25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

26. mál, vinnumiðlun

Ásgeir Ásgeirsson [óyfirl.]:

Ég vil svara nokkrum orðum almennt því, sem vikið hefir verið að mínum brtt. Það er vitanlega rétt, að Alþ. hefir vald til að setja l. um þetta mál, hitt getur verið nokkuð vafasamt, hvort það hefir mátt til að gera það hvernig sem er, svo að gagni megi verða. Það hefir verið margtekið fram, að það er algerlega frjálst bæði vinnuveitendum og hinum, sem þiggja vinnu, hvort þeir skipta við skrifstofuna eða ekki, en það þarf að ganga svo frá þessu máli, að báðir þessir aðiljar vilji skipta við skrifstofuna. Það hefir verið talað um byltingar í sambandi við þetta mál, en það er alveg tilefnislaust. Sú eina bylting, sem komið getur til mála, að yrði, er að verkamenn láti ekki skrá sig á skrifstofunni eða að atvinnurekendur noti ekki skrifstofuna. Þetta er sú eina bylting, sem frjáls er í þjóðfélaginu í þessu efni, (PHalld: Hve lengi er hún frjáls?) að þeir, sem óánægðir eru með skipun skrifstofunnar, noti hana ekki. Það er vitanlega hugsanlegur möguleiki, að þeir, sem halda, að skrifstofan geti ekki starfað fyrir báða aðila, komi með till. um, að öllum sé skylt að leita til skrifstofunnar, bæði verkamönnum og vinnuveitendum, en það er að sjálfsögðu þýðingarlaus till., sem ekki yrði farið eftir, þó samþ. væri. Það er því fullvíst, að fullkomið samkomulag verður að vera um stofnun skrifstofunnar, ef hún á að verða að tilætluðum notum. Það ber á því, að verkamenn telja ástæður til að óttast of mikið vald atvinnurekenda í atvinnumálum, og eins hinu, að atvinnurekendur óttast afskipti jafnaðarmanna af þeim. Þessi ótti verður alltaf við lýði meðan sú skipun varir, sem nú er á þeim málum, og til þess að eyða honum, er engin önnur leið en að koma á stofn vinnumiðlun, sem báðir aðilar geti borið traust til. Ég álít, að rétt sé, að meiri hl. í bæjarstj. eigi að vera í samræmi við meiri hl. skrifstofustj., og að öll eða mestöll atvinna, sem atvinnurekendur eiga yfir að ráða, komi til umráða fyrir skrifstofurnar, því þær verða gagnslausar, ef þeir aðilar leita ekki almennt til skrifstofanna, sem þær eru stofnaðar fyrir. Ég get því ekki fylgt frv., nema líkur verði fyrir því, að þessar skrifstofur verði mikið notaðar, en það tel ég því aðeins tryggt, að mínar till. verði samþ. Ég hefi svo ekki meira að segja við þessa umr. Ég tel mikla þörf á því, að vinnumiðlunarskrifstofu verði komið upp. Þess vegna fel ég, að frv., ásamt mínum brtt., geri mikið gagn, ef að l. verður. Það mun óvíða í heiminum meiri þörf fyrir slíka stofnun en einmitt hér, vegna þess að hér flyzt fólkið í atvinnuleit milli hinna ýmsu atvinnustöðva á landinu meira en gerist víðast hvar annarsstaðar í heiminum.