31.10.1934
Neðri deild: 24. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

26. mál, vinnumiðlun

Thor Thors:

Mér þykir hæstv. atvmrh. og hv. 1. landsk. vilja afgreiða þessa miðlunartill. okkar hv. 8. landsk. nokkuð fljótt. Fannst mér það nærri því koma fram í ræðu hæstv. ráðh., að hann hefði ekki gefið sér tíma til að lesa till. yfir eins og heimta verður af honum, þar sem hann bar þetta mál fram sem stjórnarfrv.

Áður en ég vík að þeim veigalitlu andmælum, sem fram komu hjá tveim síðustu ræðumönnum, vil ég taka það fram, að till. okkar er fram komnar í þeim tilgangi að leysa á friðsamlegan hátt þann mikla ágreining, sem orðið hefir um þetta mál. Sá ágreiningur er fyrst og fremst kominn upp vegna þess, að minni hl. þingd. felur, að með frv. hæstv. atvmrh. sé gengið á rétt meiri hl. bæjarstj. til að skipa sínum málum, eins og þær óska sjálfar. Við teljum, að þetta frv. hæstv. atvmrh. sé fram borið til að taka þennan rétt af meiri hl. bæjarstj. Rvíkur. Að öðru leyti höfum við ekki mjög margt við efni frv. að athuga. Við getum fallizt á, að sú heimild, sem veitt er atvmrh. fyrir hönd ríkisins, og bæjarstj. fyrir hönd bæjarfélaganna, sé réttmæt. En við teljum, að gera verði greinarmun á því, hvert sé verksvið ríkis og hvert bæjarstj. Því leggjum við til, að stj. sé tryggð heimild til að stofna vinnumiðlunarskrifstofu, er úthluti þeirri vinnu, er ríkið leggur fram fé til. En í öðru lagi viljum við, að bæjarstj. sé heimilt að stofna ráðningaskrifstofur bæjarfél. þar sem þörf er á. Sé ég ekki betur en að þetta sé sanngjörn till. Veit ég, að hv. dm. viðurkenna það, ef þeir líta á málið með óhlutdrægni. Hvað er eðlilegra en að bæjarstj. ráði sínum málum, eins og ríkið á að ráða sínum?

Ég hefi því gert mér von um, að þessar till. muni fá góðar undirtektir hér í d., og ég geri mér enn vonir um það, því að andmæli þau, sem fram hafa komið, eru eingöngu frá sósíalistum. Ýmsir hv. dm., sem á málið geta litið með sanngirni, geta fallizt á, að hér sé stefnt í rétta átt.

Mér komu undarlega fyrir sjónir orð hæstv. ráðh. áðan, þar sem hann sagðist ekki skilja það, út frá andstöðu okkar gegn frv. við 1. umr., að nú ætti að fara að dengja þessum ráðningarskrifstofum á, að bæjarstj. fornspurðum. En í till. er einmitt séð fyrir því, að skrifstofurnar verði ekki stofnaðar að bæjarstj. fornspurðum. Í 7. brtt. segir: „Í hverjum kaupstað landsins skal bæjarstj. heimilt að stofna ráðningarskrifstofu“. Hér á því ekki að þvinga neina bæjarstj. út í kostnað, að henni fornspurðri.

Hæstv. ráðh. veit, að okkar andstaða gegn frv. var aðallega af því sprottin, að með frv. hans er ætlazt til, að ríkið seilist inn á þau verksvið, sem heyra undir bæjarstj. eða sveitarstj. Með till. hv. 8. landsk. og mín er þessi agnúi afnuminn, án þess að málið bíði tjón við. Ég vek athygli á því, að í stað þess, að í frv. er gert ráð fyrir því, að ríkið greiði nokkurn hluta af kostnaði við þessa skrifstofur bæjarfél., ætlast brtt. til, að bæjarstj. greiði allan kostnað þeirra.

Ég er ekki hræddur við þann árekstur, sem hæstv. ráðh. talaði um, að verða myndi milli vinnumiðlunarskrifstofu ríkisins og ráðningarskrifstofa bæjanna. Hvor aðilinn hefir sitt valdsvið, svo að ástæðan til misklíðar er engin.

Hv. 1. landsk. sló því fram órökstuddu f. h. meiri hl. allshn., að þessi tvískipting væri óhagstæð. Vona ég, að menn sjái, að þar sem hér er um tvíþætt starf að ræða, er full ástæða til, að það sé unnið í tvennu lagi.

Ég held, að ef sósíalistar halda uppi mikilli andstöðu gegn þessum till., þá sé bersýnilegt, að það er ekki af umhyggju fyrir málinu, heldur vaki fyrir þeim að hrifsa undir ríkið það vald, sem bæjarstj. Rvíkur hefir rétt til að hafa og á að hafa.