30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

26. mál, vinnumiðlun

Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson) [óyfirl.]:

Ég hafði nú vænzt þess, að þetta mál yrði tekið fyrir að degi til, en ekki eftir miðnætti, en vitanlega verður það svo að vera, ef það er vilji hæstv. forseta.

Ég og hv. þm. Snæf. berum fram allgagngerðar brtt. við frv. það, sem hér liggur fyrir. Við 2. umr. þess mæltum við gegn því, og töldum, að það væri fram komið í pólitískum tilgangi, til þess að jafnaðarmenn gætu náð yfirráðum yfir þeirri skrifstofu, sem samkv. öllum reglum á að vera undir stj. bæjarstj. Rvíkur. Það hefir komið í ljós við umr. um þetta mál, að þeir menn, sem fyrir þessu frv. mæltu óbreyttu, töldu, að ríkið ætti að hafa yfirstj. vinnumiðlunarskrifstofunnar, sökum þess, að allverulegt fé væri lagt fram frá ríkissjóði til atvinnubóta, og þess vegna væri rétt og sanngjarnt, að ríkistj. hefði fullkominn íhlutunarrétt um meðferð þess fjár.

Eins og brtt. á þskj. 222 bera með sér, þá höfum við komið fram með þá breyt., að í staðinn fyrir að hafa eina vinnumiðlunarskrifstofu í hverjum kaupstað, og að bæjarstj. sé skylt að setja slíka skrifstofu á stofn, ef atvmrh. óskar þess, þá sé stofnuð sérstök vinnumiðlunarskrifstofa ríkisins, og síðan sé bæjarstj. heimilt að setja sérstakar ráðningarskrifstofur á stofn í kaupstöðum. Þessa till. höfum við borið fram með tilliti til þeirra umr., sem fóru fram um málið.

2. brtt. á þessu þskj., sem er við 2. gr. frv., ber það með sér, hvern tilgang við hugsum okkur, að vinnumiðlunarskrifstofa ríkisins hafi, og er þar talið upp í 5 liðum hennar hlutverk. Þessi skrifstofa á í fyrsta lagi að gera till. til ráðningaskrifstofa kaupstaðanna um fyrirkomulag og úthlutun atvinnubótavinnu eða annarar vinnu, sem kostuð er af ríkissjóði. Í þessari málsgr. er í raun og veru farið inn á það atriði, sem stuðningsmenn þessa frv. lögðu mesta áherzlu á við 2. umr. málsins, sem sé það, að vinnumiðlunarskrifstofa ríkisins hefði fullkominn íhlutunarrétt og meirihlutavald um það, hvernig atvinnubótavinnu væri úthlutað. Ég leyfi mér með leyfi hæstv. forseta að lesa upp ummæli hæstv. atvmrh. um þetta, þegar hann mælti fyrir frv. Hann segir: „Ætlunin er sú, að vinna sú, sem framkvæmd er í atvinnubótaskyni, komi sem jafnast niður, og að vinna sú sem unnin sé í atvinnubótavinnu, komi að sem mestu gagni“. Og svo segir hann ennfremur: „Ég vil benda hv. þm. Vestm. á það, að það er eðlilegt, að stj. vilji líta eftir því, hvernig atvinnubótavinnu er hagað, þar sem t. d. nú er gert ráð fyrir 500 þús. kr. til atvinnubótavinnu“.

Hv. 2. þm. Árn. segir um þetta, með leyfi hæstv. forseta: „Mér finnst eðlilegt, að atvmrh. ráði miklu um það, hvernig vinnu er skipt milli manna, m. a. vegna þess, að nú er tekin upp í fjárl. ákveðin upphæð til atvinnubótavinnu“, og - „Það hefir líka verið tekinn upp sá háttur, að ríkið styrki margskonar atvinnu í landinu, og er því eðlilegt, að stj. fái æ sterkari aðstöðu til að ráða t. d. því, hvernig framlögin úr ríkissjóði eru notuð“.

