úthlutun þessarar vinnu. Ég þori að fullyrða, að ef aðeins væri um þessa vinnuúthlutun að ræða, þá kæmi þessum mönnum ekki til hugar að vilja koma upp þessari skrifstofu. Menn geta sagt sér það sjálfir, hvort þessi skrifstofa gerir meira gagn, ef hún er rekin með aðstoð og í samræmi við vilja meiri hl. atvinnurekenda, eða ef henni er þvingað upp á bæjarfél. gegn vilja atvinnurekenda. Ég er sannfærður um, að það verður ekki hálft gagn að skrifstofunni með því fyrirkomulagi, sem felst í frv., samanborið við þá framkvæmd, sem bæjarstj. ætlast til, að höfð sé á málinu.

Það hefir verið talað um það ofbeldi, sem meiri hl. bæjarstj. hér í Rvík hafi beitt Alþýðuflokkinn með því að leita ekki till. hjá framkvæmdaráði verkalýðsfél. um stofnun og starfrækslu atvinnuskrifstofunnar. Um þetta er það að segja, að þessi skrifstofa er nú aðeins bráðabirgðafyrirbrigði, sem engin ákvörðun hefir verið tekin um til frambúðar, og forstöðumaður hennar er ekki ráðinn nema til nýárs. Kostnaður af skrifstofunni hefir ekki verið tekinn á fjárhagsáætlun, því engin áætlun hefir verið gerð um hann. Það er vitanlega meiningin, þegar fjárhagsáætlun bæjarins fyrir næsta ár verður samin, að ganga nánar frá þessari stofnun, og þarf þá vitanlega að taka upp á áætlun væntanlegan kostnað af skrifstofunni, sem eins og stendur er aðeins bráðabirgðastofnun í höndum bæjarráðs og svarar til þeirrar stj., sem um ræðir í brtt. hv. þm. V.-Ísf við 3. gr. frv., þar sem meiri hl. bæjarstj. ræður oddamanninum í n., en hinir tveir eiga að vera skipaðir af Alþýðusambandinu og fél. ísl. atvinnurekenda. - Alþýðuflokkurinn gerði tilkall til þess að fá að ráða vali forstöðumanns atvinnuskrifstofunnar, samanber 4. gr. frv., en því var ekki sinnt. Því var ekki sinnt af því að meiri hl. réð. Ég efast ekki um, að hæstv. atvmrh. og fylgismenn hans ætlast til að meiri hl. stj. vinnumiðlunarskrifstofunnar ráði því, hver verður forstöðumaður hennar. Því er það ekki meira ofbeldi, þó að meiri hl. bæjarstj. ráði vali forstöðumanns bráðabirgðaskrifstofu, heldur en kemur fram hjá hæstv. atvmrh. í tilraun hans til að þvinga upp á Rvík vinnumiðlunarskrifstofu, sem er í andstöðu við bæjarstj. Það er meira ofbeldi hjá þessum hæstv. ráðh. að ætla að taka ráðin úr höndum meiri hl. og fá þau minni hl. í bæjarstj. Það er ofbeldi, sem er einsdæmi í meðferð þessara mála, og þekkist ekki, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefir haft ráðin.

Ég hefi orðið var við það í umr., að hv. þdm. er sumum ekki ljóst, hvert verksvið vinnumiðlunarskrifstofunnar verður. Mér hefir skilizt á ræðum þeirra, að skrifstofa þessi eigi að miðla allri vinnu, ekki einasta atvinnubótavinnu, heldur líka allri bæjarvinnu, og jafnvel líka þeirri vinnu, sem atvinnurekendur veita, en þetta er hin mesta fjarstæða. Sem betur fer er atvinnubótavinnan ekki nema nokkur hluti af þeirri vinnu, sem til er í bænum. Þess vegna væri æskilegt, að önnur vinna heyrði líka undir vinnumiðlunarskrifstofu, en það eru engar líkur til þess að skrifstofa sú sem þetta frv. fjallar um, hafi áhrif á hana. Aftur á móti eru miklar líkur til, að skrifstofa sú, sem meiri hl. bæjarstj. ræður yfir, hafi víðtæk áhrif á alla vinnuúthlutun og mundi því gera langt um meira gagn en hin, og er það vitanlega aðalatriðið.