30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

26. mál, vinnumiðlun

Ólafur Thors:

Það er tæplega von til þess, að þm. viti, hvar hæstv. ráðh. hafast við á næturnar, en mér finnst þeim engin svívirðing gerð, þótt gert sé ráð fyrir, að þeir sofi heima hjá konum sínum. Ég er nú hálfófróður um þingsköp, en ég hefði gaman af, að forseti upplýsti, hvort þm. mættu vera fjarverandi af fundum án hans leyfis, og ef svo er ekki, þá hverjum hann hefði gefið leyfi til þess að vera fjarverandi af þessum fundi. Eigi fundurinn að standa fram eftir nóttinni, á það að ganga jafnt yfir alla; ég er ekkert að hafa á móti því að sitja hér frameftir, ef þm. væru hér almennt, en nú mun vart meira en helmingur hv. þm. vera hér við. Það er í fyllsta máta óeðlilegt, að sá hæstv. ráðh., sem ber frv. þetta fram, skuli ekki vera viðstaddur. Hæstv. forseti veit, að þetta er mikið deilumál, og hér eiga að koma til umræðu mikilsverðar brtt. Ég sé, að það vantar líka hv. 2. þm. Reykv., formann n. þeirrar, sem fjallar um þetta mál. Það mætti þó alltaf bera það undir þá þm., sem eftir eru, hvort þeir álitu rétt að ræða þetta mál án þess að nokkur ráðh. sé viðstaddur, og þegar formaður allshn., hv. 2. þm. Reykv., lætur ekki heldur sjá sig.