Af ræðum hæstv. atvmrh. og hv. 2. þm. Árn. má sjá, að meðmæli þeirra með þessu frv. og rök þeirra fyrir því, hvers vegna umráðin yfir þessum skrifstofum eru fengin ríkisstj. í hendur, byggjast á því, að þeir telja, að það fé, sem þannig er veitt úr ríkissjóði, eigi að vera undir umsjón ríkisstj. og úthlutað eftir till. hennar. Hinsvegar efast ég ekki um það, að öllum þeim, sem hlustuðu á 2. umr. og jafnvel 1. umr. þessa máls, var það ljóst, að eins og frv. er nú getur það aldrei náð þeim tilgangi, sem ætlazt er til. Þessi vinnumiðlunarskrifstofa, sem sósíalistar hér hafa komið með inn í þetta þing, getur ekki orðið þess valdandi, að samvinna myndist milli þeirra aðilja, sem í raun og veru eiga að búa að henni í framtíðinni, sem sé atvinnuþiggjenda og atvinnuveitenda. Ef óánægja myndast eða rígur um starfsemi slíkrar skrifstofu, þá er það útilokað, að þeir, sem annars mundu til hennar leita, geri það. Menn ganga fram hjá vinnumiðlunarskrifstofunni, ef þeir á annað borð tortryggja þá, sem að henni standa, og jafnvel þó að ástæðan sé ekki nema sú, að þeir vita, að hún er stofnuð í pólitískum tilgangi og til þess eins að drepa þá vinnumiðlunarskrifstofu, sem nú þegar er tekin til starfa. Í þessu sambandi má benda á það, að þeir menn, sem hafa beitt sér fyrir þessu máli, eru svo ósvífnir, að þeir hafa gefið það ótvírætt í skyn, að sá maður sem nú stendur fyrir ráðningarskrifstofu bæjarins, muni verða hlutdrægur í garð verkamanna. Hv. l. landsk. og hv. 2. þm. Reykv. eru ekki vandari að virðingu sinni en svo, að þeir leyfa sér að standa upp hér á Alþ. og dæma mann fyrir verk, sem hann er ekki farinn að framkvæma. Ég hygg, að önnur eins framkoma og þetta sé einsdæmi hjá mönnum, sem standa fremstir í eins stórum stjórnmálaflokki og Alþýðuflokkurinn nú er orðinn. Þessir menn tortryggja pólitískan andstæðing sinn, af því að hann hefir verið formaður í pólítísku fél., Varðarfél. En jafnframt þessu halda þeir hrókaræður yfir hv. 2. þm. Reykv., og reyna að telja mönnum trú um, að hann sé eini maðurinn, sem fær sé um að hafa umsjón með byggingarmálum verkamanna, þó að hann sé formaður í öðru pólitísku fél., sem sé Dagsbrún. Því verður ekki neitað, að þetta rekst nokkuð mikið á.

Ég veit það, að bæði hv. 2. þm. Árn. og fleiri menn hér á Alþ., viðurkenna það, bæði beint og óbeint, að tilgangur þessa frv. sé sá einn, að veita þessum pólitíska flokki, sem að vissu leyti fer ranglega með völd hér, með aðstoð löggjafarvaldsins aðstöðu til þess að ná meirihlutavaldi yfir skrifstofu, sem eftir eðli sínu og samkv. lýðræðisreglum á að lúta yfirráðum bæjarstj. Rvíkur.

Hinsvegar skal ég taka það fram, að það eru nokkur rök í þessu máli, að ríkið eigi að hafa íhlutunarrétt um, hvernig því fé sé varið, sem veitt er úr ríkissjóði til atvinnubótavinnu. En það eru ekki svo sterk rök, að þess vegna sé ástæða til þess að setja l. um þetta, þar sem líka ríkið hefir það að vissu leyti á valdi sínu, að setja þeim aðila, sem fyrir úthlutun atvinnubótafjárins stendur, reglur um úthlutun þess og getur þar í raun og veru náð sama tilgangi, án sérstakrar löggjafar. En eins og ég hefi áður tekið fram, þá skal ég játa, að þetta eru þó nokkur rök, og það er þess vegna, sem ég hefi séð ástæðu til að fara hér milliveg og bera fram, ásamt hv. þm. Snæf., till. um það, að vinnumiðlunarskrifstofa ríkisins sé stofnuð, og að henni sé, samkv. 2. gr. frv., falið að sjá um úthlutun atvinnubótavinnu og annarar vinnu, sem kostuð er af ríkinu. Um þessa úthlutun og allt fyrirkomulag þessara framkvæmda er svo hægt að setja reglugerð. Það er að vísu svo, eins og bent hefir verið á hér við 2. umr. málsins, að bæjarstj. Rvíkur hefir í raun og veru sett sér alveg fastar reglur um, hvernig atvinnubótafé sé úthlutað. Það er fyrst og fremst miðað við þörf þeirra manna, sem atvinnubótavinnunnar njóta, og tekið tillit til þess, hvort þeir eru einhleypir eða kvæntir, hvort þeir hafa fyrir mörgum börnum eða skyldmennum að sjá, hvort þeir hafa haft marga vinnudaga á árinu, og hvort þeir hafa verið lengi í Rvík o. s. frv. Þetta eru reglur, sem mér er ekki vitanlegt, að hv. 1. landsk., sem sæti á í bæjarstj. Rvíkur, hafi haft neitt við að athuga hingað til. Og ég veit ekki betur en að sósíalistar hafi haft fulltrúa þar, sem þessari vinnu er úthlutað, og þar af leiðandi var minni ástæða fyrir þá að fara að sletta sér fram í þetta mál.

