30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

26. mál, vinnumiðlun

Jóhann Jósefsson:

Það mátti ráða af orðum hv. 6. landsk., að einhver krafa hefði komið fram um að halda fundinum áfram. Ég held, að enginn hafi óskað efir því. Þegar búið var að afgr. næsta frv. á undan því, sem nú er til umr., frv. um matsstjóra, þá stóðu allir hv. þm. upp úr sætum sínum og töldu víst, að þá yrði fundi slitið. Það lítur líka út eins og herbragð, að taka nú þetta mikla deilumál til umr. þegar kl. er orðin tólf og fyrir liggja þýðingarmiklar brtt.

Hv. 6. landsk. talaði um, að illa hefði verið farið með tíma dagsins. Hv. þm. veit, að stjórnarandstæðingar eiga ekki fyrst og fremst sök á því. - En ég er á því, að hæstv. forseti ætti að láta sér nægja þá fundarsetu, sem orðin er í dag. En eigi að halda áfram fundi til morguns, skora ég á hæstv. forseta að sjá til þess, að sá ráðh., sem ber ábyrgð á málinu, verði hér viðstaddur þær þýðingarmiklu umr., sem hér fara fram. Hæstv. forseti er það reyndur í sínu embætti, að hann veit, að þýðingarmiklar brtt. við stjórnarfrv. eru aldrei ræddar án þess að hlutaðeigandi ráðh. sé þar til svara. Ég vil eindregið styðja till. hv. þm. G.-K. um það, að borið verði undir hv. d., hvort nú skuli haldið lengur áfram umr.