14.12.1934
Neðri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

7. mál, gengisviðauki

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl]:

Það hefir komið allgreinilega fram nú við umr., þótt þær hafi ekki verið langar, hvernig á því stendur, að frv. þetta um gengisviðauka er fram komið. Bæði í ræðu minni í gær og í fyrradag gerði ég grein fyrir því, hvernig fjárl. litu út nú og hvers væri að vænta af þeim tekjuöflunarfrv., sem ýmist hafa verið samþ. eða liggja fyrir þinginu: Svo endurtók ég þetta á fundi í fjhn., og hv. þm. G.-K. hefir rætt þetta hér nú enn á ný. Ég bygg því, að mönnum sé orðið þetta mál vel kunnugt.

Okkur hv. þm. G.-K. ber ekkert á milli um áætlanirnar um það, hvað tekjuaukafrv. muni gefa af sér. Þó hygg ég, að óviljandi töluskekkja hafi orðið í áætlunum þessum hjá hv. þm. Hann taldi, að tekjuaukafrv. mundu gefa af sér 1600 þús. kr., en eftir þeim áætlunum sem ég hefi gert, nemur þetta 1 millj. og 500 þús. kr. Ég hefi áætlað tekjuaukann þannig: Vegna 1. um tekju- og eignarskatt 850 þús. kr., vegna tolllagabreyt. 400 þús. kr., vegna einkasölu á eldspýtum og breyt. á áfengisl. samtals 100 þús. kr., og vegna hins nýja stimpilgjalds 150 þús. kr. Eins og fjárl. líta út nú, er því tekjuhallinn á þeim 440 þús. kr. Þó að hv. þm. G.-K. álíti, að þessir liðir muni sumir gefa meira af sér, þá er síður en svo, að fjhn. álíti a. m. k., að tollalagabreyt. muni gefa meira af sér, en ég áætla. Tel ég þess vegna, að halli fjárl. sé nú, miðað við, að þessi frv. verði samþ. 440 þús. kr. Svo hefi ég gert þessa till. um breyt. á l. um gengisviðauka, sem hér liggur fyrir, sem á að gefa um 340 þús. kr. tekjuauka í ríkissjóð. Þá er mismunurinn orðinn 100 þús. kr., og mundi ég leggja upp með þetta, með það fyrir augum að hafa heimildina til einkasölu á bifreiðum o. fl. í bakhönd.

Út af því, sem hv. þm. sagði að öðru leyti um það, að þessa frv. væri ekki þörf, vegna þess að áfengisverzlunin mundi gefa af sér meiri tekjur en áætlað er í fjárl., vegna bannlagabreyt., þá vil ég halda því fram, að um þetta sé ekkert hægt að segja nú, heldur sé þetta allt í óvissu enn. Það má færa sterk rök fyrir því, að það sé mjög háskalegt að miða í áætlun við það, að tekjuauki verði mikill af áfengisverzluninni, fram yfir það, sem nú er áætlað. Ég vil benda hv. þm. á það að ef þetta frv. verður ekki samþ. um nálega 340 þús. kr. aukatekjur, þá reiknast mér, að mundu verða 540 þús. kr. útgjöld, sem ekki væru áætlaður tekjur fyrir, með því að ég geri ráð fyrir, að útgjaldaliðir fjárl. hækki um 100 þús. kr. við 3. umr., eða ekki minna. Ég get ekki fallizt á, að skynsamlegt sé að ætla, að óáætlaðar tekjur af áfengisverzluninni muni jafna þennan halla.

Þá sagði hv. þm. G.-K., að hann vænti þess, að sjálfstæðismenn gætu gengið inn á að samþ. þetta frv., ef því væri heitið í staðinn, að það, sem áfengisverzlunin gæfi meira af sér heldur en þær 1320 þús. kr., sem áætlað er, yrði ekki tekið í ríkissjóðinn til þess að nota það sem eyðslueyri fyrir ríkissjóð, heldur yrði það lagt í sérstakan sjóð, sem yrði látinn ganga til stofnunar skuldaskilasjóðs útgerðarmanna. Slíka yfirlýsingu treysti ég mér ekki til að gefa, af þeim ástæðum, sem nú skal greina.

