31.10.1934
Neðri deild: 24. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

26. mál, vinnumiðlun

Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson) [óyfirl.]:

Hæstv. atvmrh. sagði, að ég myndi verða fyrir vonbrigðum um afstöðu hans til brtt. Ég verð að játa þá skoðun mína, að ég áleit, að hæstv. atvmrh. kynni að fara batnandi. En það er auðvitað varla von á því á svo skömmum tíma, sem liðinn er frá 2. umr. Ég verð því að kannast við, að ég hefi verið of bjartsýnn um afstöðu hans til þessa máls. Hann má því ekki skoða þessi ummæli mín sem ofmikið traust. Ég tek undir það með hv. 2. þm. Árn., að það er vonandi, að hann sitji ekki um alla eilífð í ráðherrastóli.

Hæstv. atvmrh. sagði, að ég horfði ekki í kostnaðaraukann, sem till. myndi hafa í för með sér, ef hún yrði samþ. Í frv. stj. er gert ráð fyrir 5 manna stj., en eftir till. okkar 6 manna stj. En þess ber að gæta, að ef stj. ætlar með meirihl.valdi sínu að þvinga þessi l. í gegn, þá hefir það þá afleiðingu, að sumir kaupstaðirnir munu setja á stofn sínar eigin ráðningaskrifstofur. Kostnaðurinn verður því engu minni, þó frv. verði samþ. Þess er líka að gæta, að eins og þetta er hugsað, þá verður, þó að það sé ekki nema 3 manna stj., einhver ákveðinn maður að vera fyrir þessu, og verður aðalgreiðslan til hans. En ef brtt. er samþ., þá hlýtur að verða minna starf á vinnumiðlunarskrifstofu ríkisins og þar af leiðandi minni kostnaður. Tal hæstv. ráðh. um kostnaðarauka, ef till, verður samþ., er einungis út í loftið og sagt til þess að vekja tortryggni gagnvart till.

Hæstv. atvmrh. sagðist vera kominn að 7. lið, þegar ég minnti hann á þann lið áðan. En ég er hræddur um, að hann hafi ekki athugað hann vel. Það verður a. m. k. ekki séð af ræðu hans. Ef hann hefði gert það, þá hefði honum orðið ljóst, að samkv. 7. gr. brtt. 3. tölul. er ráðningaskrifstofum kaupstaðanna ætlað að úthluta vinnu, sem þeim er falið af vinnumiðlunarskrifstofu ríkisins. Þar stendur svo: „Að úthluta vinnu þeirri, sem kostuð er af bæjarsjóðum, svo og annari vinnu, er skrifstofunni kann að verða falið að úthluta, sbr. 2. gr., 1. lið“. Vinnumiðlunarskrifstofa ríkisins gerir till. um úthlutun atvinnubótavinnunnar, sem kostuð er af ríkissjóði. En ef þetta er í vegi fyrir því, að hæstv. atvmrh. sé fylgjandi till., þá má breyta orðalaginu þannig, að ráðningaskrifstofum kaupstaðanna sé skylt að fara eftir till. vinnumiðlunarskrifstofu ríkisins. Hæstv. atvmrh. hlýtur að vera ljóst, að ef ein af ráðningarskrifum kaupstaðanna vill ekki fara eftir till. vinnumiðlunarskrifstofu ríkisins, þá er það hægur vandi fyrir ríkisstj. að draga að sér hendina um útborgun atvinnubótafjárins. Ráðh. hefir það alveg í hendi sinni, að neita að borga út atvinnubótaféð, ef ekki er farið eftir till. vinnumiðlunarskrifstofu ríkisins. Ég er sannfærður um, að núv. hæstv. atvmrh. myndi ekki hika við að beita því valdi. Með orðalagi 7. gr. er stj. alveg tryggður réttur til íhlutunar um atvinnubótavinnu, sem unnin er fyrir fé ríkissjóðs. Ríkisstj. getur neitað að borga féð, ef ekki er farið eftir hennar till. Þarna getur ekki orðið neitt árekstrarefni. En ef það yrði, þá hlyti ríkisstj. að sigra, því að hennar er féð og ríkisstj. ræður, hvort greitt er eða ekki. Svo má í áframhaldi af þessu minna á, að það er óeðlilegt, að vinnumiðlunarskrifstofan hafi ein, eins og gert er ráð fyrir í frv., rétt til að úthluta fé, sem bæjarstj. leggja fram. Ég veit, að hæstv. ráðh. getur ekki svarað því játandi, en ef hann gerir það, þá gerir hann það gegn rödd samvizku sinnar. Hann getur ekki haldið því fram, að það sé sanngjarnt, að vinnumiðlunarskrifstofan hafi endanlegt vald um það, hvernig fé, sem bæjarstj. leggja fram, er úthlutað. Í þessu efni getur auðvitað orðið árekstur milli skrifstofunnar og bæjarstj. hinsvegar. Og áreksturinn getur eins orðið, ef frv. verður samþ. óbreytt. Árekstur verður einungis, ef vinnumiðlunarskrifstofan vill fara að sletta sér fram í úthlutun þess fjár, sem bæjarstj. ber að úthluta.