Í frv., eins og það var afgr. frá 2. umr. ber ráðningarskrifstofunni að fylgjast með atvinnuháttum eftir því, sem auðið er, og safna skýrslum og gögnum í því augnamiði. Við hv. þm. Snæf. höfum hugsað okkur, með brtt., sem við berum fram, að þetta starf verði falið vinnumiðlunarskrifstofu ríkisins, og það er eðlilegast, að sú skrifstofa, sem á að standa í beinu sambandi við ráðningarskrifstofur bæjanna, safni öllum þeim gögnum, sem geta orðið til upplýsinga fyrir alla aðila. Í samræmi við þetta er það, sem segir í 3. lið 2. gr., að vinnumiðlunarskrifstofan á að veita opinberum stofnunum, og verkalýðsfélögum innan A. S. Í., og ennfremur fél. atvinnurekenda, upplýsingar um tölu atvinnulausra í ýmsum kaupstöðum, eftir því, sem hún getur. Samkv. 4. lið 2. gr. á vinnumiðlunarskrifstofa ríkisins að standa í sambandi við ráðningarskrifstofur kaupstaðanna og veita þeim allar upplýsingar í atvinnumálum, er þær kunna að óska, og halda uppi innbyrðis sambandi á milli vinnumiðlunar í kaupstöðum og ennfremur milli kaupstaða og sveita, eftir því sem því verður við komið. Þessi liður brtt. er kominn inn með brtt. hv. þm. V.-Ísf., sem var samþ. við 2. umr. Loks á svo þessi skrifstofa að inna af hendi þau störf, sem henni kunna að verða falin með lögum eða reglugerðum.

Ég benti á það við 1. umr. þessa máls, vegna ummæla hv. 1. landsk. og hv. 2. þm. Reykv., að það gæti orðið allverulegur kostnaður í sambandi við rekstur þessara skrifstofa, og að sá kostnaður mundi lenda á bæjarsjóðunum, og í ýmsum tilfellum alveg í óþökk þeirra. Ég benti líka á það, að það er óeðlilegt, að setja þá kostnaðarliði á bæjarsjóði, sem geta komið fram við það, að löggjöfin kann að fela þessum skrifstofum einhver störf, sem bæjarsjóðirnir hafa í raun og veru engar skyldur til að inna af hendi. Það er þess vegna í samræmi við þessa hugsun, að í þessum brtt. er lagt til, að allur kostnaður við vinnumiðlunarskrifstofu ríkisins sé greiddur úr ríkissjóði. Það eru engin skynsamleg rök til fyrir því, að þau störf, sem hlaðast kunna á slíka skrifstofu, sem hefir verið sett á stofn þvert ofan í vilja bæjarstj., séu unnin á kostnað viðkomandi bæjarsjóðs.

Ég vil nú leyfa mér að gera fyrirspurn til hæstv. forseta um það, hvort nauðsynlegt sé að halda þessum umr. áfram lengra fram eftir nóttunni. Mér virðist satt að segja, að ekki sé til of mikils ætlazt, þó að menn fái að sofa yfir lágnættið, þegar mönnum er ætlað að mæta til þingstarfa snemma að morgni. Þrátt fyrir þessa fyrirspurn mína mun ég taka þátt í umr. engu síður en aðrir, ef hæstv. forseti ákveður, að þær skuli halda áfram.