31.10.1934
Neðri deild: 24. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

26. mál, vinnumiðlun

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég er nú hræddur um, að hv. þm. hafi verið of góður með sig og þótzt of klókur að leggja snörur. Þetta minnir mig á orðtæki eða gamlan málshátt er hljóðar svo „sér grefur gröf þá öðrum grefur“. Hann hefir grafið sjálfum sér gröfina, hefir flækt sjálfan sig, því hann gat enga upphæð nefnt. (GÞ: Þetta var gildran). Hann hefir flækt sjálfan sig í þeirri gildru, hv. þm., því eins og hv. þm. Snæf. játaði viðvíkjandi kostnaðinum, er munurinn ekki verulegur, því hann verður hærri á öðrum liðum. Hugleiðingar hans um kostnað við 40 starfsmenn eru því alveg út í bláinn. Annars var það ekki ræða þessa hv. þm., sem gaf mér tilefni til að segja nokkur orð, heldur hv. þm. V.-Ísf. Hann taldi sig geta fallizt á þessar brtt. Þær væru í betra samræmi við sjálfsákvörðunarrétt bæjanna og venjuna um nefndaskipun. Ég er nú hræddur um, að þetta sé á misskilningi byggt. Ég veit ekki betur en að fjöldi n. sé skipaður eftir sömu grundvallarreglum og þessi n. á að vera skipuð. Ég veit ekki betur en að t. d. skólan. séu skipaðar á þann hátt, að ráðh. tilnefnir oddamanninn. Ég veit ekki betur en að fjmrh. skipi oddamann í skattan., m. a. s. hér í bænum er oddamaður niðurjöfnunarn. skattstjórinn, skipaður af ráðh. Ég veit ekki betur en að hér í þinginu núna séu tvö frv., þar sem gert er ráð fyrir fastanefndum, og að viðkomandi ráðh. skipi oddamann í þeim báðum, - það eru l. um afurðasöluna, kjöt og mjólk -, og að öðru leyti eftir till. bæjarstjórnar, og ég hefi ekki heyrt þessu mótmælt eða heyrt neinn tala um ranglæti í þessum efnum, en nú fyllast þessir menn heilagri vandlætingu í þessum efnum, bara af því þeim þykir ráð þeirra skert um of í svipinn.