Hæstv. ráðh. getur ekki gengið framhjá fyrri afstöðu sinni til þessa máls. Hann færði áður þau aðalrök fyrir málinu, að vinnumiðlunarskrifstofan ætti að sjá um úthlutun atvinnubóta og tryggja það, að ekki sé gengið á hluta ríkisins. En þessi rök duga ekki, þegar þessi nýja till. kemur fram. Minni hl. n. segir, að vinnumiðlunarskrifstofa ríkisins eigi að úthluta því fé, sem ríkið leggur fram, en bæjarstj. því, sem þær leggja fram.

Það er leiðinlegt, að hv. 2. þm. Árn. skuli ganga frá orðum sínum við 2. umr. þessa máls. Þá sagði hann, að það væri rétt, að ríkisstj. úthlutaði því atvinnubótafé, sem ríkið legði fram. Þá sagði hann líka, að það væri ekki rétt, að hún úthlutaði því fé, sem bæjarsjóðir legðu fram. Hann sagðist hugsa um framtíðina, en ekki það, hver sé ráðh. nú. En hann ætti að skoða þetta mál í því ljósi, að þetta frv. er einungis komið fram vegna núv. ástands, að Sjálfstæðisflokkurinn hefir meirihl.vald í bæjarstj. Hvorki hv. 2. þm. Árn. né hv. þm. jafnaðarmanna vilja taka tillit til þess, sem verða kann, að þessi stj. fari frá og sjálfstæðismenn taki við. Sjálfstæðismenn myndu aldrei hafa komið fram með svona frv. þó þeir hefðu haft meiri hl. í þinginu, því að sjálfstæðismenn berjast fyrir því að varðveita rétt bæjarstj. Það eru því sjálfstæðismenn, sem hugsa meira heldur en um líðandi stund. Þeir vilja ekki samþ. þetta frv. í þeirri von, að þeir nái völdum. - Hæstv. ráðh. sagði, að andspyrna Sjálfstæðisflokksins í þessu máli bæri vott um litla trú á málstað flokksins. En sannleikurinn er sá, að sjálfstæðismenn hafa enga löngun til að ná valdi yfir því, sem samkv. öllum lýðræðisreglum á að hvíla hjá öðrum. En hæstv. ráðh. óttast, að hans flokki hraki, þar sem hann leggur svona mikla áherzlu á að ná valdi yfir ráðningarskrifstofu Rvíkur. Af því að hann veit, að jafnaðarmenn ná ekki meiri hl. í Rvík, þá vill hann með valdboði tryggja þeim þennan rétt. Afstaða sjálfstæðismanna er sannarlega ekki vottur þess, að þeir trúi ekki á málstað sinn. Sjálfstæðisflokkurinn tekur tillit til þess, sem verða kann. Hann veit, að það geta orðið ráðherraskipti. En hann vill ekki, að ríkisstj., af hvaða flokki, sem hún kann að vera, hafi íhlutunarrétt, þar sem meiri hl. bæjarstj. á að ráða. Einu rökin fyrir frv. eru þau, að stj. eigi að hafa íhlutunarrétt um það fé, sem ríkið leggur fram. Við bjóðumst til þess að samþ., að sérstök skrifstofa verði stofnuð til að sjá um það. En ef hv. þm. vilja ekki ganga inn á það, þá hafa þeir viðurkennt, að tilgangur frv. stj. sé sá, að tryggja stj. það vald, sem á að vera hjá bæjarstj.