Eins og mönnum er kunnugt, er það svo, að þótt með samþ. þessa frv. sé fenginn því nær fullkominn jöfnuður á fjárl. eins og þau liggja fyrir, þá er vitað um ýms útgjöld á árinu 1935, sem ekki er á minnzt í fjárl.frv. Má í því sambandi nefna tillag til skuldaskilasjóðs útgerðarmanna — því að það mál verður væntanlega leyst á næsta þingi —, væntanlegt tillag til verðuppbótar á kjöti, og einnig vil ég nefna tillag til vaxtagreiðslu af landbúnaðarlánum, sem ekki er í fjárl., en frv. um þetta er á leiðinni gegnum þingið. Og þó að það e. t. v. nái ekki fram að ganga nú á þessu þingi, þá hlýtur það, að verða samþ. ekki síðar en á næsta þingi. Það koma því á árinu 1935 ýms útgjöld til greina úr ríkissjóði, sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlagafrv. Ennfremur vil ég henda á það, að í frv. um fiskimálan. o. fl. er gert ráð fyrir allt að 1 millj. kr. framlagi til ýmissa nauðsynjamála sjávarútvegsins. Gert er ráð fyrir, að til þessara hluta verði tekið lán. En ef það gæti tekizt að fá upp í þessar greiðslur aukatekjur að einhverju leyti, svo að ekki þyrfti að taka allt féð, sem til þeirra þarf, að láni, þá væri það auðvitað betur farið. Þess vegna vil ég alveg sérstaklega vekja athygli á því í þessu sambandi, að svo mikil útgjöld ríkisins eru fyrirsjáanleg á árinu 1935, sem ekki er gert ráð fyrir á fjárlagafrv., sem sérstakra tekna verður að afla til að standast, ef tekjuliðir fjárlagafrv. fara ekki fram úr áætlun, þannig að ekki er vafi á því, að ef það sýndi sig á næsta Alþ., að áfengisverzlunin gæfi af sér meiri tekjur en menn nú gera sér ákveðnar vonir um, þá mundi ríkisvaldið taka því fé fegins hendi, sem þannig fengist til þess að nota það í þessi fjárframlög, sem ég hefi nú rakið og ekki er gert ráð fyrir í fjárlagafrv., sem sérstakra tekna árinu 1935 úr ríkissjóði. Þetta mál er svo margþætt, að ekki er hægt að segja nákvæmlega um það nú, hvernig útkoman verður, og því átti ég ekki hægt að gefa neinar slíkar bindandi yfirlýsingar sem hv. þm. G.-K. var að leita eftir.

Menn geta e. t. v. gert sér í hugarlund, að hægt sé að láta bíða að afla þeirra tekna, sem með þessu frv. á að gera, þangað til á þinginu, sem væntanlega kemur saman í marz í vetur. En ég álít, að þetta sé ekki hægt að láta bíða þangað til, vegna þess, að ef þetta tekjuaukafrv. verður ekki samþ. fyrr en þá, þá verkar það ekki nema hálft árið 1935. Hinsvegar sjá það allir, að ef einhverjar tekjur kæmu fram yfir áætlun af áfengisverzluninni, þá kæmu þær allt árið 1935, vegna þess að breyt. á áfengisl. verður samþ. á þessu þingi. Á næsta þingi verður betra að sjá það heldur en nú, hverra tekna má vænta af áfengisverzluninni, og eins og menn sjá af því, sem ég hefi tekið fram, eru nóg not fyrir þær fjárupphæðir, sem þannig kynnu að aflast ríkinu, bæði til stofnunar skuldaskilasjóðs og margs annars.

Að öðru leyti vil ég benda á, að það getur komið fram, eins óvíst og nú er um afkomu ríkisins út á við og sölu afurðanna, að næsta ár verði lakara en menn nú ímynda sér í þessum efnum, og að ýmsir tekjustofnar gefi minna af sér heldur en nú er búizt við. Ef því svo færi, lít ég svo á, að þá yrði fyrst og fremst að hugsa um það, ef tekjur áfengisverzlunarinnar yrðu meiri en gert er nú ráð fyrir, að þær gætu þá gengið til þess að bæta upp það, sem kynni að skorta á aðrar tekjur miðað við áætlun um þær. Einnig af þessari ástæðu geng ég ekki inn á að gefa bindandi yfirlýsingar um það, sem hv. þm. G.-K. talaði um. Enginn þarf að kvíða því, að ekki verði nóg við það fé að gera, sem fást kynni af áfengisverzluninni fram yfir áætlun.

Af því að svo mikið hefir verið talað um auknar tekjur af áfengisverzluninni, þá vil ég benda á, að það er ljóst, að þegar farið verður að selja sterka drykki í áfengisverzluninni, þá fæst minni álagning og minni tollur af hverri áfengiseiningu heldur en með því að selja léttari vín. Til þess að áfengistollurinn gefi sömu tekjur í ríkissjóð, þarf því að nota miklu meiri vínanda í landinu heldur en áður. Ég viðurkenni, að það hefir verið neytt töluverðs af áfengi á ólöglegan hátt, sem enginn tollur hefir fengizt af. Ef vel tekst til með tollgæzluna, þá vænti ég, að þessi utanhjásala minnki. En mismunur er svo mikill á vínandaeiningu, tolli og álagningu á sterkum og veikum vínum, að það þarf að vera miklu meiri neyzla á sterkum vínum en veikum til þess að sömu tekjur náist. Ég tel þetta allt í svo mikilli óvissu, að óvarlegt sé að treysta á það.