25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

26. mál, vinnumiðlun

Finnur Jónsson:

Ég hafði ekki ætlað mér að lengja umr. um þetta mál, sem oft hafa farið út fyrir það efni, sem hér skiptir máli, en það er, hvort frv. það, er fyrir liggur, sé til gagns eða ekki. Ég tel frv. spor í rétta átt til þess að reyna að auka möguleikana fyrir því, að sú vinna, sem til er í landinu, skiptist réttlátlega milli þeirra, sem eftir henni sækja. Ég sé raunar ekki ástæðu til að fara út í einstök atriði, sem komið hafa fram í umr., heldur er ástæðan sú, að ég tel mér skylt að svara hv. 6. þm. Reykv. út af vissu atriði, sem hann dró inn í umr. áðan. Það var víst í gær, en þá var ég ekki staddur hér í hv. d., að hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. G.-K. voru að lýsa stjórnmálaskoðunum manns á Vestfjörðum, sem þeir nafngreindu. Þessi maður sögðu þeir, að jafnan hefði fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum og við kosningar, og að það kæmi ekki til mála, að hann hefði verið sviptur vinnu á Hesteyri fyrir það, að hann hefði ekki verð sjálfstæðismaður, sem hann væri enn. Það stendur svo á, að mér er persónulega kunnugt um skoðanir þessa manns og þetta mál. Hann sagði mér, að sér hefði ofboðið svo aðferðir sjálfstæðismanna við kosningar undanfarið, að trú sín á flokkinn hefði dvínað það, að hann hefði neitað að styðja kosningu Jóns Auðuns í Norður-Ísafjarðarsýslu í vor. Þessi maður sagði mér, að hann hefði falað atvinnu hjá Kveldúlfi í sumar, og þá hefði hann fyrst verið spurður að því, hvort hann ætlaði að styðja kosningu Jóns Auðuns. Hann sagðist hafa færzt undan því, sagðist vera kennari í þorpinu og vildi forðast pólitískar deilur og vilja draga sig út úr stjórnmálum. Þá var honum svarað, að úr því svo væri, þá væri þýðingarlaust fyrir hann að fala atvinnu hjá Kveldúlfi. Síðan var genið að þessum manni í útibúi Landsbankans á Ísafirði og honum sagt þar, að ef hann vildi fara til Hesteyrar og vinna þar að kosningu Jóns Auðuns, þá skyldi hann eiga vísa vinnu við síldarverksmiðjuna. En eins og ég hefi áður sagt, þá ofbauð þessum manni svo aðfarir sjálfstæðismanna við kosningarnar í Norður-Ísafjarðarsýslu, að hann sagði, að hann vildi ekki vinna að kosningum með Sjálfstæðisflokknum lengur. Enda skil ég það vel, eftir þeim kynnum sem ég hefi haft af kosningunni í Norður-Ísafjarðarsýslu, að kunnugum manni hafi ofboðið athæfi sjálfstæðismanna þar.

Mér er sagt, að hv. þm. G.-K. hafi staðhæft og lagt drengskap sinn við, að þessi saga væri ekki sönn. Því hefi ég til að svara, að mér er kunnugt um það, að Sveinn Halldórsson hefir boðið eiðstaf við því, að sagan væri sönn, og það get ég sagt óhikað, að ég treysti að óreyndu betur eiðstaf Sveins Halldórssonar en drengskaparloforði hv. þm. G.-K.