12.12.1934
Neðri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

7. mál, gengisviðauki

Ólafur Thors:

Þessi brtt. er nýframkomin. Hún er um hvorki meira né minna en það, að leggja nýja skatta á, sem nema 340 þús. kr., eftir því sem hæstv. fjmrh. hefir gert grein fyrir. Ég vil þegar láta þau orð falla, að það er auðvitað óviðfelldið, svo ekki sé sterkara að orði kveðið, að ætla sér að hafa þetta form á nýrri skattaálagningu, að bera fram brtt. við 3. umr. frv. í seinni d. Það þarf að vísu að fara aftur til Ed., ef brtt. verður samþ., en þrátt fyrir það er þetta ekki þingleg meðferð, þegar um slíkt mál er að ræða sem þetta. Ég vil samkv. ósk hæstv. forseta ekki ræða efnishlið málsins núna, en fara fram á það, eftir að hæstv. fjmrh. hefir skýrt frá málinu og ég hefi látið þessi orð falla, að það verði tekið út af dagskrá, og fjhn. fái tækifæri til þess að athuga það. Teldi ég þá rétt, að n. reyndi að fá fjmrh. á sinn fund og hann gerði ýtarlega grein fyrir frv. Ég tel þetta heppileg vinnubrögð í máli sem þessu og vænti þess, að hæstv. forseti verði mér sammála um þetta.