31.10.1934
Neðri deild: 24. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

26. mál, vinnumiðlun

Bjarni Bjarnason:

Hv. 8. landsk. las upp ummæli mín við 1. umr. þessa máls. Ég vildi þá undirstrika, að vald atvmrh. gagnvart atvinnubótafénu væri sem bezt tryggt. Ég tel, að þessi tilgangur náist með ákvæði 1. gr. frv. Ég vil undirstrika það, að ég tek ekki tillit til þess, hverjir skipa stj. núna. Við vitum, hver er atvmrh. nú og líka, hvernig bæjarstj. Rvíkur er skipuð. En hver getur dæmt um það, hvernig þetta verður í framtíðinni? Sennilega koma upp nokkrar vinnumiðlunarskrifstofur á næstu árum. En hver þá verður atvmrh., er alveg óvíst. En því hefir verið blandað í málið, hvernig þessu er háttað núna.

Brtt. á þskj. 222 er eftir minni hyggju óþörf. Frv. tryggir það, sem ég vil, að sé tryggt. Ég mun því ekki fylgja brtt., en halda mér við frv. - Hv. þm. Snæf. sagði, að frv. tæki af bæjarstj. ákvörðunarrétt þeirra. En ef nú ákvörðun bæjarstj. er í samræmi við ákvörðun atvmrh., þá er ekki hægt að segja, að þessi réttur sé tekinn af bæjarstj. Það er barnaskapur að líta svona á málið. Ég vildi taka þetta fram til að sýna, að tilgangur frv. er tryggur í því sjálfu. Brtt. er aðeins togstreita um aukaatriði.