30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

26. mál, vinnumiðlun

Jónas Guðmundsson:

Út af síðustu ummælum, sem féllu um þetta efni, þá vil ég taka það fram, að við erum hér staddir flestir sósíalistar, og við höfum ekkert á móti því, að umr. sé haldið áfram, ef þess er óskað. Um það, hvort halda á umr. áfram, vil ég segja það sem mína persónulegu skoðun, að þegar slíkt málþóf á sér stað eins og kom fram í umr. um afurðasöluna í dag, þar sem 10 til 20 ræður voru haldnar, án þess að minnzt væri á málið, sem fyrir lá til umr., þá sé ég ekki eftir því, þó að þeir þm. verði að vaka hér fram eftir nóttunni við að ræða þau mál, sem ekki hafa komizt að fyrr. Ég tel því, að fundinum ætti að halda áfram, þangað til mál þau, sem á dagskrá eru, eru útrædd.